4. desember 2012

Lyfleysulækningar

Það þarf mikið til að ganga fram af mér. Einu sinni blöskraði mér þó þegar ég frétti af ungum dreng í bráðum vanda í ónefndum grunnskóla sem illa gekk að hjálpa. Kennarar hans voru allir sem einn sannfærðir um hina opinberu skýringu á vanda drengsins: Hann var bara svona ofsalega skyggn. Öll úrræði, upp að því marki sem hægt er að tala um úrræði, miðuðu við að lina þjáningar hans af afskiptasemi að handan.

Mér fannst kennararnir bregðast drengnum. Undir engum kringumstæðum getur fagmaður sem treyst er fyrir heill og hamingju barna samþykkt það að skrifa erfiðleika barnsins á hindurvitni, töfra eða aðra þvælu. Fagstéttir verða að veita viðnám þegar aðrir bresta.Mér var því ekki skemmt þegar ég sá að félagsgjöldin mín í Kennarasambandið eru m.a. notuð til að niðurgreiða kaup kennara á þjónustu fólks sem selur „óhefðbundnar lækningar.“ Minnugur þess þegar kennararnir brugðust drengnum fannst mér sem salti væri stráð í sár fagmennskunnar þegar samkennari minn getur notað þá peninga sem ég afla til að kaupa vatnssósa sykurpillur af hómópata – en hann getur t.a.m. ekki fengið aur til að láta tannlækni kíkja á skemmdirnar sem sykurátið kann að valda.

Mér er heldur ekki skemmt þegar gömul samstarfskona mín úr kennarabaráttunni stendur að frumvarpi inni á Alþingi þar sem lagt er til að ríkið fari að niðurgreiða kukl. Ég gef ekki túskilding fyrir rugl eins og það sem Ólína Þorvarðardóttir bar á borð að frumvarpið snúi ekki að því að ríkið fjárfesti í kukli – heldur að það skoði bara hvort það sé æskilegt. Á feisbúkk orðaði ég það svona eftir að hafa horft á Kastljósið: „Ég er ekki að segja að einhyrningar séu til, ég er bara að leggja til að umhverfisráðherra verði falið að athuga möguleika einhyrningseldis á hálendi Íslands.“Flutningsmaður frumvarpsins er nemandi í Heilsumeistaraskólanum, en þar getur maður meðal annars lært heilun og lithimnufræði ásamt öðrum vísindum sem orka meira en lítið tvímælis. Hún trúði meðflutningsmönnum sínum fyrir því að óhefðbundnar lækningar hefðu losað sig undan rándýrri lyfjameðferð hefðbundinna lækna og því gæti samfélagið sparað stórfé á því að veita fé í óhefðbundnar lækningar.

Um þetta er ýmislegt að segja. Þó kannski það allra helst að hér daðrar hún allsvakalega á línu þess löglega og siðlega. „Viðurkenning“ græðara á sínum tíma var fyrst og fremst aðgerð til að finna einhverju sess sem var grasserandi – og setja því mörk. Í því fólst ekki viðurkenning á starfsemi þeirra – þeim var aðeins gefin yfirborðskennd viðurkenning með ákveðnum skilyrðum og loforðum um að koma skipulagi á starfsstétt sem hafði troðið sér inn um allar glufur þar sem sem slegið hafði að einhverjum. Eitt af grundvallarskilyrðum laganna var tiltekið í sjöundu grein:

Græðurum er óheimilt að ráðleggja fólki að hætta lyfjameðferð eða annarri meðferð sem það hefur hafið hjá löggiltu heilbrigðisstarfsfólki. 

