Sumir hlutir eru svo tæknilegir að venjulegt fólk á í fullu fangi með að ná utan um þá. Blaðamenn eru í flestum tilfellum venjulegt fólk. Þeir eru enda löngu hættir að reyna að botna nokkuð í flóknustu hlutunum. Það virðist ekki vera til einn einasti blaðamaður á íslandi sem skilur upp eða niður í vísindum. Þess vegna eru allar fréttir úr þeirri átt ruglandi einfaldanir eða fánýtt popp.
Blaðamenn virðast lítið botna í fjármálaheiminum. Lái þeim hver sem vill. Þess vegna hafa greiningardeildirnar, talsmenn bankanna, matreitt sannleikann ofan í meira og minna alla fjölmiðla.
Það virðist engin greiningardeild starfa á fjölmiðli.
Fyrir nokkru skoðaði ég gengisþróunina og sá, mér til mikillar furðu, að árið 2002 þróuðust gengismál nákvæmlega eins og það sem af er þessu ári. Krónan féll eins og lóð í stundaklukku um hver ársfjórðungamót.
Geir Haarde kom í Silfrið í gær og sagði að krónan væri ekki vandamálið. Vandamálið væri verðbólgan. En hvað kom verðbólgunni af stað?
Á myndinni sést þróun verbólgu borin saman við þróun gengis. Rauða línan sýnir meðalgengisvísitölu fyrir hvern mánuð en gula línan sýnir verðbólgu þann sama mánuð.
Þarna sjást greinilega stökkin þrjú, sem urðu á gengisvísitölunni í mars, júní og loks núna í september. Það ber þó að hafa í huga að september er aðeins hálfnaður. Miðað við síðustu þrjá ársfjórðunga væri hreint ekki ólíklegt að meðalgengisvísitala septembermánaðar endaði nærri 200 stigum.
Það sem vekur auðvitað athygli er hve svipuð þróun hefur orðið á verðbólgu og gengi. Og líka það að gengið virðist fara á undan, þ.e. verðbólga eykst þegar krónan hefur lækkað.
Það er auðvitað afar skynsamlegt svona útaf fyrir sig. Í hvert skipti sem gengið fellur hækkar verð á fjölmörgum vörum og það eykur verðbólgu.
Þegar Geir Haarde segir að koma þurfi böndum á verðbólgu þá virðist augljóst að koma þurfi böndum á gjaldmiðilinn. Sérstaklega þarf að koma í veg fyrir risafall eins og alltaf verður þegar bankarnir þurfa á því að halda.
Ef það er rétt að bankarnir hafi í raun og veru bætt afkomu sína með því að gera skipulega og ítrekað atlögu að krónunni þá er það frétt á slíkum mælikvarða að allt annað samráð bliknar við hlið þess.
Þótt slíkar aðgerðir væri hægt að réttlæta með því að verið sé að leiðrétta of hátt gengi og ofeldi síðustu ára þá er aðferin kolröng og siðferðilega óverjandi.
Það er fjöldinn allur af einkaaðilum sem hrærast í gengisumhverfi krónunnar. Þessir aðilar reyna að lifa af á markaði og hafa gert sínar áætlanir í ljósi eðlilegrar stöðu á markaði. Í hvert skipti sem bankarnir henda niður genginu (n.b. af því það hentar reikningum þeirra en ekki vegna málefnalegra ástæðna) má líta á það sem ofbeldisfulla þjóðnýtingu á eignum annarra.
Lykilatriðið er að meðaljónar vita ekki hvað er á seyði. Fjölmiðlar hafa brugðist. Flestir eru enda í eigu sömu aðila og höndla með allt fjármagnið.
Það er ekki ólíklegt að á Íslandi verði tvær kreppur. Ein efnahagskreppa og ein trúverðugleikakreppa.
Með hverjum deginum sem líður eykst ábyrgð fjölmiðla á þeirri síðarnefndu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli