20. maí 2012

Skakki mælikvarðinn og hálmstráinÉg skil þá vel sem öðrum þræði sem vilja losna við ÓRG sem forseta. Það er löngu tímabært að byrja upp á nýtt í þessu landi og breyta innri og ytri ásýnd þess. Menn fengu stórkostlegt tækifæri til að fara að vanda sig við lýðræðið í þessu landi í hruninu. Sem menn virðast einsetja sér að nýta alls ekki.

Ég fór í sund í Vesturbæjarlaug um daginn og hlustaði þar á pottrotturnar rökræða heimsmálin. Eftir að hafa hlustað góða stund fór ég að inna eftir nánari útskýringum á afar róttækum skoðunum sumra sem þar voru. Það var niðurdrepandi reynsla.

Eins hefur það að lesa blogg um forsetakosningarnar verið einkar niðurdrepandi reynsla. Menn stara með öðru auganu og stinga úr sér hitt. Á það sérstaklega við um þá sem styðja ÓRG eða Þóru – eða réttara sagt styða eða berjast gegn ÓRG. Þeir sem ætla að kjósa hina frambjóðendurna virðast yfirleitt nokkuð hræsninslausir í sínum málflutningi.

Það er í raun skammarlegt hvernig baráttan fer fram. Hún er full af ógeðslegu persónulegu skítkasti, rembu, lygum og þvættingi. Mér finnst þessi þjóð eiginlega alveg ofboðslega heimsk stundum. Og þótt ég ætli að kjósa ÓRG þá eiga þessir lestir alveg eins við stuðningsmenn hans og Þóru. Þessi barátta virðist vekja upp allt það sem er vonlaust við þessa þjóð.Menn komast upp með furðulegustu hluti. Menn virðast fá að halda því fram að það að Þóra vilji í ESB geri hana einhvernveginn að ógn við sjálfræði landsins ef hún verður forseti. Og svo fá menn að halda því fram samtímis að ÓRG sé McCarthy endurfæddur og að hann sé á höttunum eftir því að ræna völdum á Íslandi (hver er í alvöru McCarthyinn í svoleiðis pælingum?).

Og nú fara menn mikinn og ræða þjónkun ÓRG við útrásarvíkinga. Líkja honum við peningasjúka snobbhóru sem studdi útrásarvíkingana til valda.Kommon. Eru menn búnir að gleyma öllu sem gerðist hérna? Eru menn búnir að gleyma því hvernig auðmennirnir lögðu undir sig fjölmiðlun (með öllum tungunum innanborðs) og beittu Fréttablaðinu grimmt í pólitískum tilgangi? Hvernig samfélagsrýnar sem nú fara um með stækkunargler voru settir yfir gæluverkefni á læknalaunum þegar bólan blés út sem mest? Hvernig almenningur missti sig í dansinum við mammon? Hvernig hver einasti leigubíll í Reykjavík er 2007 árgerð á myntkörfuláni?

Það getur verið fróðlegt að skoða tekjublað Frjálsrar verslunar frá 2006 og 2007 til að rifja upp hvert peningar streymdu og með hvaða afleiðingum.

Birtingarmynd íslenskrar heimsku var önnur árið 2007 en heimskan er söm við sig. Ef ÓRG hefði verið gagnrýninn á hina íslensku útrás hefði hann verið sakaður um að spilla fyrir þjóðarhagsmunum. Hann, utanríkisþjónustan og stjórnarráðið dönsuðu kringum þessa kóna í einum samstilltum dansi. Og dansinn var ekki einu sinni nýr.

Að þessu leyti var engin breyting á sameiningartákninu Vigdísi og sundrungartákninu ÓRG. Vigdís fór um allar koppagrundir og hampaði íslendingum í útlöndum. Hún mætti á skrifstofur stórfyrirtækja til að ljá milljónadílum aukinn virðuleik. Hún þáði boð stórfyrirtækja hægri vinstri.Og það er eins og allir hafi bara skyndilega gleymt því að þetta var eiginlega eitt af fjórum meginhlutverkum Vigdísar sem forseta. Hin þrjú hlutverkin voru að tala fallega um Frakkland og trjárækt (og mannrækt); að veita stjórnarmyndunarumboð; að hengja nælur í fólk.

Og svo blöskraði fólki þjónkun Vigdísar í starfi að upp reis mikil óánægjualda þegar hún tók á móti Kínverjum í spjall um afstæði mannréttinda. Þar gekk hún aðeins of langt í hlutleysinu.Allt þetta virðist gleymt. Látið er sem ÓRG hafi sérstaklega tekið það upp hjá sjálfum sér að hampa íslenskum viðskiptamógúlum á erlendri grundu. Enginn virðist sérstaklega leggja það á sig að þar var hann að framfylgja opinberri stefnu íslenskra stjórnvalda sem studdu þessa menn með ráðum og dáð og gáfu út traustyfirlýsingar þegar í harðbakkann sló. Og enginn þykist sjá að þessi partur af hlutverki forsetans var einmitt sá (ásamt orðuveitingum) sem ÓRG tók í arf frá vorverum sínum. Þarna var hann einmitt að leika hlutverk hins hefðbundna, hlutlausa, íslenska forseta. Hlutverkið sem Þóra vill taka upp aftur. Þar sem ÓRG sveigði frá því hlutverki var þar sem hann byrjaði að vera gagnrýninn og efast um gildi ákvarðana stjórnvalda og stefnu.

ÓRG hefur vafalaust margt á samviskunni og margt má tiltaka gegn honum. En það verður að vera heil brú í andófinu. Það gengur ekki að gáfað fólk hangi í hálmstráum og horfi fram hjá allri heildarynd í vileitni sinni til að skíta út persónuna ÓRG. Ofsafengin ástríðuheimska er ekkert skárri en önnu heimska. Málefnaleg umræða krefst þess að menn noti ekki skakka mælikvarða. Að menn hugsi sig aðeins um en hlusti ekki bara gagnrýnilausir á sjálfa sig tala.


Forseti Íslands hefur alltaf verið strengjabrúða stemmningarinnar í landinu. Af og til hefur samt komið í ljós að stemmning þeirra sem halda um strengina er önnur en annarra landsmanna. Hefðin hefur verið sú að við slíkar aðstæður beygir forsetinn sig fyrir valdinu. 

ÓRG breytti því og kom í leið upp um rótgróna andúð á íslenskum almenningi. 

Maðurinn sem hæst lét í pottinum í Vesturbæjarlauginni sagðist stoltur starfandi meðlimur í Samfylkingunni. Eftir að hafa rætt við hann góða stund kom kjarninn í skoðun hans í ljós. Eftir að hafa leitt í ljós ýmsar vafasamar fullyrðingar og mótsagnir stóð aðeins eitt eftir sem hann hékk í fastar en sundskýlunni: Íslenska þjóðin er samansafn fífla. 

Íslensku fíflin standast ekki yfirborðskenndan sjarma ÓRG. Þau ráða ekki við að hugsa um mál eins og Icesave og skilja engin flókin mál. Slík fífl hafa ekkert við valdið að gera.

Mig grunar, að ef grannt er gáð, sé þetta kjarninn í skoðunum fleiri.

Mín trú er sú að eina lausnin frá heimskunni sé að hætta að koma fram við fólk sem fífl. Að fá því völd og láta það lifa við afleiðingar ákvarðana sinna. 

Þjóð sem lifir við eilíft valdaleysi mun aldrei standa upp á lappirnar og fara að lifa eins og menn.

9 ummæli:

Elín Sigurðardóttir sagði...

Almenningur missti sig ekki unnvörpum. Líklega leið flestum eins og Skapta (eða var það Skafti) sem fór úr bíl á ferð vegna þess að hann hélt að hann væri kyrrstæður í samanburði við hina.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Almenningur er svo langt frá því að vera saklaus af hruninu. Neysla var geggjuð, gagnrýnin hugsun lítil. Það er þægilegt að kenna útrásarvíkingum um – en svo sorglega rangt og ófullnægjandi.

Torfi Hjartarson sagði...

Það er ekki öðrum skýringum til að dreifa á hruninu nema alræði auðhringja útrásarvíkinganna og samstarfsaðila þeirra á þingi. Neysla og skuldsetning almennings og skuldsetning hefðbundinna fyrirtækja hér á landi var ekki meiri en í öðrum löndum svo sem í Noregi, Danmörku og USA. Veð sem íslenskur almenningur lagði fram voru t.d. mikið meiri en í USA þar sem fólk getur skilað lyklunum standi það ekki í skilum. Það er ekki íslenskum almenningi að kenna að gráðug sveitarfélög sprengdu upp verð á lóðum og glórulaust lánaframboð bankanna hækkaði sífellt íbúðaverð.
Skuldsetning bankanna og fyrirtækja bankaeigendanna (þ.m.t. helstu kvótahafanna) var alveg sér á parti og algjörlega án nokkurra veða. Nær fordæmalaust í heimssögunni.
Einn flatskjár eða hjólhýsi með sjálfskuldarábyrgð lántaka er mjög solid miðað við það.

Markaðurinn í Fréttablaðinu og fréttir DV um ríkustu menn landsins sáu svo um að halda niðri efasemdarröddum. Það hvarflaði t.d. ekki að manni að Björgólfsfeðgar væru í rauninni blásnauðir og stórskuldugir þegar FB, DV og Forbes lýsti þeim sem ríkari mönnum í heimi. Hvað þá að Baugsveldið skuldaði 1000 milljarða?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Úr rannsóknarskýrslunni:

Aðrir innviðir lýðræðissamfélagsins hafa líka reynst veikburða á Íslandi. Fjölmiðlar ræktu illa það hlutverk sitt að upplýsa almenning um stöðu mála og veita stjórnvöldum og einkaaðilum gagnrýnið aðhald. Fjölmiðlar áttu stóran þátt í að móta og viðhalda ríkjandi orðræðu um velgengni íslensks fjármálalífs. Háskólamenn hefðu getað lagt meira af mörkum í opinberri umræðu á grundvelli sérþekkingar sinnar. Móttökuskilyrði fyrir gagnrýni í samfélaginu voru þó slæm og þöggun jafnvel beitt, enda almenn ánægja með framgang fjármálamanna í aðdraganda bankahrunsins. Þjóðin var að miklu leyti blind á þau hættumerki sem gagnrýnendur bentu á og hugmyndir um afburðahæfileika íslenskra fjármálamanna, sem meðal annars var haldið á lofti af forseta Íslands, féllu í góðan jarðveg. Skortur á hófsemi og ráðdeild í íslensku samfélagi, ásamt með ógagnrýninni sjálfsánægju meðal þjóðarinnar, bjuggu á sinn hátt í hag-inn fyrir þá atburðarás sem hér varð í bankahruninu.

Af þessu má sjá að vandinn er víðtækur, djúpstæður og kerfislægur. Skýrsla vinnuhópsins um siðferði og starfshætti sýnir í hnotskurn að brýn þörf er fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt margir einstaklingar hafi vissulega gerst sekir um ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með viðeigandi hætti, er varasamt að einblína á þá. Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum beinast að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins.

Torfi Hjartarson sagði...

Fullyrðingin í siðfræðikaflanum um meintan skort á hófsemi og ráðdeild - þá væntanlega íslensks almennings er ekki rökstudd heldur slegið fram í umvöndunar- og siðvöndunartón. Skuldir íslenskra heimila voru sambærilegar við skuldir heimila í Danmörku, og Noregi og ekki var almenningur þar sakaður um bruðl og óráðsíu. Ekki varð hrun þar svo ljóst er að eitthvað annað og meira olli hruninu hér en einungis niðursveiflu í Noregi og Danmörku.

Það er líka ekki rétt sem segir að þjóðin hafi verið blind á hættumerkin. Það var reglulegur atburður frá 2003/2004 að upp kom hneykslun vegna bruðsl og óráðsíu greifanna en hvað var það annað en öfund og hælbit! Það er líka hluti af gildandi siðfræði að það sé ósiður að girnast "eigur" náungans. Forbes, DV, FB, MBL, Kauphöllin, RÚV sögðu stöðugar fréttir af því hversu ríkir greifarnir væru og hefðu því efni á að henda gullhúðum gemsum í kokteila í partýum.

Það sem helst má saka lítinn hluta almennings um er og er merkilegt nokk ekki fjallað um í kaflanum er sú árátta sumra að fylgja í blindni annarri hvorri fylkingunni án mikillar gagnrýni þ.e. Sjálfst.fl./Björgólfar vs. Samf./Baugur líkt og Man United og Liverpool væru að spila.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ágúst Ólafur Ágústsson: „Strax árið 2004 sást að skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja voru mun hærri hér en í nágrannalöndunum. Ísland var þá orðið eitt skuldugasta iðnríki í heimi. Þetta ár birtist grein í Financial Times þar sem Ísland var sérstaklega nefnt sem dæmi um land þar sem erlend lán banka til að fjármagna lántökur heimila drægju úr lánshæfi á alþjóðlegum mörkuðum.“

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://4.bp.blogspot.com/-O_wvB1yBa5c/T7lWY2vszxI/AAAAAAAADoE/O4irs3O9jm4/s1600/Screen+Shot+2012-05-20+at+8.38.25+PM.png

Torfi Hjartarson sagði...

Þau erlendu lán heimilanna sem voru á boðstólum til heimilanna voru brotabrot af lánum víkinganna eða aðeins 200 milljarðar í samanburði við 10.000 milljarða. Þarna er langt seilst til að finna sökudólg. Þingmaðurinn Ágúst var náttúrulega ekkert að finna að því að erlendu lánin sem boðið var upp á til heimilanna voru einnig ólögleg skv. lagatexta.

Þótt skuldir útrásarfyrirtækja væru gífurlegar voru skuldir heimila hér ekkert út úr kortinu í samanburði við nágrannalönd eins og kemur m.a. fram í skýrslu AGS frá því í apríl á þessu ári:

http://www.bonds.is/Assets/Daily/isb04_12.htm
http://www.imf.org/external/pubs/ft/weo/2012/01/pdf/c3.pdf
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/utlanaaedi-i-noregi-fjarmalaradherra-landsins-varar-landsmenn-vid

Samt hafði fasteignaverð hækkað óhóflega á Íslandi - sem byrjaði á uppboðsstefnu R-listans í Reykjavík og Sjálfstæðismanna í Kópavogi.

Olga Dobrorodnaya sagði...

Some times being arrogant, I believe, is a somewhat straightforward solution that will have an almost immediate effect. This is, of course, antithetical to the point of getting along with your fellow human beings but it is a choice for you to make. Otherwise I agree with you on many of your points Ragnar Þór, you are good.