2. apríl 2012

ÖreigafemínismiGott fólk getur farið illa með góða hluti. Ég tek slíka vanhirðu nær mér en það þegar vont fólk fer illa með góða eða vonda hluti eða þegar illa er farið með vonda hluti. Þetta er drifkrafturinn á bak við afskipti mín af femínisma og femínistum. Mér finnst sorglegt að horfa upp á gott fólk verja góðan málstað með vondum aðferðum.

Þótt ég sé yfirleitt bæði kurteis og orðvar á ég varla til næga sjálfstjórn til að þegja yfir þeirri skoðun minni að pistill Þorsteins Vilhjálmssonar „Öreigar allra landa! Ég er sko enginn helvítis femenisti“ er yfirgengilegt og grunnhugsað bull. Eiginlega svo skammarlega illa samsett þvaður að það eitt að sjá fólk dreifa þessu og mæra þetta er álíka eitur í mínum beinum og að sjá að einhver feisbúkk vinur er trúlofaður ebóla-veiru eða genginn í grúppu gegn byggingu bænahúsa þeldökkra.

Og ég get auðvitað haldið kjafti. Látið nægja að lyfta brúnum og smella í létt duckface á meðan ég hugleiði möguleg áhrif þess að fólk skuli í raun og veru vera svona. Og ef þetta væri einhver fáviti úti í bæ að dásama íslenska lambakjötið eða kallandi múslima tuskutoppa hugsa ég að ég myndi snúa mér að einhverju öðru.

En Þorsteinn er ekkert fífl. Og hann er ekki óþokki heldur. Og málstaður hans er ekki gegnheil heimska. Samt tekst honum að ganga svona smánarlega fram.  Pistill hans er óttalegt klám. Efnislega er hann þetta:Femínisma er brigslað um að vera marxísk kenning í þeim tilgangi að niðra femínisma. Ég ætla nú að varpa ljósi á þessi tengsl betur en háttsettir hægrimenn þrátt fyrir að vera enginn sérfræðingur um viðfangsefnið. Ég vara ykkur við að ég mun nota gáfumannaorðið teóría sem mun líklega reyna mjög á ykkur, lesendur mína. En femínismi getur ekki verið marxískur því konur fóru að berjast fyrir réttindum áður en Marx fæddist. En til er fræðilegur femínísmi sem vissulega er marxískur. Enda eru einu tengsl femínisma við marxisma (held ég) innan háskólanna þar sem marxískur femínismi er stundaður sem fræðigrein. En marxísk fræði snúast um það að neita að skoða heiminn í ljósi rita eftir hvíta, miðaldra karla og skoða þau frekar í ljósi rita Karls Marx. En í því felst að skoða allt það fólk sem ríku, hvítu, miðaldra karlarnir höfðu ekki áhuga á að skoða. Þessi aðferð er nútímaleg og raunar grunnur allrar sagnfræði dagsins í dag. Það má því afskrifa alla sagnfræði ef maður ætlar að amast við þeirri aðferð að skoða söguna sem sögu kúgaðra kvenna. Svona er heimurinn bara í nútímalegum skilningi.
Jæja.

Ég geri ráð fyrir að þeim upplýstari í hópi lesenda minni nægi þessi efnislega samantekt til að koma auga á gapandi sárin í hugmyndaheimi Þorsteins og villurnar í framsetningunni. En þar sem mögulegt er að einhver sé illa fyrir kallaður eða þjakaður af svefndrunga skal ég benda á örfá dæmi þess sem gerir þennan pistil að tómu helvítis þvaðri, svo illa hugsuðu og framsettu að furðum sætir.

Ég læt mér nægja að undirstrika það kjánalegasta sem ég dró fram í endursögninni en Þorsteinn virðist í einlægni blindur á. En það er sú einkennilega trú að það að fara að túlka heiminn gegnum rit og kenningar Karls Marx hafi á einhvern hátt verið stórkostlegt andóf gegn því að skoða heiminn með augum hvítra, miðaldra karla. Ég læt aðeins nægja að skella hér inn mynd af Marx til áréttingar.

