17. maí 2012

Meint hlutdrægni RÚVÓRG og nú Herdís Þorgeirsdóttir hafa kvartað yfir fréttaflutningi RÚV af forsetakosningunum. Þau virðast bæði telja að fréttastofan sé illa fær um að fjalla af hlutleysi um framboð innanbúðarmanneskjunnar Þóru.

Ég hef fylgst æði náið með fréttaflutningi af baráttunni og get ekki séð að slík gagnrýni sé á sterkum rökum reist. Þóra og Svavar hafa bæði tekið sér leyfi frá störfum og fram að þeim degi sem Þóra bauð sig fram kom ekkert fram í störfum þeirra sem benti til þess að þau ætluðu í slaginn.

Auðvitað hefur verið slagsíða á fréttaumfjöllun. En sú slagsíða hefur verið ÓRG í vil alveg eins og Þóru. Þau tvö fá alveg ofboðslega athygli – miklu meiri en mótframbjóðendurnir fá. Sem er áhyggjuefni í sjálfu sér. Því þótt það sé ekki hægt að ætlast til þess að fjölmiðlar sýni öllum frambjóðendum álíka áhuga (tala ekki um þegar bjánar eins og sprengjumaðurinn lýsa yfir framboði) þá vill maður trúa því að Ísland geti vel þolað það að „venjulegt“ fólk gæti komist til æðstu metorða, enda sé hin faglega innistæða selebbanna næsta lítil umfram manneskjuna á götunni.

Rúv hefur alls ekki staðið sig svo illa að mínu viti. Alls ekki raunar þegar haft er í huga hvað heiftin og þrýstingurinn úr „herbúðum“ ÞA og ÓRG er ofboðslegur.

1 ummæli:

Torfi Hjartarson sagði...

RÚV er áhyggjuefni. Frambjóðandi óháður stjórnmálahreyfingum þarf næstum því að kæra sig inn í umræðuna og það er svo prívatfyrirtækið Stöð 2 sem kemur loks umkvörtunum hans á framfæri opinberlega. RÚV er enn fremur kyrfilega stýrt af stjórnmálahreyfingum sem máta sig við framboð Þóru og forsetans. Svo er útungarhlutverk RÚV fyrir stjórnmálahreyfingarnar æ meira áberandi. Þóra er sú nýjasta á löngum lista blaða- og fjölmiðlamanna sem stokkið hafa yfir í stjórnmálin eftir að hafa "aflað sér trausts" almennings sem að því er virtist hlutlægir blaðamenn og heimilisvinir í sjónvarpinu. Þóra gekk reyndar lang lengst í því að blóðmjólka áhorfið allt fram á síðustu stundu. Þetta fyrirkomulag og pólitískt uppeldishlutverk RÚV fær bara ekki staðist almennar siðareglur og kröfur til blaðamanna og ég get ekki ímyndað mér að þetta sé svona í löndunum í kringum okkur.
Óháðir frambjóðendur eiga ekki möguleika í þessu kerfi sem rekið er á kostnað á allra borgaranna. Þetta er bara ekki í lagi.