25. apríl 2008

Þá er það orðið ljóst


Sturla Jónsson hefur soðið saman kröfugerð bílstjóra og birt á moggabloggi sínu.

Þar er margt æði einkennilega hugsað og sumt gegnsósa af einhverju öðru en sannleiksástinni.

Sturla segir:

Vetrarfærð getur orðið til þess að vörubílstjóri þarf að taka hvíldartímann t.d. á Holtavörðuheiði og getur átt á hættu að lokast þar inni í snjóum, því hann er neyddur til að taka hvíldina á háheiðinni!


Þetta er lygi.

Hvíldarreglunum fylgir skýrt ákvæði um undanþágu þegar nauðsyn krefur. Enginn bílstjóri mun nokkru sinni lenda í háska þeirra vegna.

Sturla segir líka:

Hraðbrautir sem þessar eru ekki til á Íslandi heldur eru þjóðvegirnir örmjóir, hlykkjóttir og hættulegir og ekki hægt að fara hratt yfir. Fyrir bragðið getur ferðalag, t.d. milli Reykjavíkur og Akureyrar tekið meira en 9 klst.


Það er óefað að hægt er að lenda í því að vera meira en 9 klst. á milli A og R. Á því taka undanþágur reglnanna. Reglurnar eiga síðan við um allan almennan akstur. Í einhverju öðru en öskrandi þæfingi og vetrarfærð væri það töluvert afrek að brenna inni á þessari leið. Þótt þú ækir á 50 km. hraða alla leið og stoppaðir í 45 mínútur í Hrútafirði þá hefðir þú samt tæpan einn og hálfan tíma aflögu þegar þú kæmir á leiðarenda.

Engin stétt á Íslandi býr við þessi ströngu vinnutímaskilyrði, ekki alþingismenn, leigubílstjórar, iðnaðarmenn, verslunarmenn, læknar. Enginn!


Auðvitað býr engin stétt á Íslandi við nákvæmlega þessi vinnutímaskilyrði. Vinnutíma allra stétta eru þó settar skorður m.a. í kjarasamningum. Vilji skólastjóri t.d. kenna meira en honum er heimilt þarf hann að sækja sérstaklega um undanþágu til þess. Fái hann hana ekki er honum það ekki heimilt.

Hinar miklu hömlur á bílstjóra eru þó ekki meiri en svo að ef við áætlum klukkutíma í að ferma og afferma á dag þá er vinnuvika þeirra 50 tímar. Sem er innan nákvæmlega sömu skorða og allar stéttir á Íslandi vinna við.

Að auki sinnir Vegagerð ríkisins ofureftirliti með því að eftir þessum vinnutímareglum sé farið og þeir eru sektaðir sem hinir verstu afbrotamenn sem fara ekki eftir reglunum, auk þess sem þeir fá punkta í ökuferilskrár sínar.


Ofureftirlitið er nákvæmlega hliðstætt öllu opinberu eftirliti með störfum manna. Heilbrigðiseftirlitið og vinnueftirlitið stundar nákvæmlega eins ofureftirlit.

Það þekkja það allir bílstjórar að ofureftirlit á við um alla sem aka á vegunum. Það eru allir sektaðir sem gripnir eru við að keyra of hratt eða leggja ólöglega.

Auk skatta og gjalda sem eru í olíuverði greiða vörubílstjórar þungaskatt, kr. 13,95 fyrir hvern ekinn km. Fyrirhugað er að setja á þessar bifreiðar svokallað umhverfisgjald, 20 kr/km og er því harðlega mótmælt. Miðað við þyngd menga þessir bílar minna en minnstu fólksbílar.


Þungaskatturinn er síst óeðlilegur þegar haft er í huga að samt sem áður borga smábílaeigendurnir niður vegagerðargjöldin fyrir stóru bílana.

Það, að stórir bílar eigi að vera undanþegnir umhverfisgjaldi þar sem þeir mengi minna en fólksbílar, miðað við þyngd, er einkennileg hugsun.

Hugsum okkur akfeita manneskju sem ætlar í flugferð. Henni er gert að borga fyrir tvö sæti enda rúmast hún með engu móti í einu. Hún fer að mótmæla því að þurfa að borga aukalega. Raunar ætti hún að fá afslátt. Miðað við þyngd nýti hún nefnilega sætin betur en horrenglurnar, sem taka bara eitt sæti.

Væri heil brú í því að feitt fólk krefðist þess að fá ódýrari flugsæti en grannt með þeim rökum að feita fólkið flytji þungann í hagkvæmari og minni einingum?

Sturla segir líka:

Áður en gengi krónunnar féll var eldsneytisverð hæst hérlendis auk þess sem almenn laun eru talsvert hærri þar en hér.


Miklar sveiflur á gengi gera allan samjöfnuð ómarktækan. Verðið þar var lægra, nú er það hærra. Að meðaltali er það því líklega dálítið svipað.

Hvað launin varðar á ég erfitt með að kyngja því sem hann segir. Nú hef ég leitað töluvert að slíkum samanburði. Allt sem ég finn bendir til þess að meðalráðstöfunartekjur séu mjög svipaðar á Íslandi og á Norðurlöndunum. Hærri hér en í Svíþjóð en lægri en í Noregi.

Munurinn á lífskjörum felist fyrst og fremst í því að á bak við hverja krónu liggja fleiri mínútur hér en þar. Við vinnum með öðrum orðum allt of mikið og virðum ekki hvíldartímann. Framleiðnin er því lítil og tímakaupið lágt.

Það er einfaldlega svo að þegar fólk er tilbúið að vinna sífellt fleiri tíma í vikunni, þá gerist tvennt: fólk afkastar minna á hverja tímaeiningu og sættir sig um leið við lægra tímakaup.

Fullyrðingar um að laun Íslendinga séu svo lág miðað við samanburðarhópana virðast vera ýkjur. Fyrir tveimur árum voru ráðstöfunartekjurnar svo til þær sömu. Og síðan þá hefur verið hér gegndarlaus þensla. Hvernig á að hafa dregið svona skarpt í sundur með okkur í þenslunni er mér fyrirmunað að skilja.
Vöruflutningar fara eingöngu fram með bifreiðum hérlendis en ekki með járnbrautarlestum eða skipum eins og víðast annars staðar. Íbúar Norðurlanda eiga val; þeir geta kosið að ferðast með almenningsfarartækjum, strætisvögnum eða járnbrautum, og komist fljótt og auðveldlega leiðar sinnar en slíkt val er ekki fyrir hendi hér.


Og hvernig stendur nú á því að við eigum ekki lengur val um að láta sigla með vörurnar? Það var vegna þess að aksturinn varð arðbærari fyrir flutningafyrirtækin. Fákeppnin er auðvitað til marks um óheilbrigt samkeppnisumhverfi og óeðlilega hagstæð skilyrði fyrir bílstjóra. Skilyrðin eru þá um leið óeðlilega óhagstæð fyrir neytandann. Samkeppni við endalausan trukkaakstur hlýtur að vera á næsta leiti öllum til hagsbóta nema bílstjórum.

Nýjar reglur um endurnýjun meiraprófsökuskírteina hafa verið kynntar. Þær fela í sér að meirapróf þarf að endurnýja á fimm ára fresti í stað tíu ára og umsækjandi þarf að sitja 35 klst. námskeið og missa þar af leiðandi úr vinnu, auk þess kostar það 70 þúsund kr. á mann að sitja þetta námskeið.


Námskeiðið er 35 klst. Samkvæmt Sturlu merkir það að menn hljóti að missa úr vinnu. Það er skrítið.

Fari bílstjóri eftir reglum um hvíldartíma er ekkert mál að koma 35 tíma námskeiði fyrir utan vinnutíma, tali ekki um ef það er bara á fimm ára fresti. Bílstjóri sem vinnur 50 tíma á viku, sefur 8 tíma á nóttu, og eyðir 2 tímum á dag við matarborðið, auk klukkustundar í að horfa á fréttir eða lesa fyrir börnin sín á samt eftir meira en 40 klst. til annarra verka.

Þessar 70 þúsund krónur jafngilda því sem Sturla sagði sjálfur að væri olíukostnaður fyrir sig einn og hálfan vinnudag. Að borga það á fimm ára fresti jafnast á við 0,1% skatt á olíuna.

Engin ummæli: