Það þarf ekkert að rökræða það lengur. Það er ekki tilviljun að krónan fellur ársfjórðungslega. Bankarnir fella hana.
Þeir virðast hafa gert það áður, árið 2002.
Að þessu leyti er þjóðin sumpart eins og lúbarin eiginkona góðrar fyrirvinnu.
Ég hef töluvert velt því fyrir mér hvernir stendur á því að liðið sem stjórnar landinu tekst ekki á við þetta mál með einhverjum hætti. Ég held ég sé búinn að átta mig á því.
Ástæðan er auðvitað sú að sveiflur eins og þessar hljóta að vera eins og strekkja á teygju. Bankinn getur fellt gengið til að bjarga sjálfum sér fyrir horn en áhrifin eru tímabundin og - í huga Haarde og fleiri - betri en áhrif þess að íslenskir bankar skili loks hinum vondu uppgjörum sem allir hafa verið að búast við mjög lengi.
Það skiptir auðvitað engu máli þótt húsnæðislán fjölskyldu í Grafarvogi hækki um 5 milljónir í september ef það lækkar aftur í október. Þetta eru tímabundin óþægindi.
Á fjögurra mánaða fresti legst þjóðin nauðug viljug á árarnar með bönkunum til að koma þeim í gegn um næsta brimskafl. Fari svo að banki fari illa er það auðvitað þjóðin sem blæðir.
Þetta minnir mig dálítið á það þegar Davíð Oddsson talaði gegn miklum refsingum á olíufélögin á sínum tíma. Hann sagði, sem rétt var, að allar sektir kæmu beint úr vasa neytendanna.
Ekkert af þessu væri svona ef Ísland væri ekki, þegar á allt er litið, eyland. Í öðrum löndum hefðu önnur olíufélög steðjað inn á markað þar sem fyrirrennararnir væru að sligast undan sektum. Og íslensku bankarnir myndu ekki endast lengi ef útlendir bankar færu að bjóða í þjóðina.
Sá, sem hefur engar áhyggjur af tímabundnum, ósanngjörnum og jafnvel svikulum sveiflum krónunnar, er ekki að borga af dýrum lánum. Hann er ekki námsmaður í útlöndum, sem þarf að hugsa til þess með hryllingi að hann fær námslánin ævinlega borguð á þeim tíma sem bönkunum hentar að fella hana. Sá, sem hefur engar áhyggjur, á líklega allvæna upphæð í banka og ætlar sér ekki að nota hana neitt á næstunni. Hann hefur efni á að bíða.
Það þarf miklu meiri hreinskilni um efnahagsmálin. En það þorir enginn mikilvægur að tala. Vitandi það að hressileg og hreinskilin umræða getur hreyft við jarðskjálftamælum fjármálaheimsins. Það vill enginn bera ábyrgð á því. Þess vegna eiga allir að þegja. Þess vegna kom Davíð í sjónvarp áðan og sagði þjóðinni að halda kjafti.
Allt sem hægt er að drepa með hreinskilni er betur komið dautt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli