12. september 2008

Dularfullir jarðskjálftar á Íslandi


Það er alþekkt að jörðin skelfur á mótum fleka. Nú er orðið jafn greinilegt að krónan skelfur á mótum ársfjórðunga.

Skoðaðu gengisvísitöluna (gjaldmiðlar -> gengisvísitala (milli evru og jens)) ár aftur í tímann.

Í janúar var gengisvísitalan um 120 stig.

Í mars rýkur hún tvívegis skyndilega upp í 158 stig (18. og 28.) . Það er fáheyrð hækkun. Hæst hafði hún áður komist í "kreppunni" í nóvember 2001. Þá skaust hún upp í 151 stig.

Næstu tvo mánuði urðu tveir öflugir eftirskjálftar. Átjánda apríl skaust hún upp í 154 stig og fjórtánda maí rauk hún alla leið í 159 stig eitt örstutt augnablik áður en hún hrundi alla leið niður í 146 stig á næstu fimm dögum.

Í júní endurtók sagan sig. Risastór skjálfti náði hámarki 24. júní þegar vísitalan fór alla leið í 169 stig! Síðan hrundu hún hratt niður aftur, alla leið í 152 stig.

Næstu tvo mánuði komu aftur tveir eftirskjálftar. Aftur gerðist það, að mánuði eftir þann stóra kom skjálfti, nú upp á 166 stig. Upp úr því dró hratt úr skjálftavirkni ef frá er talinn þokkalegur skjálfti þann 8. ágúst upp á 162 stig.

Og nú var september að byrja.

Skjálftavirknin er hafin. Á örfáum dögum er búið að jafna 169 stigin. Ekkert bendir til þess að þar verði látið staðar numið í þetta skiptið. Toppurinn mun vafalaust klifra enn hærra næstu vikuna eða tvær.

Og hvað skyldi vera að gerast?

Greiningardeildir bankanna hafa haft svör á reiðum höndum í öll skiptin. Það er alltaf eitthvað við íslenska hagkerfið sem útlendingar gætu haft efasemdir um.

Og það var auðvitað tilviljun að gengishrunið í mars kom á besta tíma fyrir bankana. Það var líka tilviljun að gengishrunið í júní kom á besta tíma fyrir bankana. Það er líka tilviljun að gengishrunið sem nú er að verða er á besta tíma fyrir bankana.

Alveg eins og það var tilviljun að gengið sveiflaðist á nákvæmlega sama hátt í "síðustu kreppu", um áramót, í mars, júní og september 2002.

Og það er auðvitað líka bara hending að það eru bankarnir sjálfir sem höndla með vöruna sem sveiflast svona ótrúlega heppilega í takt við þarfir þeirra.

Með öllum þessum sveiflum dingla heimilin og fyrirtækin í landinu. Strengjabrúður með myntkörfur kastast til og frá. Í dimmasta svartnættinu bankar bankalúkan á dyrnar og heimtar betri tryggingar, hærri veð.

Í gegn um göt á gólfi bankastjórans strengjast tugþúsundir kaðla niður til almúgans. Í hverjum kaðli er ól. Í hverri ól er viðskiptavinur. Einhverntímann var þessi kaðall slakur. Nú er hann strekktur. Það er svo oft búið að klippa ofan af honum.

Með reglulegu millibili vill bankastjórinn sannfæra einhvern af vildarvinum sínum um að hann eigi nægan kaðal. Hann rykkir í kaðlana. Hann dregur þá upp um götin þar til kúnnarnir dingla í lausu lofti. Kannski tekst þeim að tylla niður tá í tæka tíð enn einu sinni. Kannski ekki.

Ef ekki sendir bankastjórinn einhvern til að hirða af líkinu skóna.

Engin ummæli: