17. maí 2012

Hamingjan er ekki flókinFyrsta maí í fyrra var ég heimspekilegur hér á Maurildum og bloggaði um gallana við samkeppnisþjóðfélagið. Kjarninn í pistlinum er sá að alltof snemma förum við að draga börn á dilka og kenna þeim að dansa með hálfgölnu samfélagi sem snýst allt um samkeppni og samanburð. Ég fullyrti þá, og fullyrði enn, að þótt samkeppni hafi á sér yfirborð réttlætis þá sé hún vonlaus leið að farsæld.


En því miður er áhyggjulaus og spennandi æska á undanhaldi. Það kemur sífellt meir í hlut foreldra (og rafmagnstækja) að hafa ofan af fyrir börnum sínum á daginn. Það er enda búið að rífa af börnunum olnbogarýmið. Þar sem áður var drullumall og hægt var að leggja vegi fyrir matsbox-bíla er núna malbikað bílastæði. Þar sem maður gat einu sinni smíðað kofa er núna hálfköruð, afgirt nýbygging. Ef maður kemur heim í skítugum fötum fær maður skammir. Börn búa í básum. Útrásina fá þau á stórum heræfingarlegum viðburðum í íþróttahúsum eða á íþróttavöllum. Þar sem þau eru að sjálfsögðu rækilega merkt eftir árangri. Skiptast strax sjö/átta ára í gull, silfur og bronsbörn. Já, og undirmálsbörn.

Og ég viðraði þá hugmynd að skortur á eðlilegri nýtingu alhliða hæfileika hefði gert Íslendinga (og aðrar þjóðir) óhamingjusamar á verulega lúmskan og eyðandi hátt – og að eitt einkenni þeirrar óhamingju væri ofsafengin sókn í skyndinautnir eins og djamm og ærleg fyllerí. 

Það er ekkert mál að breyta þessu. Við erum ekkert með fingurna í flóðmúrunum. Hér fer ekkert allt til fjandans þótt við leyfðum okkur að slaka á og hætta þessu rugli. Hver og einn getur áorkað miklu. En langmestu er hægt að áorka ef við breytum opinberri stefnu. Hættum að vera svona helvíti klínísk og köld. Breytum menntakerfinu og setjum farsæld sem markmið með skólum. Reynum að mæla hana frekar en endalausa ómerkilega þekkingaráfanga eða námshæfni. 
Ég benti á að Jón Gnarr hefði reynt að setja gleðina og hamingjuna á oddinn og þyrfti nú hjálp borgaranna til að koma einhverju af viti til leiðar. Ég skoraði ennfremur opinberlega á sjálfan mig:

Hvernig væri að gera tilraun til að hjálpa honum? Koma með uppbyggilegar hugmyndir sem ekki kosta mikinn pening? Þurfa kannski bara pólitískan vilja og þunga. Hvernig má gefa börnunum aftur tækifæri til að drulla sig út, stíga á nagla og koma heim með fötu fulla af fjörusniglum? Hvernig væri að verðlauna einu sinni börn sem hafa ástríðu fyrir ljóðum, smásögum eða handavinnu? Hvernig má rjúfa alhliða einangrun gamla fólksins inni í hvítmáluðum líkkistum sem við köllum elliheimili? Hvað er hægt að gera? 
Ég skal byrja. Ég ætla að ganga í lið með samkennurum mínum núna strax og leggja drög að því að nemendur okkar fái á skólatíma að sigla niður Bugðu (sem er á sem rennur framhjá Norðlingaholti og út í Elliðavatn). Og ég ætla að vera duglegri við að flytja kennsluna út í náttúruna. 

Það gleður mig að segja að núna ári seinna höfum við farið fimm siglingarferðir niður Bugðu og út á Elliðavatn. Sterkur kjarni kennara af báðum kynjum og öllum aldursstigum stendur saman að verkefninu. Við höfum upplifað allt frá bakandi sólskini og dýrðar sælu til ægilegs slagviðurs og örmögnunar. Í síðustu ferðinni voru bara stelpur. Þegar við komum að ósi Bugðu og sigldum út á vatnið með glampandi sólina yfir hausnum á okkur og sindrandi öldurnar undir okkur gat ég ekki annað en hallað mér afturábak í bátnum, lokað augunum og hlustað. Ég heyrði í óðinshönum og lóum, þytinn í blænum og gjálfrið í vatninu – og síðan fór að óma um vatnið söngur. Í öðrum hverjum bát voru stelpurnar brostnar í söng. Það þurfti enga hvatningu aðra en vellíðun og snert af ofur hversdagslegri hamingju. En það er einmitt grundvallar innihaldsefnið í farsæld.

1 ummæli:

Þorbjörn sagði...

Ég er hræddur um að Íslendingar stefni hraðbyri í átt að amerískri samfélagsmynd, þar sem "bubblewrap-kynslóðin" fær stundaskrá fyrir allan daginn, henni er keyrt í skólann og á íþróttaæfingu og í tónfræði og dans og þau fá ekki að upplifa umhverfi nema innan lokaðra girðinga bakgarðsins. Foreldrar sem neita að keyra börnin eru litnir hornauga, þau eru álitin vanrækja þau.
Verkefnið ykkar er þakkar- og aðdáunarverð viðleitni gegn þessari þróun. Til hamingju með það.