Það kemur berlengar í ljós með hverjum deginum sem líður hve trukkamótmælin voru ómarkviss. Þau snúast um um það að trukkarar og leigubílstjórar eru á leiðinni á hausinn og ekkert annað. Í því felst ekkert ranglæti og olíuverðið er ekki nema örlítill angi af risastóru dæmi. Þetta risastóra dæmi hefur vofað yfir mótmælunum frá fyrsta degi og slegið móðu á allan málflutninginn. Enda er hæpið að tala um málflutning. Orðið „mótmæli“ vísar til máls, einhverrar fullyrðingar eða hugsunar sem verið er að koma á framfæri. Trukkararnir hafa drekkt öllu máli í olíueyðandi bauli bílflautanna. Geri fréttamaður sig líklegan til að inna bílstjóra eftir ástæðum og kröfugerð kemur flóttasvipur á andlit þess síðarnefnda sem þrykkir lófanum umsvifalítið á flautuna svo fréttamaðurinn má hopa undan. Undantekning frá því er svonefndur talsmaður mótmælenda sem ýmist segist enga stjórn hafa á bílstjórunum eða heitir samstilltum aðgerðum; segir að olíuálögur í öðrum löndum komi málinu ekki við og bendir í næstu andrá á hve ódýr sopinn er í BNA. Maðurinn sem síðustu daga hefur æ oftar ýjað að því að þetta snúist ekki síst um afnám hvíldarreglna, sem eigi ekki við á Íslandi.
Krafan um afnám hvíldarreglna er ekkert annað en illa dulbúin og ábyrgðarlaus græðgi. Bílstjóri má keyra 9 tíma á dag og þarf ekki annað en að taka sér samtals 45 mínútna hvíld frá akstri. Stundum má hann keyra 10 tíma á dag. Þá má bílstjórinn ekki vinna nema rúmlega 5 vinnudaga í viku við akstur.
Hverjum dettur í hug að halda því fram að íslenskar aðstæður ógildi hvíldarreglur EES? Hver er landafræðiþekking þess sem ber aðstæðurnar saman og ályktar Íslandi í óhag? Líklega eru ekki margar akstursleiðir íslenskar lengri en á milli Ísafjarðar og Hafnar í Hornafirði. Sú leið er samt tæplega fjórum sinnum styttri en leiðin milli Aþenu og Amsterdam.
Íslenskir atvinnubílstjórar eru, auk fasteignasala og bankamanna, sú stétt sem fær harðast að finna fyrir kreppunni. Þeir keyptu bílana á myntkörfulánum miðað við umsvif í trylltri uppsveiflu og gengi sem ekki er lengur til – og þeir knýja þá með olíu sem um allan heim fer síhækkandi.
Ástandið ætti sér fullkomna hliðstæðu í því ef Remax-herinn læsti fólk inni á heimilum sínum ítrekað og neitaði að hætta nema ríkið myndi afnema stimpilgjöld og lækka vexti íbúðalánasjóðs.
Mótmæli trukkaranna eru ekkert annað en lágkúrulegt ofbeldi, örvæntingafullrar stéttar sem orðin er allt of stór og hefur lifað um efni fram. Og þeir reiðast. Og saklausir verða fyrir barðinu á reiðinni eins og jafnan þegar illa gert fólk reiðist.
Stundum er grínast með það að kynfæri ökumanna stórra bíla séu í visnara lagi. Og stundum er líka sagt að heilinn sé stærsta kynfærið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli