28. mars 2008
Trukkamótmæli
Þeir voru glaðhlakkalegir trukkabílstjórarnir sem trufluðu umferðina í dag og lofuðu að mæta aftur á morgun og hinn og svo lengi sem þyrfti til að fá sínu fram.
Svo virðist sem það sem þeir vilja fá fram sé lægri skattur á eldsneyti og rýmri reglur um akstur (væntanlega m.t.t. hvíldartíma og þvíumlíks).
Mótmælin fjalla fjölda fólks í geð. Fyrst og fremst vegna þess að þau eru róttæk, ekki vegna þess að ranglætið sé svo mikið. Ég held að fæstir vilji raunar rýmri reglur um rekstur atvinnubíla og satt að segja er mjög æskilegt að fá þungaflutningana burt af þjóðvegunum og í strandflutninga aftur þar sem við á. Þá getur ekki verið annað en æskilegt að minnka umferð á höfuðborgarsvæðinu. Ein aðferð er vegtollur, önnur er hátt bensínverð. Það er heilmikið rými fyrir hagræðingu í akstri landsmanna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
Hátt eldsneytisverð bitnar ekki á bílstjórum í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Það bitnar á viðskiptavininum. Það bitnar á kaupendum vöru á landsbyggðinni og úthverfafólki með djammþörf. Strangar reglur um vinnutíma bílstjóra bitna ekki heldur á bílstjórunum, þvert á móti auka þær öryggi þeirra og þótt vissulega fylgi þeim óþægindi þá er fyrst og fremst um að ræða aukakostnað, sem – enn og aftur – kemur úr vasa kúnnans.
Annað hvort eru bílstjórarnir að mótmæla vegna þess að þeir kunna ekki við að hækka verð þjónustu sinnar eða vegna þess að þeir vilja meiri hagnað. Hvort skyldi nú vera líklegra?
Hefðu bílstjórarnir snefil af sómatilfinningu og stjórn á niðurrifsöflunum innan hópsins hefði þeim aldrei dottið í hug að stöðva umferð almennings um stofnæðar og á leið til Keflavíkur. Það má ekki fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Þeir stöðvuðu fólk á leið í flug og fólk á leið á sjúkrahús.
Viðhlæjendur þeirra skilja fæstir kröfurnar enda hafa bílstjórarnir engan veginn staðið sig í að kynna þær. Þeir vita enda lítið annað en það að þeir eru fúlir og að með samstöðu er hægt að hafa dálítið fútt útúr þessu.
Því miður hefur nokkuð stór hópur fólks einstakt yndi af mótmælum. Þetta yndi er ógeðfelldur velmegunarsjúkdómur. Þau mótmæli sem þetta fólk miðar öll mótmæli við eru sprottin upp úr kúgun og örvæntingu. Mótmæli eru lokaúrræði þess undirokaða en fyrsta útrræði lýðskrumarans. Mótmæli sem drifin eru áfram af sömu tilfinningum og grípa menn á kappleikjum eru viðbjóðsleg skrílslæti og gera lítið úr raunverulegum mótmælum undirokaðs fólks.
Bílstjórar hafa allar sömu leiðir til áhrifa og aðrir þegnar þessa lands. Þeir hafa ekki einu sinni reynt þær. Það veit enginn hverjar kröfur þeirra eru í raun og veru, þær skipta enda ekki meginmáli. Þeir láta eins og þeir séu pasturslitlir smábændur sem fái ekki svör við bænaskrá frá kónginum.
Það á alls ekki að láta undan því ofbeldi sem bílstjórarnir beita. Þeir eru ekki kúgaðir. Örvænting þeirra sprettur af þeirra eigin getuleysi. Ákefðin sprettur af ómerkilegum átakavilja. Bílstjórar í þungaflutningum borga hlutfallslega miklu minni opinber gjöld en aðrir ef miðað er við kostnaðinn sem þeir hafa í för með sér. Þeir menga, þeir valda slysum og auka almennt slysahættu.
Glottandi tilkynntu bílstjórarnir að enginn gæti örvænt vegna aðgerðanna, slökkviliðið gæti keyrt á gangstéttum í útköll og fólk gæti farið með þyrlu á sjúkrahús. Á móti má benda á að ef olían er orðin svona óskaplega dýr þá er hægt að flytja stóran hluta farmanna með skipi út á land. Það þarf ekki olíusvelgi sem rústa vegakerfið til að fara með heimabíó og frosin matvælin út á land.
Þegar menn mótmæla og hafa áhrif á fjölda fólks verða mótmælin að beinast að einhverju ranglæti. Það væri fráleitt ef tæknimenn hjá Símanum klipptu á netið hjá stórum hluta landsmanna ítrekað til að mótmæla tilfinnanlegum skorti á eigin kvenhylli. Mótmæli bílstjóranna eiga þó meira skylt við svoleiðis fíflarí en nokkra raunverulega hugsjónabaráttu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Voðalega er þetta slappt. Nennir enginn að rífast við þig? Eru vörubílstjórar ekkert á netinu?
Skrifa ummæli