3. nóvember 2008

Krónan myrt

Lárus Welding kom í Silfrið rétt fyrir bankahrunið og sagði bankann saklausan af árásum á gengið. Ég bloggaðu um furðulegar gengissveiflur þann 12. september, 15. september, 18. september , 20. september og 21. september

Það var ærin ástæða til að telja bankana hafa haft neikvæð áhrif á gengið. Það féll eins og klukkulóð í hvert sinn sem kom að uppgjöri hjá bönkunum. Og það féll dýpra í hvert sinn. Línuritið sem myndaðist var það sama og ég hef ótal oft teiknað upp fyrir nemendur mína og á að sýna feril eiturlyfjasjúklings sem alltaf þarf stærri skammt.

Mig langar, sjálfs míns vegna, að taka saman nokkur af ummælum mínum úr þessum færslum á einn stað. Þeir sem ekki nenna að lesa þetta eru löglega forfallaðir:

12. sept. Dularfullir jarðskjálftar á Íslandi

Skjálftavirknin er hafin. Á örfáum dögum er búið að jafna 169 stigin. Ekkert bendir til þess að þar verði látið staðar numið í þetta skiptið. Toppurinn mun vafalaust klifra enn hærra næstu vikuna eða tvær.

Og hvað skyldi vera að gerast?

Greiningardeildir bankanna hafa haft svör á reiðum höndum í öll skiptin. Það er alltaf eitthvað við íslenska hagkerfið sem útlendingar gætu haft efasemdir um.
Og það var auðvitað tilviljun að gengishrunið í mars kom á besta tíma fyrir bankana. Það var líka tilviljun að gengishrunið í júní kom á besta tíma fyrir bankana. Það er líka tilviljun að gengishrunið sem nú er að verða er á besta tíma fyrir bankana.

Alveg eins og það var tilviljun að gengið sveiflaðist á nákvæmlega sama hátt í "síðustu kreppu", um áramót, í mars, júní og september 2002.
Og það er auðvitað líka bara hending að það eru bankarnir sjálfir sem höndla með vöruna sem sveiflast svona ótrúlega heppilega í takt við þarfir þeirra.

15. 9. Greiningardeildir og krónan

Blaðamenn virðast lítið botna í fjármálaheiminum. Lái þeim hver sem vill. Þess vegna hafa greiningardeildirnar, talsmenn bankanna, matreitt sannleikann ofan í meira og minna alla fjölmiðla.

Það virðist engin greiningardeild starfa á fjölmiðli.
Geir Haarde kom í Silfrið í gær og sagði að krónan væri ekki vandamálið. Vandamálið væri verðbólgan. En hvað kom verðbólgunni af stað?
Þarna sjást greinilega stökkin þrjú, sem urðu á gengisvísitölunni í marsjúní og loks núna í september. Það ber þó að hafa í huga að september er aðeins hálfnaður. Miðað við síðustu þrjá ársfjórðunga væri hreint ekki ólíklegt að meðalgengisvísitala septembermánaðar endaði nærri 200 stigum.
Það sem vekur auðvitað athygli er hve svipuð þróun hefur orðið á verðbólgu og gengi. Og líka það að gengið virðist fara á undan, þ.e. verðbólga eykst þegar krónan hefur lækkað.
Það er fjöldinn allur af einkaaðilum sem hrærast í gengisumhverfi krónunnar. Þessir aðilar reyna að lifa af á markaði og hafa gert sínar áætlanir í ljósi eðlilegrar stöðu á markaði. Í hvert skipti sem bankarnir henda niður genginu (n.b. af því það hentar reikningum þeirra en ekki vegna málefnalegra ástæðna) má líta á það sem ofbeldisfulla þjóðnýtingu á eignum annarra.
Það er ekki ólíklegt að á Íslandi verði tvær kreppur. Ein efnahagskreppa og ein trúverðugleikakreppa.
Með hverjum deginum sem líður eykst ábyrgð fjölmiðla á þeirri síðarnefndu.

18.9. Krónan / Catch 22

Það þarf ekkert að rökræða það lengur. Það er ekki tilviljun að krónan fellur ársfjórðungslega. Bankarnir fella hana.

