13. desember 2012

Að kaupa belg undir gamalt vín

Hjarta mitt tekur lítið húrrahopp í hvert sinn sem tilkynnt er um skóla eða kennara sem feta sig inn á upplýsingatæknibrautina á Íslandi. Það er helst að það fari í taugarnar á mér hversu varfærnislega menn ætla að mjaka sér áfram. Já, það og sú staðreynd hversu oft menn virðast hugsa um að betrumbæta lítillega það sem fyrir var í stað þess að þora að hugsa upp á nýtt.Ég skrifaði pistil hér þar sem ég gagnrýndi áherslurnar sem fram komu þegar Kindle-verkefni Vogaskóla var kynnt á sínum tíma. Þegar tekið var fram að fyrra bragði að börnin gætu ekki notað tækin til annars en ætlast væri til. Og þar var verið að meina fyrst og fremst að börnin hefðu ekki val um annað en að hafa texta fyrir framan sig þegar tækið væri í notkun. Mér vitandi var yndislestur hluti af notkun tækjanna og þar hafi nemendur haft alla yfirburði þegar kom að efnisöflun. Þetta varpar dálítið ljósi á erfiðleika allra sem taka að sér að stýra upplýsingatækniþróun í skólastarfi. Það má vel vera að sérfræðingar sveitarfélagana geti vængstýft tækin sem slík upp að einhverju marki – en það þarf á endanum að höfða til ábyrgðarkenndar nemendanna sjálfra og reyna að styðja þá við að útvega sér t.d. löglegt efni.

Hér má t.d. fá Hobbitann á íslensku sem rafbók. Hún kostar þrjúþúsund kall og þú þarft að vera 18 ára til að kaupa hana. Hér má fá Hobbitann og öll bindi Hringadróttinssögu á ensku ókeypis og það tekur 1 mínútu og 1 sekúndu (ég prófaði) að sækja allt dótið. Hvort skyldu unglingar á aldrinum 13-16 ára kjósa? Hvort geta þeir kosið?
Í gær sá ég svo að Álftanesskóli ætlar að vera fyrsti skólinn í Garðabæ til að spjaldtölvuvæðast upp að einhverju marki (fyrir utan Alþjóðaskólann). Þar er stefnan sett á Android-tölvur. Það er hið besta mál. Það skiptir í raun engu hvað tækið heitir – það skiptir öllu hvernig það er notað.

Ég þarf samt að viðurkenna að það angrar mig orðalagið í fréttum af átakinu. Sérstaklega áherslan á að gríðarlega mikilvægt sé að kennari geti stýrt því nákvæmlega hvað er á skjá hvers nemanda og hvað hann getur gert við tækið. Loks dæsi ég aðeins þegar ég sé tækjum talið til framdráttar að þau spili flash.Byrjum á flashinu. Ég held að það sé leitun að þeim sem eitthvað þekkir til fartækni sem hefur minnstu trú á því að flash muni spila einhverja rullu í framtíð þeirrar tækni. Raunar eru efasemdir um hlutverk þess í hefðbundnum tölvum orðnar miklar. Það er ekki eitt einasta tæki á markaðnum, held ég, sem ekki spilar flash af því það getur það ekki. Þeir sem ekki spila flash gera það vegna þess að þeir kusu að horfa fram hjá því – af ýmsum ástæðum sosem. Framleiðandi Flash hefur þegar tekið það úr sölu fyrir Android tæki og Windows og Apple hafa ekki viljað sjá það. Flash mun ekki koma til baka úr þeirri gröf sem búið er að grafa. Að sumu leyti er ástæða til að sakna þess en að öðru leyti ekki. Það langversta við flash er að það spænir upp rafmagninu – sem er ekki gott á tækjum sem ganga á hleðslu.

Það að mæra tæki fyrir að spila flash er bæði villandi og kjánalegt.

Áfram verður hægt að fá einstök forrit sem spila flash. Það er hægt á öllum tækjum, iPad alveg eins og LearnPad. Það er bara óskaplega tilgangslaust. Nema að einu leyti. Það hentar til að nota nokkurra ára gamla vefi – eða nýlega vefi sem hannaðir voru án framsýni. Flash er stútur á nýjan belg sem hjálpar þér að súpa gamalt vín.Að hinu. Þörfinni fyrir að kennari geti stýrt nemendum að öllu leyti og lokað þá inni í skeljum sem smíðaðar eru ofan á stýrikerfi spjaldtölvanna. Þar liggur ansi stór hundur grafinn.

Ég trúi því staðfastlega að slíkar óskir séu histerískir fortíðardraugar. Jafnist á við það að hafa læstar hnífaskúffur í matreiðslustofum eða bókasafnsbækur í lokuðum skápum.

Galdurinn við nútímatæknina er að hægt að flytja námsmarkmið af einstökum hendingum í fyrirframmótuðu námsefni og setja almennari markmið með skapandi lausnum. Það mikilvægasta sem nemandi getur fengið í heimanmund með spjaldtölvu er frelsi til að gera hana að sinni – og nota hana á þann hátt sem honum hentar best. Einhverjir nemendur munu að sjálfsögðu ekki ráða við slíkt án mikillar aðstoðar. Mikill meirihluti mun þó geta það fyrr eða síðar.

Ef skólabókasafn væri bannað börnum og kennarar byggju við það fyrirkomulag að þurfa að sækja bækur og keyra á vögnum inn í kennslustofur til nemenda þá væri viðbúið að safnið myndi nýtast illa. Ef svo færi að bókasafnið yrði opnað börnum þá væri fásinna að telja það áfram gríðarlaga mikilvægt að kennarinn gæti stýrt því hvaða bækur hver einasti nemandi væri að skoða. Það væri líka fáránlegt að vera með allar bækur í bekkjarsettum og þar af leiðandi þrjátíu sinnum færri titla. Börn hafa blessunarlega fengið að vera á beit á bókasöfnum. Það er meira að segja dálítið atriði að hvert einasta barn fái að vera landkönnuður í þessum stóra heimi upplýsinga. Bókasafnsverðir hafa vit á því að sitja hljóðlegir til hliðar og aðstoða aðeins þá sem bersýnilega þurfa á hjálp eða leiðsögn að halda eða bera sig eftir henni. En þá bresta líka yfirleitt allar stíflur sem halda aftur af hjálpseminni. Stundum raða þeir á borð einhverju gúmmelaði á áberandi stað. En nefi barns er aldrei ýtt ofan í bók af neinum sem þekkir unun þess að lesa.

Að veiða barn til fylgis við bækur felst í að ota öngli fyrir framan nef þess – ekki að plamma á það með bókabyssu. Merki þess að veiðin hafi tekist er að barnið þarf ekki lengur bókaorm á öngli – það stýrir sér sjálft.

Það verður að mölva niður höftin í huga þeirra sem ætla að halda áfram að miðla upplýsingum í börn eins og mör er troðið í aligæsir. Spjaldtölva er í raun ekkert annað en bókasafnskort. Það á að fela börnunum vald yfir því hvernig hún er notuð. Kennarans er svo að vera leiðsögumaður á því ferðalagi. Grípa í taumana þegar þarf, hvetja og hjálpa – en ekki stýra. Hann á að vera rauður þráður í náminu – ekki rauð dula.

Það er álíka óþarft að hægt sé að læsa börnin inni í ákveðnum forritum og á ákveðnum síðum eins og að skólaborð séu útbúin handjárnum svo börn fletti ekki bókum án samþykkis kennara. Börn eru meira en til í að hlýða kennurum áfram þótt þau séu komin með spjaldtölvu. Ef þau eru beðin um að vinna eitthvað verkefni sem algjörlega er nauðsynlegt að allir séu að vinna á sama tíma þá gera þau það ljúflega.Við þurfum að hætta þessum hræðsluáróðri og reyna að leggja tæknileg höft á nemendur. Það er nákvæmlega ekkert hættulegt við það að börn séu innan um hnífa í heimilisfræði eða bók á safninu. Það kemst enginn hjá því að læra á hnífa og bækur. Ekki heldur tækni. Við eigum að kenna og efla – ekki halda aftur af í hræðslukasti.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er framhaldsskólakennari og vil þakka þér fyrir góða pistla.

Þú berð saman frjálsan aðgang nemenda að internetinu í tölvunum og að bókasafni. Hvað ef í bókasafninu væri spilavíti í einu horninu, klámmyndasýning í næsta horni og facebook alls staðar? Ég kenni Utn þar sem nemendur eru nettengdir og hef ég þurft að vera uppáfyndingarsöm í kennsluaðferðum.

Ég hef enn enga umræðu séð um aðferðir til að halda nemendum frá því að vera allar kennslustundir í allt öðru en námsefninu.

kv. Margrét (gekk ekki að skrá mig inn með Google)

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég held að meira og minna allir skólar á Íslandi noti netsíur sem hreinsa burt klám og annan óþverra upp að verulegu marki. Það litla sem eftir er er álíka relevant spurning og hvort menn vilji virkilega taka áhættuna á því að nemendur limlesti hverja aðra með hnífum eða að börn geti lesið Elskhuga lafði Chatterley.

Um hið síðarnefnda. Spjaldtölvur geta vissulega breytt birtingarmynd þess þegar nemendur eru í „öðru en námsefninu“ heilu stundirnar. En þú veist jafn vel og ég að þeir eru ekki fáir sem stunda það nú þegar án hjálpar tækninnar.

Annars er besta leiðin hér að nemendur geri vinnuáætlanir og kennarar skoði verkefni og vinnuskil. Ef þau eru í lagi þá er svo sannarlega í góðu lagi þótt nemandi detti í feisbúkk eða angry birds af og til – alveg eins og við hin gerum.

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Ég tek eftir því núna þegar ég skoða kennsluáætlanir í mínu fagi í mínum skóla að sumir kennarar banna notkun tölva og síma nema í verkefnavinnu undir stjórn kennara. Nú þekki ég þessa kennara að góðu einu og reikna því með að eitthvert vandamál hljóti að vera til staðar úr því þeir kjósa að taka þetta fram á kennsluáætlun; Eitthvert vandamál sem ekki var áberandi fyrir þremur árum, þegar ég kenndi síðast. Ég er að velta fyrir mér núna hvort ég ætti að setja þetta í kennsluáætlun þá sem ég er að fara að semja ... líklega geri ég það því ég tek mark á akkúrat þessum kennurum.

Það er náttúrlega út í hött að líkja saman netinu og bókasafni, jafnvel þótt Elskhugi Lady Chatterly sé dreginn fram :)

Ég byrjaði að nota tölvur markvisst í kennslu í kringum 1988, stóð þá fyrir tilraunaverkefni í Ritsmiðju, að danskri fyrirmynd - skriveværksted kölluðu frændur okkar þetta - sá nýverið grein eftir kennara á Menntavísindasviði um akkúrat samskonar, sem hann taldi glænýja hugmynd ;)

Vefinn byrjaði ég að brúka í kennslu um svipað leyti og hann varð aðgengilegur á Íslandi, elstu vefsíðuverkefni nemenda minna eru frá árinu 1995.

Og ég komst að þeirri niðurstöðu laust eftir 2000 að það skilaði betri námsárangri að kennari brúkaði kjaftinn og krítina frekar en upplýsingatækni ;)

Kannski verður árið 2013 upplagt ár til að skipta aftur um skoðun?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er með í salti færslu um þetta með námsárangurinn, Harpa. Hún er hálfnuð en dettur inn næst þegar andagiftin kíkir inn. Þetta er mikilvægur punktur – og ég held misskilinn.

Aðeins eitt lítið dæmi,

ég gerði um daginn smá tilraun. Manneskja sem ég þekki var að taka netpróf í íslenskuáfanga í framhaldsskóla, ef hún fengi yfir 80% myndi hún sleppa við lokapróf. Þetta voru aðallega krossaspurningar en nokkrar opnar. Efnið var Snorra-Edda.

Hún mátti nota glósur úr tímum og allthvaðeina.

Nema hvað, þegar prófið hófst tengdist ég tölvu hennar með Join me og ég sá því framvindu hennar og prófspurningarnar, án þess þó að geta haft áhrif á niðurstöðurnar.

Það sem ég gerði var að athuga hvort ég gæti, ólesinn í efninu með ekkert nema almenna þekkingu á Snorra-Eddu gúglað svörin við spurningunum innan þess tíma sem í boði var.

Prófið var 90 mínútur.

Eftir 20 mínútur hafði ég fundið öll svörin með gúgli, auk þess að finna tvær villur í spurningunum.

Hvað má álykta af slíku námsmati?

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Það má draga af þessari sögu þá ályktun að Google sé mjög heppilegt svindlverkfæri ;) Sem ég held að nemendum og kennurum sé ágætlega ljóst.

Við erum líklega ósammála um hve grunnþekking skipti miklu máli í nútímanum. Ég álít að traust undirstöðuþekking í Snorra-Eddu skipti miklu máli til að fólk skilji tal og texta með tilvísunum, frá bókmenntatextum upp í greinar á netmiðlum eða ræður. Gúgulþekking er ætíð brotakennd. Með sömu rökum mætti halda fram að kennsla í reikningi sé alger óþarfi því á Gúgul megi finna prýðis reiknivél: Af hverju á þá að kenna nemendum að leggja saman, draga frá eða læra margföldunartöfluna utan að?

Stóra spurning er: Telst sá sem einungis kann að nota Google til að afla sér þekkingar menntaður maður eða felst eitthvað annað í hugtakinu menntun?

Krossapróf, eins og þú lýsir, er einungis eitt af mörgum mælitækjum sem nota má til að mæla námsárangur og það er takmarkaður mælikvarði (raunar finnst mér dálítið undarlegt að leggja fyrir krossapróf og leyfa aðgang að "allthvaðeina" á netinu - til hvers er þá krossaprófið?).

Hlakka til að lesa færsluna þína um námsárangur. Mér finnst frábært að lesa færslurnar þínar um skólamál, þær eru málefnalegar og vel rökstuddar. Og ég hef lítinn áhuga á að lesa eftir þá sem eru mér sammála ... hver nennir að lifa í eilífum jákór?

Anna Maria sagði...

Sæll Ragnar Þór

Er ekki aðal málið í sambandi við grunnskólana og Flashið að Námsgagnastofunin framleiðir enn næstum allt sitt gagnvirka efni í Flash? Það eru jú þau sem framleiða gagnvirk efni sem styðja við námsbækurnar sem skólarnir eru að nota. HTML5 er klárlega það sem þau eiga að vera að vinna með, en mér skyldst að það sé bara ekki þannig. Umræðan um að Flashið sé á útleið er ekkert ný af nálinni og því hefur það verið nokkuð fyrirsjáanlegt í langan tíma að þetta yrði staðan einn daginn en samt hefur stofnuninn valið að treysta á það form.

kv.
Anna María

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er mikið til í því, Anna. Að mínu mati er óverjandi að framleiða flashefni í dag í stað html5 t.a.m.

En hér þurfa skólar að skapa þrýsting. Án hans er kyrrstaða og nams hefur lent í því áður að ætla að leiða tækniþróun og uppgötvað að þar enduðu menn einir úti á sléttu.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Harpa, ég hef grun um að okkur greini í grunninn ekki svo mikið á um aðalatriði. Það verður gaman að sjá hvernig þú tekur á námsmatspistlinum þegar hann kemur.

Gudlaugur Kristinn Ottarsson sagði...

Gerði tilraun fyrir nokkrum misserum með tvo hópa sem áttu að læra um rökrásir og talnakerfi. Báðir hópar innihéldu 10 nemendur. Einn hópurinn var í tölvustofu og hinn hópurinn í tölvulausri stofu. Í tölvustofunni var 40% fall og meðaleinkunn 6 en í tölvulausu stofunni náðu allir og meðaleinkunn 8,5. Eftir þessa reynslu kenni ég þessa grein alltaf í tölvulausri stofu og meðaleinkunn helst um 8 og fall undir 5%. Hvet þó nemendur í þessari grein til að nota tölvur sínar - en alls ekki í kennslustund :-) Guðlaugur Kristinn Óttarsson, prófessor í rafeindatækni og tölvuvísindum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Áhugavert, Guðlaugur.

Hvernig tóku kennsluaðferðir/námsaðferðir mið af mismunandi námsaðstæðum nemenda?