Karl Marx á góðri stundu


Næst langar mig að gera örlitlar athugasemdir við þá opinberunarsagnfræði sem felst í pistlinum. Hún er af sama sauðahúsi og þvaðrið í þeim sem segja að kristilegt siðgæði og siðferði sé einn og sami hluturinn, ein órofa heild. Að ekki sé til neitt siðferði nema fyrir krist og kenningar hans. Kjarni pistilsins er sá að upp að því marki sem femínismi sé marxískur þá sé það aðeins vegna þess að báðar kenningar eigi hlutdeild í mengi þess óumdeilanlega fagra og sanna. Slíkur málflutningur er vissulega afar afhjúpandi – en hann afhjúpar ekki endilega ágalla á samfélaginu og gerð þess – heldur næstum glæpsamlegt sinnuleysi málhefjandans þegar kemur að sjálfsrýni og heiðarleik. Karl Marx er ekki maðurinn sem kenndi heiminum heilbrigða skynsemi. Heilbrigð skynsemi var kominn til sögunnar löngu áður. Sem og sú almenna heimska sem Þorsteinn virðist hafa smitast af.

Karl Marx fann ekki upp skynsemina. Og hann fann ekki upp kvenfrelsisbaráttu. Enda held ég engum dytti í hug að halda slíku fram. Því hefur samt verið haldið fram að mjög framarlega í femínískri baráttu séu marxískir hugmyndafræðingar sem blandi marxisma og femínisma saman þar til grauturinn er orðinn svo þvældur að menn hætta að sjá hvar annað byrjar og hitt endar. Það er sérstaklega hættulegt í höndum þeirra sem telja að femínísk viðhorf séu óumdeilanlegur sannleikur og sammannleg skynsemi. Og alveg einstaklega hættulegt þegar femínistarnir sjálfir gerast lymskulegir og gera lítið úr umdeilanleika aðferða sinna og hugmyndafræði. Það þætti til dæmis afar sérstakt og óupplýsandi ef stjórnmálaflokkur byði fram undir slagorðinu: „Flokkur þeirra sem vita að ýmislegt þarf að bæta og eru tilbúnir að gera eitthvað í því.“ Maður myndi væntanlega vilja fá að vita með hvaða holdi ætti að klæða kjöt á þessa grind áður en maður fæli slíkum flokki atkvæði sitt eða vald. Maður gæti jafnvel freistast til að álykta að flokkur með slíkt viðhorf væri skipulega að forheimska ásýnd sína. Væri að draga sjálfan sig og aðferðir sýnar niður á svið gagnrýnilaussar heimsku. Ef maður sæi svo málsvara flokksins koma fram og segja: „Nú ætla ég að útskýra þetta allt fyrir ykkur betur en allir aðrir, en ég vara ykkur við, ég mun nota flókið orð eins og „teóría“ en þið megið bara geispa meðan ég tala þannig. Ég vek ykkur fyrir lokaorðin,“ þá myndi maður freistast til þess að kalla viðkomandi asna og segja honum að hætta að tala við fólk eins og fífl. Og ef maður væri í óvenju hvössu skapi myndi maður segja honum að hætta að tala við fólk eins og hann væri innvígður, ungur háskólaborgari með gleraugu hverrar sýn á heiminn við ættum nú að meðtaka sem óupplýstur almúgi.

Kjarninn í pistli Þorsteins stendur og fellur með því hvort femínismi er sannarlega marxískur sem fræðigrein – en það séu enda öll fræði á þessu sviði. Svarið við því er að sjálfsögðu nei. Marxísk fræði eru ekki einu fræðin – ekki frekar en kristið siðferði er eina siðferðið. Upp að vissu marki er femínismi vissulega til sem fræðigrein. En eins og allar fræðigreinar sem ekki eru bara upp á punt þá eru til ótal útgáfur af fræðilegum femínisma. Það má enda auðveldlega búa til femíníska útgáfu af næstum hvaða hugmyndafræði sem er.

Það sem íslenskir femínistar eru stundum sakaðir um er að vera bæði. Bæði marxistar og femínistar. Og að þeir neiti að viðurkenna að til séu aðrar leiðir að kvenfrelsi og jafnrétti en þær sem byggja á hugmyndum löngu dauðs miðaldra karls um stéttarbaráttu, falsvitund og átök.  Sú gagnrýni á fullan rétt á sér. Enda er engan veginn sjálfsagt að það sé femínismi að vera fylgjandi fóstureyðingum en á móti staðgöngumæðrun, fylgjandi loðnum píkum en á móti rökuðum, fylgjandi launajafnrétti en á móti foreldrajafnrétti.

Frá heimskunni liggja ótal leiðir. Það er ekki alltaf gott að vita hvar heimskunni sleppir og upplýsingin tekur við en maður getur verið nokkuð viss um það að sá sem neitar að kannast við nokkurn slóða annan en sinn, hann er enn heimskunnar megin.

9 ummæli:

Þorsteinn sagði...

Vá, Ragnar. Eins og er svo tamt með þig, þá er erfitt að svara þessu. Innihald þessa pistils kallast stórkostlega á gagnrýni þína á minn eigin pistil. Þú dregur hann saman í einhverja smættaða útgáfu, á undan afar skemmtilegum fúkyrðaflaumi sem hvorki mér né nokkrum femínista myndi nokkru sinni detta í hug að nota yfir pistlana þína. Eftir þá ágætu smættuðu útgáfu ferðu út í einhverjar pælingar sem tengjast smættuninni ekkert, og eru engan veginn tengjanlegar við eitt né neitt annað en þinn eigin persónulega þankagang, sem er fullkomlega óskýr hverjum þeim sem annars les pistilinn og er ekki þú.

Ef ég vildi beita viðlíka smættun á þinn pistil yrði það á þessa leið:

Þorsteinn er hálfviti og ég hata hann. Hann er samt ekki heimskur. Það gerir það enn verra. Ég, hinsvegar, veit, ólíkt honum, að Marx var hvítur. Hér er mynd! Ég held að hann hafi þessar skoðanir, þó ég hafi ekki spurt hann. Ég held að hann noti orð eins og "teóría" bara til að gera grín að lesendum, en ég hef ekkert fyrir mér í því. Svo er hann með gleraugu og er í háskólanum, sem fer í taugarnar á mér.

Hérna kemur svo loksins einhver alvöru gagnrýni: "Kjarninn í pistli Þorsteins stendur og fellur með því hvort femínismi er sannarlega marxískur sem fræðigrein". Allt sem á undan kemur, Ragnar, hver stafur, er bara ómerkileg persónuárás. Ég er varla í skapi til þess að svara þessum einu orðum pistilsins sem meika einhvern minnsta sens eftir árásirnar að framan. Mun mögulega reyna síðar, þá helst þegar þú ert orðinn rólegri.

Þorsteinn sagði...

Jafnvel má svo bæta því við: þú ert að taka þennan örstutta og léttúðuga pistil allt of alvarlega. Einhvernveginn telur þú þig geta byggt upp yfirgripsmikla mynd af heimssýn minni upp úr þessum sex hundruð orðum sem eru meint sem létt diss á Brynjar Níelsson og stutt pæling um áhrif marxismans innan akademíunnar. Ef þú ætlar að skrifa eitthvað svona gegn mér, Ragnar, ættir þú virkilega að skrifa það um eitthvað sem ég birti í fullri alvöru.

Ásgeir sagði...

