(Gefðu þér 2 mínútur til að hlusta á niðurlagið af ræðu Lalla sjúkraliða áður en þú byrjar á færslunni)
Viljum við kosningar?
Ég þurfti að hugsa mig vel um þegar ég fékk áskorunina. Fyrsta viðbragð var að skrifa undir. Næsta viðbragð var tregða. Bæði viðbrögð kannast ég við hjá sjálfum mér sem næstum því ósjálfráð óháð því hvert málefnið er. Þá var að reyna að grafast fyrir um hvaða viðbrögð málefnið krafðist.
Krafan byggir á þeirri hugmynd að stjórnvöld hafi brugðist og að erfiða staðan sé þeim að kenna. Og þá fyrst og fremst þeim sem hafa ráðið upp á síðkastið. Þetta var kjarninn í hressandi ræðu Lalla sjúkraliða á Austurvelli í gær.
Mynd Jóhanns Þrastar Pálmasonar af mótmælunum.
Framarlega er Óli Sindri og félagi ég og gott ef Guðjón þjáningarbróðir
úr heimspekinni er ekki rétt við hlið okkar.
Framarlega er Óli Sindri og félagi ég og gott ef Guðjón þjáningarbróðir
úr heimspekinni er ekki rétt við hlið okkar.
Mótrökin eru fyrst og fremst þau að ástandið sé svo viðkvæmt að það verði aðeins verra ef pólitísk sundrung bætist ofan í allt annað.
Bæði þessi rök meika sens.
Vandinn við að kjósa er sá að það er næstum útilokað að hér verði einhver stórkostleg hreinsun.
Ráðandi öfl í Samfylkingu þurfa enga hreinsun, þau fá helling af atkvæðum frá fólki sem vill í ESB. Samfylking yrði því verðlaunuð. Þess vegna krefjast margir xS menn þess nú að „hin mikla hreinsun“ fari fram – ekki hreinsunarinnar vegna, heldur vegna þess að það mun bitna á öðrum en þeim.
Í Sjálfstæðisflokki mun engin hreinsun eiga sér stað heldur. Þorgerður tekur slaginn við Geir og vinnur kannski. Þorgerður er ekki saklausari en svo af hruninu að vera kannski sá ráðamaður stjórnmálaflokks sem mesta hagsmuni hefur haft af því kerfi sem leiddi okkur til glötunar.
Vinstri grænir vilja ekkert frekar. En eru í þeirri vandræðalegu stöðu að vera á móti ESB þegar þeir myndu græða miklu meira á að vera með. Kosning nú lengir líf þess pólitíska draugs, Steingríms Joð.
Valgerður tekur við Framsókn og þá verða nokkrir saddir. Batamerkið sé aðgangur kvenna, Imbu, Gerðu og Gerði, að stjórnun flokkanna.
Ætli Sturla og bílstjórarnir hoppuðu ekki undir sæng með xF. Þeir fengju eitthvað óánægjufylgi en hafa ekki hag af kosningum strax. Það þarf að leyfa útlendingaandúð að malla aðeins lengur til að þeir fái það sem þeir eiga inni.
Íslandshreyfingin er dauð nema hún myndi sér skoðun á fleiri málum en náttúruvernd. En reyni hún það er eins líklegt að hún liðist í sundur.
Kannski kemur nýr flokkur. Það er kannski eina vonin. Ég bind ekki mikið traust við það.
En ef ekki verður kosið.
Þá heldur áfram baktjaldamakk sem þjóðin hefur engan aðgang að. Kannski er verið að kippa þúsundum niður úr snörum eins og virðist eiga að gera við bankastjóra Glitnis. Sama fólk er í Sjóslysanefnd og strandaði bátnum. Allt gengur kannski smurt en ekkert uppgjör fer fram. Engin lokun. Engin lausn.
Loks má nefna að Geir hefur ekki enn hjúpað sig þeirri áru að það sé í raun ómissandi að hann leiði þennan björgunarleiðangur. Það, sem verið er að gera, virðist hver sem er geta gert. Því ekki að losa sig við liðið?
Loks hefur Geir alltaf þann leik að fórna peði, DO. Tímasetji hann það rétt gæti hann fullnægt blóðþorsta borgaranna. Sérstaklega nú þegar enginn fjölmiðill er eftir í landinu nema Mogginn.
Ég er lagstur undir feld.
1 ummæli:
http://bighugelabs.com/flickr/output/motivator2989733.jpg
Skrifa ummæli