17. mars 2012

Stóra pillumálið

Nú ku standa til að skólahjúkrunarfræðingar geti ávísað getnaðarvarnarpillum á grunnskólanemendur án vitundar og samþykkis foreldra. Rökstuðningurinn er sá að kynlíf unglinga sé staðreynd og því fylgi ótímabærar þunganir og sjúkdómar. Auk þess geti 15 ára börn stundað kynlíf án þess að vera að brjóta lög.

Við þetta er tvennt að athuga.

Getnaðarvarnarpillan veitir auðvitað enga vörn gegn sjúkdómum.

Getnaðarvarnarpilla er nokkuð róttækt inngrip í líkamsstarfsemi stúlkunnar.

Ég held það sé óverjandi að foreldrum sé haldið í myrkri þegar kemur að því að ávísa börnum þeirra lyfjum. Sama þótt ásetningurinn sé góður. Það er stór ákvörðun sem mögulega fylgja skæðar aukaverkanir að fara á pilluna. Slíkt er ekki hægt að framselja dómgreind barnsins og skólahjúkkunnar.

Mér finnst þetta eiginlega alveg fráleitt og lýsa stórundarlegu viðhorfi til hlutverks foreldra.

3 ummæli:

Einar Steingrimsson sagði...

Telurðu að börn eigi ekki að geta fengið pilluna (og önnur lyf) fyrr en þau eru orðin sjálfráða, 18 ára? Ef fyrr, þá hvenær?

PS. Blogger sucks. Þegar ég reyndi að setja inn þessa tjásu áðan hvarf hún. Eftir að ég hafði fyrst þurft að leita uppi reit fyrir lykilorð, sem ég sá ekki af því að glugginn var allt of lítill.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Börn eiga að fá öll nauðsynleg lyf. Með eða án samþykkis foreldra, allt eftir alvarleika máls og annarleika afstöðu foreldranna. En aldrei án vitundar þeirra.

Eva Hauksdóttir sagði...

Ég er sammála því að börn eiga ekki að fá lyf án vitundar foreldra. Hinsvegar er ég ekki viss um hvort skilgreiningin á barni er einhlýt. Ef 17 ára stúlka getur ekki fengið pilluna án vitundar foreldra, verður það kannski til þess að hún verður ólétt gegn vilja sínum. Ég hefði ekki beðið um pilluna 16 ára ef ég hefði átt á hættu að foreldrar mínir yrðu látnir vita en ég var þá farin að lifa reglulegu kynlífi og hefði ekki látið pilluleysið stoppa mig í því að gera það áfram. Reyndar finnst mér undarlegt að reyna ekki frekar meira til að stuðla að smokkanotkun, t.d. að bjóða þá mjög niðurgreidda hjá skólahjúkkunni.