Mér sýnist einn partur af „gagnrýni“ þinni, Ragnar, vera sú að „kenningar Karls Marx“ geti ekki hafa komið af stað hreyfingu innan einhvers fræðasamfélags um að „ skoða heiminn með augum hvítra, miðaldra karla“ vegna þess að hann var hvítur, miðaldra karl sjálfur. Það er að segja, að skoða heiminn með augum Marx er einmitt að skoða heiminn með augum hvítra, miðaldra karla.

En er sú forsenda ekki í fyrsta lagi röng, og í öðru lagi algjör dólgamarxismi sjálf?

Þorsteinn sagði...

Þú byrjar á því að klæða gagnrýni þína á femínista upp sem góðmennsku, þ.e. því þér leiðist þegar gott fólk segir ranga hluti, og meðaumkvun leiði þig því til leiðréttinga. Þetta er liður í því að setja sjálfan þig upp sem einhvers konar hetju fyrir að skrifa pistilinn, sem þú heldur áfram þegar þú segist vera kurteis og orðvar, en missa stjórn á þér (hetjulega) þegar þú lest pistilinn minn. Þú segist næstum því geta sleppt því að kalla hann "yfirgengilegt og grunnhugsað bull", en eitthvað greinilega hindrar þig í þinni rómuðu sjálfsstjórn.

Því þú gætir haldið kjafti - en það er ekki hægt. Þú ert of mikil hetja. Það að skrifa gegn þessum pistli er það sama og að berjast gegn rasisma. Það er hreinlega mikilvægt verkefni að segja þessa skoðun. Þú leyfir fólki að kalla araba tuskutoppa - en þetta skal ekki fá að líðast. Þetta gæti verið ákveðinn munur á okkur tvemur.

Ég er víst hvorki fífl né óþokki, og málstaður minn er ekki gegnheil heimska, bara smá. En pistillinn er smánarlegur, og klám.

Svo kemur smættunin: "Femínisma er brigslað um að vera marxísk kenning í þeim tilgangi að niðra femínisma". Rétt. "Ég ætla nú að varpa ljósi á þessi tengsl betur en háttsettir hægrimenn þrátt fyrir að vera enginn sérfræðingur um viðfangsefnið." Rétt. "Ég vara ykkur við að ég mun nota gáfumannaorðið teóría sem mun líklega reyna mjög á ykkur, lesendur mína." Rangt. Teóría er ekkert gáfumannaorð fyrir neinn sem kann ensku. Marxísk teóría er hinsvegar eitthvað sem hljómar ótrúlega leiðinlega, jafnt fyrir mér sem öðrum, svona eins og fiskveiðilöggjöf eða synoecismi. Þú gefur þér að ég sé að tala niður til fólks út af persónulegri óbeit á mér. Það var hinsvegar ekki meining mín. "En femínismi getur ekki verið marxískur því konur fóru að berjast fyrir réttindum áður en Marx fæddist." Þetta segi ég hvergi. "En til er fræðilegur femínísmi sem vissulega er marxískur." Rétt. "Enda eru einu tengsl femínisma við marxisma (held ég) innan háskólanna þar sem marxískur femínismi er stundaður sem fræðigrein." Rangt. Hann er ekki stundaður sem "fræðigrein" (augljóslega), heldur notaður sem teóría innan fræðigreina. Þarna er mjög skýr og augljós munur á. "En marxísk fræði snúast um það að neita að skoða heiminn í ljósi rita eftir hvíta, miðaldra karla og skoða þau frekar í ljósi rita Karls Marx." Rangt. Ég útskýri í hverju þessi marxísku fræði hvað helst einkennast og það er ekki þetta eins og þú veist vel. "En í því felst að skoða allt það fólk sem ríku, hvítu, miðaldra karlarnir höfðu ekki áhuga á að skoða." Rétt. "Þessi aðferð er nútímaleg og raunar grunnur allrar sagnfræði dagsins í dag." Rétt, þó ég orði það betur. "Það má því afskrifa alla sagnfræði ef maður ætlar að amast við þeirri aðferð að skoða söguna sem sögu kúgaðra kvenna. " Really, Ragnar? Þú ert ekki einu sinni að reyna núna. "Svona er heimurinn bara í nútímalegum skilningi. " Þín orð.

Nú beitir þú ákveðinni aðferð til að láta lesendur þína skammast sín ef þeir dirfast að vera ósammála þér. Þá eru þeir nefnilega ekki upplýstir. Þetta er dæmi um þann hroka sem þú stöðugt gerir mér upp.

Þorsteinn sagði...

Ásgeir svarar því vel hérna að ofan að það að Marx hafi verið hvítur, miðaldra, evrópskur karlmaður (þó ekki mjög ríkur) komi engan veginn í veg fyrir að skrif hans veki athygli á stöðu annarra en hans eigin stétt. Enda er það bara augljóst. Marx augljóslega vakti athygli á öðrum stéttum en sinni eigin. Þetta er léleg röksemdafærsla hjá þér. Þá kemur sérgrein Maurildisins - smekklaus myndainnsetning.

Þú ferð næst að halda því fram að í pistlinum birtist "opinberunarsagnfræði". Hvað þú átt við er óskýrt. Þú líkir þessari óútskýrðu "opinberunarsagnfræði" við eitthvað dæmi um kristið siðgæði, sem er enn furðulegra og kemur engu við á nokkurn hátt. Svo kemur þú með kenningu um hvað sé kjarni pistilsins - sú fyrri af tvemur (og eru þær tvær afar ólíkar). Svo vitnar þú nokkurn veginn beint í pistlinn minn, nema að þú skiptir orðinu "sósíalismi" út fyrir "mengi þess óumdeilanlega fagra og sanna". Þú sem sagt gefur þér að mér finnist sósíalismi vera " mengi þess óumdeilanlega fagra og sanna". Þú hefur engar forsendur til þess að gefa þér það og ég skal útskýra það hérmeð að það er rangt. Útfrá þessum fölsku forsendum vinnur þú það út að ég geti ekki stundað sjálfsrýni og sé óheiðarlegur. Síðan tekur þú U-beygju og segir allt í einu að Marx hafi ekki kennt heiminum heilbrigða skynsemi. Vissulega ekki. Hann kom samt sem áður með nýjar hugmyndir, hvað þá helst hugmyndina um að sjá söguna sem stéttabaráttu. Hún var ekki til fyrir Marx.

Við erum sammála um að Marx fann ekki upp kvenfrelsisbaráttuna. Gott. Þú leiðir svo út að það að einhverjir telji marxisma og femínisma samfastan geri það að verkum að femínistar verði að fara að efast um að femínismi sé "óumdeilanlegur sannleikur og sammannleg skynsemi". Þetta er léleg rökleiðsla. Þú ferð að tala um að femínistar geti ekki tekið gagnrýni. Það kemur pistlinum sem er til umræðu ekkert við. Þú agnúast út í skilgreiningu á femínisma sem stendur á vefsíðunni knúz.is; hún sé of víð. Það kemur málinu heldur ekkert við, en þá kemur þú inn og tengir þetta við pistilinn minn, með því að ég sé að útskýra femínisma á hrokafullan hátt - hvað helst út af því að ég nota orðið "teóría", sem þú aftur segir að sé "flókið". Það er ekki rétt, eins og ég rakti að ofan. Þú virðist lesa einhvern niðurlægjandi tón inn í pistilinn. Það er leitt ef þú gerðir það, það var ekki meiningin. "Ég vek fyrir ykkur lokaorðin" er setning sem ég skil ekki hvað þýðir.

Þorsteinn sagði...

Núna kemur þú að því sem ég held að sé kjarni gagnrýni þinnar. Þú freistast til þess að kalla mig fífl. Jafnframt segist þú ekki vera í hvössu skapi, og fylgir því einkar skynsamlega eftir með því að biðja mig um að þegja, þar sem ég sé "ungur háskólaborgari með gleraugu". Þetta minnir mig skemmtilega á grunnskólaeinelti, árásir á gleraugnagláminn og proffann, sem ég kannast ágætlega við, og þú ættir að gera líka (ertu ekki grunnskólakennari?) Ég hef illyrmislegan grun um að þarna liggi hundurinn grafinn í hinni svakalegu heift sem þú skrifar þennan pistil í.

En að því loknu verðurðu loksins málefnalegur. Er femínismi marxískur sem fræðigrein? Það er alvöru spurning. Þú svarar henni neitandi. Ástæður þínar fyrir því eru hinsvegar skrýtnar. Það er því marxísk fræði "eru ekki einu fræðin". Það kemur engu við. Svo segir þú að femínismi sé bara til sem fræðigrein upp að vissu marki, en jafnframt séu til ótal útgáfur af fræðilegum femínisma. Því má búa til femíníska útgáfu af hvaða fræðigrein sem er. Það er rétt, en hverju kemur það við?

Íslenskir femínistar eru sakaðir um að vera bæði marxistar og femínistar, segir þú. Ég hef ekki tekið eftir því. Ég hef tekið eftir því að femínismi er kallaður marxískur í eðli sínu. Þar er munur á. Svo segir þú að til sé önnur leið að jafnrétti og kvenfrelsi en Marx. Það er rétt. Ég mótmæli því enda hvergi.

Undir lokin dettur þú út í að tala um fóstureyðingar og píkuhár. Það tengist heldur engu ofangreindu svo að ég sjái. Svo er allt bundið upp í að "frá heimskunni liggja ótal leiðir", en ég sjái bara eina leið - þess vegna sé ég heimskur. En þú hefur hvergi fært sönnur á að ég sjái "enga aðra leið", eða bara hvaða leið það er sem ég á að sjá og enga aðra.

Ragnar, málefnalegri verð ég ekki. Ég hef svarað hverjum og einum einasta punkti í þessum pistli og ég sé ekki að neinn þeirra haldi vatni. Og ég hef hvergi kallað þig einu einasta illa nafni. Það ætti að segja þér margt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Viltu að ég bregðist eitthvað við þessu, Þorsteinn?

Nafnlaus sagði...

Þorsteinn: Ég er sammála þér um að þetta er ekki mjög málefnalega nálgun hjá Ragnari. En þú svara samt ekki aðal gagnrýni hans. Hann bendir á mjög góð dæmi að femínismi eins og hann er settur fram hjá þeim femínistum sem heyrist hæst í er mjög í anda marxisma. Það er að gengið er út frá því að karlamaðurinn sé að undiroka kvenmanninn þegar teknar eru ákvarðanir um pólitíska stefnumótun og freistast til þess að horfa á kalmenn og kvenmenn sem tvær stéttir í baráttu um félagsleg völd þar sem karlmaðurinn er að reyna að verja feðraveldið.

Ragnar nefnir gott dæmi um að femínistum finnst sjálfsagt að konur eigi rétt á að fara í fóstureyðingu og ráða yfir sínum eigin líkama (sem ég er algjörlega sammála). En berjast svo á móti staðgöngumæðrum og finnst ekkert sjálfsagðara en að banna konum að taka sjálfar slíkar ákvarðanir vegna þess að þá er verið að gera kvenlíkamann að verkfæri karlmanna.

Þess vegna er ekki svo vitlaust að líkja femínisma við marxisma eins og hann er settur fram af mörum rótækum femínistum. Persónulega vil ég bara kalla þetta sínum réttu nöfnum og gera greinamun á frjálslyndum femínisma og rótrækum femínisma. Þá geta allir sem styðja málstaðinn byrjað að kalla sig femínista líka þeir sem að styðja ekki aðferðafræði rótækra femínista.

Nafnlaus sagði...

Þetta er ómerkileg einföldun og frekar barnalegur útúrsnúningur á skrifum Þorsteins. Það sem stendur þó helst upp er hversu ótrúlega dónalega þessi gagnrýni er sett fram. Magnað alveg hreint.