Svo getur hver og einn metið hversu vel þetta rímar við greinargerð sem lofar stórkostlegum sparnaði í lyfjakaupum ef græðurum er hleypt að fleiri sjúklingum.Það er kannski ekki skrítið að græðarar beri litla virðingu fyrir almennum lækningum og starfi fagfólks. Svona tjá þeir sig innan síns hóps þegar þeir gorta af sérstöðu íslenskra græðara í skandinavísku samhengi:

„Fulltrúar hinna Norðurlandanna í NSK eru mjög ánægðir með lagalega stöðu græðara hérlendis, m.a. vegna þess að við lútum engum nema sjálfum okkur, megum meðhöndla þungaðar konur, krabbameinssjúklinga, börn o.fl. Þeir líta á okkur sem fyrirmynd. “

Við lútum engum nema sjálfum okkur og megum meðhöndla börn, óléttar konur og krabbameinsveika. Hvað á maður að segja um svona?Eina ástæða þess að græðarar lúta engum nema sjálfum sér í einhverjum merkingarbærum skilningi er að þeir eru ekki viðurkenndir af neinum nema sjálfum sér. En um þessa viðurkenningu hafa þeir smíðað heilmikið bákn með diplómum og „námi“ sem gerir vel að apa eftir raunverulegum fræðum. Þetta er aðall gervivísinda. Sem græðarar stunda.

Það er samt ósköp skiljanlegt að græðarar vilji á ríkisspenann. Það er ekki eins fáheyrt og maður skyldi ætla að veiku fólki sé hleypt í hendurnar á fólki með engan faglegan grunn. Það hefur lengi tíðkast á Íslandi að lækna allra veikasta fólkið með heilögum anda. Oft með skelfilegum afleiðingum.

Ef trúarhópar fá fé til að lækna vímuefnasjúklinga, því skyldi hómópati ekki fá að reyna sig við krabbamein?Það er gild spurning. Mitt svar er það að það ætti ekki undir neinum kringumstæðum að byggja kerfi á því að flytja fárveikt fólk á færibandi inn í trúarsöfnuði eða kirkjur.

En hér liggur samt hundurinn grafinn. Ef ég held að það lini þrautir mínar að fara á fundi sem byrja á bæn, hví í ósköpunum ætti að halda skattfénu frá þeirri starfsemi? Af hverju fær fólk ekki að velja sína meðferð sjálft? Ég skal viðurkenna að þetta er áleitin spurning.

Kannski er þá ágætt að tala aftur um skóla. Ég er fylgjandi vali í skólakerfinu. Fólk á að fá að velja þá skóla sem það kýs. En það er bjargföst sannfæring mín að skóli sem skrifar vandræði barna á skyggnigáfu eigi ekki undir neinum kringumstæðum að vera kostur. Ekki frekar en skóli sem kennir stúlkum bara heimilisstörf og drengjum allt annað. Skóli þarf að uppfylla fagleg skilyrði – og það á heilbrigðisþjónusta líka að gera.

Menn eru ólíkindatól. Sálfræðin hefur leitt í ljós allskyns staðreyndir sem eru okkur ekki endilega til mikils sóma eða benda til þess að vitsmunalíf okkar risti djúpt. Þannig er gríðarlega sterk tilhneiging okkar til að ljúga að sjálfum okkur og réttlæta val okkar og gjörðir. Ef hópi fólks er sagt að kuldaþol tengist heilbrigði hjartans og lífslíkum þá hefur það áhrif á kuldaþol. Þá skiptir engu hvort minnkað eða aukið kuldaþol á að vera gott. Menn gefast einfaldlega upp fyrr eða seinna eftir því sem þeir halda að sé gott – og kannast svo alls ekki við að hafa gert annað en að reyna sitt allra besta.Það er eitt sem vinnur sérstaklega vel með græðurum. Stór hluti af heilsufarsvanda þjóðarinnar eru tilfallandi smámunir eða eitthvað sem óverulegar betrumbætur á lífsstíl gætu haft úrslitaáhrif á. Streita, hreyfingarleysi og ósiðir viðhalda stórum hluta vanlíðunar og vandræðna hjá þjóðinni. Vissulega geta græðarar haft einhver áhrif þar. Oft eru ráðleggingar þeirra lítið annað en heilbrigð skynsemi og hvati til að taka upp heilbrigðara líf. Græðarar ýta örugglega að fólki betra mataræði í mörgum tilfellum – en svo kunna þeir sér ekki hóf og fara að dreifa þvaðri eins og því að svínakjöt sé svo eitrað að bændur stundi það að geyma svín með skröltormum til þess eins að drepa skröltormana. Og þar er vandinn. Heilbrigð skynsemi er í tilfelli græðara oft aðeins tilfallandi. Þar sem henni lýkur tekur við eitthvað allt annað og verra – eins og krabbameinslæknandi lúpínuseyði eða annað slíkt rugl.

Upp að því marki sem græðarar vinna á alvöru sjúkdómum þá er aðeins um tvennt að ræða. Annarsvegar tilviljanir, sem eru óumflýjanlegar þegar eitthvað er stundað af jafn mörgum og óhefðbundnar lækningar eru. Hinsvegar lyfleysuáhrif.

Um tilviljanir vil ég segja þetta (sem ég sagði hér á blogginu fyrir tveim árum):


Yngri dóttir mín krækti sér fyrir nokkrum árum í leikskólavörtur. Fyrst fáar en svo fjölgaði þeim. Við fórum til læknis og læknirinn sagði okkur að þótt hægt væri að skafa vörturnar af þá væri það aðeins gert ef barnið vildi það, því vörturnar væru meinlausar og meðferðin óþægileg. Og stelpan tók það ekki í mál. Samkvæmt öllu áttu vörturnar að hverfa af sjálfum sér eftir ár eða tvö. 
Tók nú við æsilegur tími. Skyndilega lögðust vörturnar í útrás. Þeim fjölgaði með ógnarhraða. Og með hverri viku skreiddust þær lengra upp búkinn, lengra fram handleggina uns svo var komið að fyrsta vartan var komin á hökuna. Og það var fyrsta vartan sem ekki var hægt að klæða af sér. Og barnið fylltist skelfingu. En hún vildi ekki fara til læknisins og láta pynta sig. Hún átti í ægilegu innra stríði. Og ég gerði það, sem ég hef aldrei gert fyrr né síðar, ég gúglaði óhefðbundnar lækningar. Reyndi að leita uppi eitthvað sem ætti að virka - og bjóst allteins við að það ætti að pissa á vörturnar, láta hunda sleikja þær, umkringja þær með sinnepi eða eitthvað álíka. En ég hikaði. Vildi ekki prófa neitt. 
Þá, skyndilega, vildi hún fara til læknis og láta taka þær. Ég lagði leit mína að töfralausn á hilluna og við brunuðum til húðsérfræðingsins. Allir mjög bugaðir. Viðbúin því að hann færi með málningarsköfuna á litla kroppinn.
Og þá gerðust undrin. Og hér verður að hafa í huga að fram að þessu höfðu vörturnar orðið aðgangsharðari dag frá degi. Læknirinn skoðar fyrst eina vörtu, þá aðra og loks lítur hann upp og segir að hann þurfi ekkert að gera. Þessar vörtur séu allar dauðar. Þær muni ekki fjölga sér meira, heldur hverfa á næstu dögum og vikum.
Og það reyndist rétt. Þær hurfu jafn hratt og þær komu.
Nokkru seinna hugsaði ég hve örstutt var frá því að ég bættist í hóp þeirra sem fullyrða að óhefðbundar lækningar virki. Ef ekki hefði verið fyrir eðlislæga tregðu hefði ég, þegar allt var sem verst, látið hund sleikja barnið eða dýft því í ólífuolíu, látið biðja fyrir því eða snúið því hratt í hringi. Og svo hefðu vörturnar horfið. Og ég hefði að sjálfsögðu leitt annað af hinu og skrifað á netið um að þessi tiltekna töfralausn virkaði. 
Aðeins vísindalegar rannsóknir mæla slíka virkni alminlega. Persónuleg reynsla er meira en lítið varasöm.

Um lyfleysuáhrifin er það að segja að þau eru óumdeild og vísindalega sönnuð. Falskar gervilækningar munu alltaf hafa þannig áhrif á einhverja að þeir telji sig læknaða. Þar skiptir engu máli hvort um er að ræða „lyf“ eða jafnvel skurðaðgerðir. Áhrifin eru meira að segja svo sterk að „alvöru“ læknar gangast margir hverjir við því að beita þeim á ákveðna sjúklinga – sem kannski eru í meiri þörf fyrir athygli og umhyggju en alvöru lyf. Þannig ávísa sumir læknar meinlausum lyfjum sem á engan hátt tengjast umkvörtunum sjúklinga – en lækna þá samt á einhvern undraverðan hátt.

Lyfleysuáhrif eru eina ástæða þess að koma ætti til greina að hugsa um það að niðurgreiða græðara. Þau eru staðreynd og þar af leiðir að einhverjir sjúklingar munu fá bót meina sinna að einhverju leyti. Því ekki að leyfa sjúklingnum sjálfum að velja?

Það er hér sem fólk klofnar í tvær eða fleiri fylkingar.

Það er í raun ekki voðalega erfitt að velja afstöðu. Raunveruleg, vísindaleg læknisfræði er ekki fullkomin – sérstaklega ekki þegar kemur að því að díla við fólk sem þarf bara smá athygli eða hvatningu til breytinga – en hún er þegar allt kemur til alls eitt af þrekvirkjum mannsandans. Ef einhver þarf sannanir bendi ég einfaldlega á breytingu á lífslíkum um heim allan á síðustu hundrað árum. Það er óforskömmuð heimska að halda því fram að hefðbundin læknisfræði sé á einhverjum villigötum á meðan óhefðbundnar lækningar hvíli á gömlum og góðum merg. Sá mergur myndaðist í beinum milljóna manna sem dóu langt fyrir aldur fram eða þjáðust stórkostlega af kvillum sem nú er búið að útrýma eða koma böndum á. Læknavísindin eru eitt stórkostlegasta afrek mannkyns og þótt líf okkar muni aldrei og eigi aldrei að snúast eingöngu um læknisfræðilegar staðreyndir – þá er það skylda okkar sem hugsandi manna að taka ekki afstöðu gegn vísindunum – bara til að geta ríghaldið í einhverjar gríðarstórar ranghugmyndir sem við höfum gert okkur um heiminn.Gervivísindi dulbúa sig sem alvöru vísindi. Þau kalla sig lithimnufræði eða hómópatíu og fullyrða eitt og annað um heiminn sem ekkert stendur á bak við annað en ímyndunarafl og fylgispekt kynslóðanna. Meira og minna allar stéttir græðara byggja á lygum og fullyrðingum sem standast enga skoðun. Það litla sem ekki er beinlínis hægt að afsanna er í eðli sínu óafsannanlegt. Svona eins og tilvist einhyrninga.  Og þar með óvísindalegt.

Við eigum ekki að nota takmarkaða opinbera sjóði til að hjálpa fólki að ljúga að örvæntingarfullu og veiku fólki. Ekki einu sinni þótt fólkið vilji láta ljúga að sér.Samfélag manna þarf að byggjast á sannleiksást og heiðarleika – ekki þægilegum lygavefjum. Því lygavefir eru í eðli sínu skeinuhættir. Það er efalaust að einhverjir N-Kóreskir embættismenn trúa því í alvöru að líf þegnanna verði betra og skemmtilegra með því að bera í þá lygasögur af einhyrningum og kynferðislegu aðdráttarafli leiðtogans. Þau þægindi eru þó hjóm eitt miðað við frelsunina sem felst í því að mega dusta af sér lygina og standa frammi fyrir þeim sársaukafulla sannleika að leiðtoginn er lítið, ljótt gerpi sem hlegið er að.

Við sjáum hversu tæpt skaðleysið stendur þegar Alþingismenn eru tilbúnir að stíga fram og lofa fólki að það losni við lyf ef það kaupir þjónustu kuklara.

3 ummæli:

Bjössi sagði...

Mörg föst skot og öll í mark.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þennan góða pistil. Solveig

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir góðan lestur. Kv. Baldur