Þeir virðast hafa gert það áður, árið 2002.
Að þessu leyti er þjóðin sumpart eins og lúbarin eiginkona góðrar fyrirvinnu.
Ég hef töluvert velt því fyrir mér hvernir stendur á því að liðið sem stjórnar landinu tekst ekki á við þetta mál með einhverjum hætti. Ég held ég sé búinn að átta mig á því.
Ástæðan er auðvitað sú að sveiflur eins og þessar hljóta að vera eins og strekkja á teygju. Bankinn getur fellt gengið til að bjarga sjálfum sér fyrir horn en áhrifin eru tímabundin og - í huga Haarde og fleiri - betri en áhrif þess að íslenskir bankar skili loks hinum vondu uppgjörum sem allir hafa verið að búast við mjög lengi.
Á fjögurra mánaða fresti legst þjóðin nauðug viljug á árarnar með bönkunum til að koma þeim í gegn um næsta brimskafl. Fari svo að banki fari illa er það auðvitað þjóðin sem blæðir.
Það þarf miklu meiri hreinskilni um efnahagsmálin. En það þorir enginn mikilvægur að tala. Vitandi það að hressileg og hreinskilin umræða getur hreyft við jarðskjálftamælum fjármálaheimsins. Það vill enginn bera ábyrgð á því. Þess vegna eiga allir að þegja. Þess vegna kom Davíð í sjónvarp áðan og sagði þjóðinni að halda kjafti.

Allt sem hægt er að drepa með hreinskilni er betur komið dautt.

20. 9. Ingibjörg Sólrún segir það sem Geir ekki þorði

Af einhverjum ástæðum vakti það enga athygli fjölmiðla þegar krónan fór að falla nú í september. Eins og hún hafði gert í mars og júní. Gengisfall sem hefur skelfileg áhrif á þjóðina alla og eykur að sjálfsögðu verðbólgu.


Það hefu verið vitað lengi að bankarnir gætu fellt krónuna ef þeir vildu. Það hefur verið vitað jafn lengi að þeir hafa haft af því ærinn hag. Það eina sem ekki hefur verið ljóst er hvort þeir væru virkilega svo siðlausir að velta vandanum svona kinnroðalaust yfir á aðra. Og hvort þeir hafi virkilega verið svo vitlaustir að trúa að fólk sæi ekki í gegn um brellur þeirra.


Nú hafa þrír stjórnmálamenn talað um stöðuna. Haarde tekur þátt í leiknum með bönkunum og var svo svívirðilegur að kenna verðbólgunni um. Þar með hafði hann sent Davíð Oddssyni eitraða pillu, því verðbólgan er jú hans mál. Þá steig Davíð á stokk og ítrekaði gömul ummæli um að verið væri að fitla við krónuna. Hann áréttaði andstyggð sína. Loks gekk Imba fram í dag og staðfesti greiningu mína frá því í fyrradag.
Það hugnast stjórnvöldum frekar að láta bankana standa af sér áhlaupin þar sem kostnaðurinn við fall þeirra bitni hvort eð er á þjóðinni. Það má vel líkja þessu við það að sjúklingur, sem brotinn er á báðum fótum, sé píndur til að standa uppréttur í því skyni að gefa einhverjum falskar hugmyndir um heilsufar hans.
Athæfi bankanna er algjörlega siðlaust. Stjórnvöld eru að sama skapi huglaus. Það er verið að stela peningum af þjóðinni til að borga fyrir fyllerí (svo notuð sé líking Imbu) sem hún ber enga ábyrgð á.
Það er fjölmiðlum til fullkomins vansa að þeir skuli ekki hafa kveikt á því sem var að gerast. Þeim er engin vorkunn lengur. Nú verða fjölmiðlamenn að vakna.

Bankarnir eru að fremja glæp aldarinnar á þjóðinni. Haarde og Imba eru samsek.


21.9. Silfur Egils

Viðtal Egils við Lárus Welding var gott. Það voru þó mistök af hálfu Lárusar. Egill kom honum í klípu. Lárus virðist líta svo á að bankinn sé ekki orsakavaldur í málum ef aðrir koma að þeim með bankanum. Þá er bankinn milliliður í hreyfingum á markaði. Þannig gildir um FL og auðvitað um krónuna líka.
Lárus taldi, eins og sumir aðrir, að ólíklegt sé að bankarnir felli krónuna af því það sé ekki í takt við langtímahagsmuni þeirra. Það hefur enginn sagt það og það er ekkert skilyrði þess að fólk trúir ósvinnunni á bankana. Það eru stækir skammtímahagsmunir sem valda krónufallinu.
Ef rétt er að bankarnir hafi veikt krónuna viljandi þá er neitun Lárusar í dag það sem gerir álið að enn stærra máli. Sum mál eru aðeins flekkur á siðaregisteri þangað til reynt er að ljúga sig út úr þeim. Þá verða þau að gapandi svartholum sem eiga það til að gleypa syndarann.

Engin ummæli: