1. maí 2011

Gallinn við samkeppnisþjóðfélagið

Þessi pistill er 1823 orð og inniheldur 11 myndir. Áætlaður lestrartími er 7 mínútur og 36 sek.

Réttlæti er ekki alltaf auðhöndlanlegt hugtak. Það gerir samfélögum erfitt um vik að virka – enda er frumforsenda samfélags – að það sé réttlátt. Að ekki sé gert upp á milli einstaklinga með óréttlátum hætti. Og í samfélagi frjálshyggju verður réttlætið eiginlega eina markmið hins opinbera. Öll önnur markmið á fólk að setja sér sjálft. 

Málið er að auðvitað skiptir svo margt annað en réttlæti máli. Það mikilvægasta má draga saman í einn hnapp og kalla farsæld. Farsæld er margfalt skynsamlegra, æskilegra og viðkunnanlegara markmið með mannlífinu en réttlæti. Farsældin gerir mannlífið fallegt. 


Með nokkurri einföldun má segja að réttlætið sé nauðsynleg forsenda þess að samfélag virki, farsældin sé nægjanleg. Það er mjög erfitt að byggja farsæld á ranglátum grunni – og í raun óhugsandi ef farsæld er skilgreind á hátt sem meikar einhvern sens. Farsæld er svo miklu meira en vellíðan eða yfirborðskennd útgáfa af hamingju. Sæl svín eru ekki farsæl.

Góð og gild kenning segir að hafi maður eitthvað markmið og standi frammi fyrir leiðum að því markmiði – þá sé skynsamlegast að velja einföldustu leiðina. Leiðina með fæstar „aukaverkanir“. Þetta er ágæt regla sem oft á við. En hún á ekki við nema stundum – og hún á alls ekki við ef markmiðið er óljóst eða fljótandi. 

Keppni er einföld leið. Og hún virðist vera réttlát. Í keppni eru reglur og „allir eru jafnir“ fyrir þessum reglum. Fyrirfram er ákveðið hvaða afleiðingar fylgja sigri eða tapi. Og vegna þess hve keppni er einföld leið þá hættir okkur til að nota keppnina til að leysa úr öllum erfiðum málum. Sumir ganga svo langt að segja að frjáls samkeppni leysi sjálfkrafa öll vandamál.

Keppni er samanburður. Samkeppni. Við fæðumst inn í samkeppnisþjóðfélag. Við erum ekki fyrr skriðin úr móðurkviði en við erum mæld og vigtuð. Foreldrar okkar fá afhent gögn með fyrirframmerktum stöðlum um „æskilega hæð og þyngd“ – næstu mánuðina erum við krossar og línur innan eða utan þessara staðla. Fólk sem hittir foreldra okkar á förnum vegi vill fyrst og fremst fá að vita hvar við stöndum miðað við aðra.

Í skóla er mokað í okkur námsefni með vélrænum afköstum og eftir hvern einasta skammt er okkur úthlutað númeri. Númeri sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að bera okkur saman við aðra nemendur. 

Samfélagið hefur markað brautir gegnum lífið sem ráðast af þessum númerum. Þeir sem hafa númer á tilteknu bili fylgjast að á meðan þeir sem hafa lægstu númerin heltast úr lestinni.

Við höldum samkeppninni áfram í vinnu og einkalífi. Bæði vegna þess að flestir vinnustaðir eru í eðli sínu samkeppnisstofnanir, bæði innávið og útávið, en líka vegna þess að við erum orðin svo rækilega skilyrt af uppeldinu – að okkur er ómögulegt annað en að vera í sífelldum samjöfnuði. 

Við berum eigur okkar, tekjur, útlit og allt mögulegt saman við sambærilega þætti hjá öðrum. Og þegar við eignumst börn berum við þyngd þeirra, fingra- og litningafjölda saman við önnur börn – og svo endurtekur ferlið sig.

Auðvitað er þetta rugl. Samkeppni er vonlaus leið að farsæld. 

Farsæll maður er maður fjölbreytninnar. Hann á sér víðfeðm og ólík áhugamál. Hann ræktar hæfileika sína og sinnir samferðarmönnunum. Hann hefur brennandi áhuga á mörgu og leitast við að sýna þann áhuga í verki. 

Við virðumst meira að segja vera með farsældarkompás í höfðinu frá fæðingu því nákvæmlega svona er barnæskan þegar best tekst til. Dagar líða í fjölbreyttu áhyggjuleysi, þar sem manni er ekkert óviðkomandi. Maður á sér vé með fjölskyldunni en svo fer maður í rannsóknar- og ævintýraferðir með vinunum. Byggir kofa, gerir dyraat, skoðar pöddur og hoppar í höfnina. Á kvöldin er maður í fótbolta í grenjandi rigningu og kemur svo þreyttur heim og drekkur hálfa fernu af ískaldri mjólk áður en maður legst úrvinda á koddann.

En því miður er áhyggjulaus og spennandi æska á undanhaldi. Það kemur sífellt meir í hlut foreldra (og rafmagnstækja) að hafa ofan af fyrir börnum sínum á daginn. Það er enda búið að rífa af börnunum olnbogarýmið. Þar sem áður var drullumall og hægt var að leggja vegi fyrir matsbox-bíla er núna malbikað bílastæði. Þar sem maður gat einu sinni smíðað kofa er núna hálfköruð, afgirt nýbygging. Ef maður kemur heim í skítugum fötum fær maður skammir. Börn búa í básum. Útrásina fá þau á stórum heræfingarlegum viðburðum í íþróttahúsum eða á íþróttavöllum. Þar sem þau eru að sjálfsögðu rækilega merkt eftir árangri. Skiptast strax sjö/átta ára í gull, silfur og bronsbörn. Já, og undirmálsbörn.

Samkeppni vinnur gegn farsæld. Til að hafa sigur í samkeppni má beita tveim aðferðum. Í fyrsta lagi koma náttúrulegir hæfileikar og áhugi að gagni. Og ekkert nema gott um það að segja. En í öðru lagi hjálpar iðni. Ef maður leggur sig bara nógu mikið fram þá fær maður forskot í samkeppninni. En þar sem  öll samkeppni mælir aðeins afmarkaða þætti þá hefur það í för með sér að þeir sem reyna að skara mest framúr leggja alltofmikla áherslu á afmarkaðan þátt lífs síns – og, samkvæmt skilgreiningu, vanrækja aðra þætti. 

Og þetta endar með því að stór hluti af því fólki sem vegnar „best“ í því kerfi sem við höfum komið okkur upp á sér varla líf fyrir utan sitt afmarkaða sérsvið. Velgengni er jafnvel mældi í stærð áhyggjuefna. Og jafnvel venjulegt fólk eyðir alltofmiklum tíma, erfiði og hæfileikum í einsleit og óspennandi verkefni. Við virðumst jafnvel trúa því að „vinna“ sé að stofni til neikvætt hugtak sem krefjist fórna og verulegst magns vansældar. Og þótt að fólk eyði nærri helmingi af vökutíma sínum í vinnu flesta daga þá lítur það svo á að „lífið“ eigi sér stað utan vinnu.


Það segir sig sjálft að svona getur þetta ekki gengið. Fólk verður óhamingjusamt langniðrí kjarna sínum. Og leitin að farsældinni hefur svo takmarkað rými í tíma og peningum að flestir verða að láta sér nægja daufan enduróm raunverulegrar farsældar í tímabundinni vellíðan. Í mat, á feisbúkk, fyrir framan sjónvarpið, á djamminu.

Og með fullri virðingu fyrir því hversu losandi og hressandi það er að fara á rækilegt fyllerí – þá ber næturlíf okkar Íslendinga það með sér að það er eitthvað verulega mikið að í lífi þess fólks sem veltist um miðbæinn útúrdrukkið og að rifna á saumunum þar sem vellur út gredda og önnur ófullnægja. 


Það skelfilega er, að þrátt fyrir að fjöldi fólks hafi komið fram og bent á að það séu til betri leiðir, þá hlustum við ekki. Að hluta til vegna þess að ein af fáum raunsæjum leiðin til að „vekja“ manneskju frá þessum ómanneskjulega hrunadansi er að berja hana í duftið. Svipta hana vinnunni – og helst heilsunni – og allrahelst að láta hana taka harðan slag fyrir tilveru sinni. Þá, og fyrst þá, virðast flestir sjá að mestum tíma og orku er eytt í hjóm. En þá eru aðstæður viðkomandi oft orðnar svo takmarkaðar að möguleikarnir verða aldrei þeir sömu og þeir eru hjá heilbrigðri, að ég tali ekki um ungri, manneskju sem hefur alla heimsins möguleika í hendi sér – en sóar lífinu í vinnu, vonleysi og skammvinna vímu.Það er ekkert mál að breyta þessu. Við erum ekkert með fingurna í flóðmúrunum. Hér fer ekkert allt til fjandans þótt við leyfðum okkur að slaka á og hætta þessu rugli. Hver og einn getur áorkað miklu. En langmestu er hægt að áorka ef við breytum opinberri stefnu. Hættum að vera svona helvíti klínísk og köld. Breytum menntakerfinu og setjum farsæld sem markmið með skólum. Reynum að mæla hana frekar en endalausa ómerkilega þekkingaráfanga eða námshæfni. 

Helsta erfiðið er að við erum orðin svo ægilega samdauna ruglinu að við erum ekkert sérstaklega mótttækileg þegar reynt er að gleðja okkur. Við erum með svo fáránlega samansaumaðar sálir að eina fólkið sem raunverulega má eiga samtal við okkur þannig að báðir leggi niður varnir og njóti þess eru nánustu vinir og ættingjar. 

Ég held að flestir sjái t.d. að Reykvíkingar hafa nú um þessar mundir Borgarstjóra sem svo heitt og innilega vill rífa upp gleði og hamingju í borginni. En hendur hans eru bundnar. Það vill enginn tala við Jón Gnarr um farsæld. Menn vilja tala við hann um réttlæti. Úthlutun. Peninga. Samkeppni. Ég vorkenni Jóni. Því jafnvel hans eigin flokkur er ekki nærri því allur á þessari línu. Þar virðist vera fullt af neróum sem bara vilja sjá stjórnmálin brenna á meðan þeir plokka fiðlur. 


En Jón er að reyna. Það sjá það allir. Hvernig væri að gera tilraun til að hjálpa honum? Koma með uppbyggilegar hugmyndir sem ekki kosta mikinn pening? Þurfa kannski bara pólitískan vilja og þunga. Hvernig má gefa börnunum aftur tækifæri til að drulla sig út, stíga á nagla og koma heim með fötu fulla af fjörusniglum? Hvernig væri að verðlauna einu sinni börn sem hafa ástríðu fyrir ljóðum, smásögum eða handavinnu? Hvernig má rjúfa alhliða einangrun gamla fólksins inni í hvítmáluðum líkkistum sem við köllum elliheimili? Hvað er hægt að gera?

Ég skal byrja. Ég ætla að ganga í lið með samkennurum mínum núna strax og leggja drög að því að nemendur okkar fái á skólatíma að sigla niður Bugðu (sem er á sem rennur framhjá Norðlingaholti og út í Elliðavatn). Og ég ætla að vera duglegri við að flytja kennsluna út í náttúruna. 

Hvað getur þú gert?

Engin ummæli: