31. desember 2012

Burt með brostnar vonir (RIP 2008 - 2012)

Nú eru nokkrir mánuðir síðan ég hætti að mestu að tjá mig um önnur stjórnmál en menntamál. Það kom í sjálfu sér ekki til af góðu. Ég er einfaldlega fyrir alllöngu kominn á þá skoðun að þjóðin sé löngu búin að dúndra boltanum yfir markið í því dauðafæri sem hún var komin í. Þar bera núverandi stjórnvöld stærsta ábyrgð. Þau kusu að horfa fram hjá hinum raunverulega vanda íslenskra stjórnmála. Það voru ekki málefnin sem sigldu þjóðina í kaf, það voru aðferðirnar. Það var flokksbundna einræðið – sem kæfði alla eðlilega gagnrýni og kom í veg fyrir allt jafnvægi og viðnám. Það var samviskuframsal þingmanna og baneitrað smásálarskotgrafarhugarfar sem einkenndi alla stjórn landsins. Það var yfirgangurinn, ofbeldið, hin falska einlægni og hjarðeðli sem varð til þess að stjórn Íslands var ekki aðeins ömurleg heldur ólögleg og andstæð stjórnarskrá. Nákvæmlega hvaða málefnum verið var að nauðga í gegn á hverjum tímapunkti er ekki aðalatriðið. Þetta sjá allir sem þora að horfa upp yfir skotgrafirnar og hætta eitt augnablik að trúa því að saga íslenskra stjórnmála sé liðakeppni þar sem gott og illt heyja epíska baráttu upp á líf og dauða. Vandinn er að öll gagnrýni á einn er sjálfkrafa túlkuð sem stuðningur við hinn.

Alþingi allt er til stórkostlegrar skammar og hefur ekki í langa hríð verið ömurlegra. Hvernig má réttlæta svona nokkuð til dæmis:Það er skömm að þessu. Og sú skömm liggur ekki bara hjá stjórnarandstöðunni sem þvælist bara fyrir í falskri vandlætingu. Hún er ekki síður hjá þeim sem hafa valdið en halda áfram að misnota það í þágu málefnanna – og rjúfa þar með ekki þann vítahring ofbeldis og óstjórnar sem eyðilagt hefur íslensk stjórnmál.

Það væri óskandi að gegn þessu rugli væri öflugt viðnám meðal almennings. Að hann hafi haldið hlutverki sínu vakandi. Búsáhaldabyltingin var margt – en fyrst og fremst var hún yfirlýsing almennings um að stjórnvöld hefðu ekkert traust. Það var óskhyggja að eitthvað verulegt myndi breytast. 

Íslenskur almenningur er því miður lítið skárri en valdhafarnir. Heift og heimska einkennir allar umræður. Við hverju er að búast hjá þjóð sem hefur enga umræðuhefð. Baktal og smolltokk voru öldum saman hið eina umræðuform þjóðarinnar. Þegar ritmiðlar komu fram voru þeir lagðir undir persónulegar erjur og rifrildi. Það eru engar innlendar hefðir að styðjast við. Menn spinna afstöðuna jafnóðum í vefstól vitleysunnar. 

Þjóðin er auk þess illa menntuð. Og menntun hefur hrakað á síðustu árum. Menntakerfið er komið að fótum fram og hefur misst af heilum áratug af endurnýjun. Áherslan er enn á ítroðslu. Fæstir fá nokkra fræðslu í því hvað það er að vera borgari fyrr en síðustu önnina í skyldunámi þar sem áherslan er sú að prófa fólk í hugtökum eins og „frumvarp,“ „forseti Alþingis“ og „fjárlaganefnd.“

Unglingar eru markvisst sviptir sjálfræði og valdi og tamdir þess í stað til undirgefni og hlýðni. Þeir ráða litlu sem engu í námi sínu og eru seldir undir alræðisvald kennara og annarra sem sjá engan tilgang í því að börn læri að efast og gagnrýna – og ráða. Strax í grunnskóla eru brauð og leikar þar sem blífur. 

Ég held að það sé aðeins gegnum breytta menntun sem þessi þjóð öðlast aðeins meiri reisn. Það þarf að leggja áherslu á gagnrýni, skynsemi og temja börnum strax á unga aldri virðingu fyrir því hlutverki sínu að veita illskunni og heimskunni mótstöðu. Það þarf að auka vald barna yfir námi sínu og gera kröfu á þau um að skoða hugmyndir sínar og líf sitt gagnrýnið. 

Við þurfum betri kennara, ánægðari kennara, hamingjusamari kennara – hugrakkari kennara. Sem skila frá sér betri, ánægðari, hamingjusamari og hugrakkari nemendum – sem geta vonandi orðið eins og fólk á að vera. 

Núna þegar ég skrifa þetta er Kryddsíldin í gangi. Ekki í beinni útsendingu að þessu sinni. Menn vilja ekki að almenningur ónáði stjórnvöld. Þarna situr þungbrýnt og lífsleitt fólk við ofhlaðið borð sem lítur út eins og risavaxin rjómaterta. Þegar forsætisráðherrann sést í nærmynd smellpassar hún við bakgrunninn sem er Austurvöllur í vetardvala, beinaberar trjágreinar, snjór og krapi. 

Það er enda hávetur í íslenskum stjórnmálum. 

Í æskunni er alltaf vor. 

Það er okkar verk að fenna ekki fleiri kynslóðir inni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vantraustið á pólitíkusa er orðið svo mikið að ég kíkti lauslega á umrædda breytingatillögu sem var verið að kjósa um og sýnist hún ekki eingöngu snúast um taubleyjur heldur líka breytingar á gistiþjónustu sem er mikið búið að karpa um síðustu vikur.

Það væri áhugavert ef fróðari en ég gætu grafið upp nákvæmlega hvað þessi breytingatillaga snerist nákvæmlega um. Eru taubleyjurnar etv. bara smjörklípa til að lauma stærra máli í gegn?

Ekki það að þessi vinnubrögð með kosninguna séu ekki til háborinnar skammar! Mér finnst bara einhver meiri svikalykt af þessu máli en bleyjulyktin. En það er líklega daglegt brauð á þessari stofnun.