24. apríl 2008

Svikarinn Sturla

Þrátt fyrir að ég hafi verið kominn í sjálfskipað bloggstopp til að mótmæla seinagangi Óla við smíði nýrrar síðu (en hann virðist taka hvaða athygli sem hann getur kreist út úr fjölmiðlum fram yfir það verk sem þó er löngu komið á eindaga) þá vil ég leggja orð í belg um mótmæli bílstjóranna.

Síðustu daga hefur vaxið ónotakennd í maganum á mér vegna þeirra. Þau eru raunar að þróast á þann eina hátt sem þau gátu. Strax í upphafi vakti ég athygli á því hve kröfur bílstjóranna voru óljósar og tvíbentar. Ég vakti einnig athygli á þeirri augljósu staðreynd að hörðustu stuðningsmenn mótmælanna voru ekkert að hugsa um málefnin, fyrir þeim var þetta samsuða af minnimáttarkennd og ómerkilegu hrollyndi. Ég vakti líka athygli á því hve Sturla (sem mjög fljótlega mun líklega fá barnalegt viðurnefni með viðskeyti við nafnið hans) var minna en hreinskilinn í framgöngu sinni. Eina stundina gaf hann í skyn að hann (og óskilgreindur hópur manna) hefðu mótmælin í höndum sér en þá næstu að um væri að ræða næsta stjórnlausan múg sem hann hefði ekkert með að gera.

Nú hefur haninn galað tvisvar í viðbót og Sturla er búinn að afneita sínum mönnum oftar en þrisvar. Hann afneitaði múgnum við Rauðavatn örfáum klukkustundum eftir að hafa sést eggja hann áfram til uppþota. Og í dag afneitaði hann síðan manninum sem stendur við hlið hans á þessari mynd, manni sem hefur ítrekað kallað sig einn af talsmönnum bílstjóranna, mótmælalaust af hálfu Sturlu.


Við höfum horft á Sturlu mótast eins og deigan leir undir 200 W hitaperu síðustu daga. Málflutningurinn hefur vissulega skerpst og snurfustast og það væri ósanngjarnt að neita því að hann hefur komið miklu betur fyrir í viðtölum upp á síðkastið en áður. Gallinn er að hann er orðinn að alþýðuhetju þeirrar alþýðu sem telur Útvarp Sögu síasta afdrep þjóðarsálarinnar og Frjálslynda flokkinn síðasta pólitíska vígið. Hann gerir með öðrum orðum út á heimsku, ringlandi og tilfinningaheift.

Vandinn er sá að sá hópur ofbeldisseggja sem snérist á sveif með bílstjórunum í upphafi er að losa takið á gunnfánanum og seilast í atgeirinn. Fyrir geirnum verða saklausir. Í augnablikinu hef ég mestar áhyggjur af mannræflinum sem kýldi lögguna í dag. Vafalaust hefur löggan gaukað að honum einhverri andstyggilegri athugasemd þótt það skipti engu máli. Það sem skiptir máli er að Sturla er búinn að afneita honum, búið er að gera lítið úr honum (með því að segja að hann keyri ekki vörubíl heldur hafi í mesta falli keyrt smásenditík) og nú lætur hluti múgsins reiði sína beinast að honum. Það er leitun að meira einmana manni á Íslandi í dag. Við vitum að hann er óstöðugur. Þetta er hættuleg blanda.

Nú þarf að stoppa áður en eitthvað slæmt gerist. Bílstjórarnir þurfa að sýna bræðralag í verki og rækta göfgina sem augljóslega blundar undir öllum látunum. Sturla þarf að hætta að skammast og rífast og afsaka sig með því að hann hafi ekki haft tíma eða vilja til að kynna sér mál. Hann þarf einmitt að þegja núna og kynna sér málin.

Það sem bílstjórarnir hafa verið að biðja um allan tímann eru mótvægisaðgerðir. Mótvægisaðgerðir gegn lækkuðu gengi og hækkandi olíu. Fyrir slíkum aðgerðum eru engin skynsamleg rök.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta skýrir ýmislegt
http://www.b2.is/?sida=tengill&id=282278

:) Ekkert skrýtið að maðurinn sé svona, eftir þessa reynslu :)

kv, Bóla