9. júlí 2012

Börn og pex

Kennari við minn gamla menntaskóla skrifar grein sem flýgur vængjum þöndum um netheima þessa dagana. Greinin er hér.

Kjarni greinarinnar er þessi: Börn sem horfa of mikið á sjónvarp eða nota tölvur og síma fara á mis við mikilvægustu uppeldisþættina (t.d. skynsemi, samskipti, frumkvæði, málvitund og samlíðan).

Auðvitað eru allar öfgar slæmar og ekkert óhóf er gott. Hinsvegar er ágætt að staldra við þegar maður er, eins og þessi ágæti kennari, farinn að hafa áhyggjur af auðveldu aðgengi barna sem verða fyrir tækniskömmtun heima að tækjum hjá vinum og bekkjarfélögum.

Því miður er það svo að það hugarfar sem er til grundvallar greininni er bæði rangt, ófrumlegt og gamaldags.

Netið á Íslandi er ekki nema álíka gamalt og sæmilega stálpaður táningur. Fyrstu árin var netið hægvirkt og ægilega dýrt. Það þurfti að hringja í netþjónustuna úr heimasíma (stundum milli landssvæða sem kostaði enn meira). Á þeim tímum var nauðsynlegt að skammta netnotkun. Bæði vegna kostnaðar og þess, að meðan maður var á netinu var heimasíminn á tali og farsímar enn ekki í almennri notkun.

Það má líkja þessu við árdaga útvarpsins, þegar kaupa þurfti rafhlöður og lampa fyrir stórfé – sem varð til þess að fólk safnaðist saman fyrir framan viðtækin og hlustaði þegjandi á tiltekna þætti og gætti þess að slökkva sem allra fyrst aftur.

Smám saman losaði tækniþróun okkur undan þeim hömlum sem fylgdu frumdögum útvarpsins. Þar kom að ekki aðeins var hægt að láta útvarpstæki ganga dag og nótt án þess að hafa tiltakanlegar áhyggjur af kostnaði og endingu, heldur gat hver fjölskyldumeðlimur jafnvel haft aðgang að sínu einkatæki, hvort sem um var að ræða útvarp, segulband eða plötuspilara. Vissulega tapaðist við það notalega kósístemmningin sem fylgt hafði hörgulhlustuninni og viðhorf þeirra eldri sem þurftu að horfa upp á ungdóminn hverfa inn í ógeðfelldan tónlistarheim ungdómsins kemur skýrt fram í neikvæðu tuðorði sem notað var um þennan snara þátt í sjálfsmynd unglinga: síbylja.

Raunar má finna ótal pexgreinar í blöðum frá fyrri áratugum sem efnislega og hugmyndalega eru samkynja greininni um börnið og kexið.


Hér má sjá tuðgrein úr Helgarpóstinum frá árinu 1988 þar sem talað er nokkuð háðulega um stelpur sem ákváðu að leika sér og hafa það „næs“ í skíðabrekkum um páskana í stað þess að „hafa trúarlegt innihald páskanna í hávegum, sækja kirkju og rækta fjölskylduna í samræmi við það.“ Á þessum tíma var hin veraldlega páskahátíð á frumstigum, fólk fór í utanlandsferðir og hafði það gott en þjóðarsálin var þjökuð af samviskubiti yfir því að skemmta sér þegar hún ætti að vera uppfull af trúarlegri andakt. Einhverjir sátu bara heima og horfðu á sjónvarp eða hlustuðu á útvarp. Í greininni er það afgreitt þannig: „Ekki er útilokað að síbylja eða sápulöður hinnar frjálsu fjölmiðlunar bjargi einhverjum frá þessu árvissa páskaþunglyndi.“

Um svipað leyti og þjóðin fór í kaupstað og keypti rándýrar rafhlöður í útvarpstækin var bókaeign að verða almenn. Frændi minn, sem ég hef áður talað aðeins um hérna, fæddist mjög líkamlega fatlaður en var kennt að lesa. Hann var næstum alveg blindur en ef hann sat úti í glugga með nefbroddinn ofan í bókinni gat hann lesið venjulegar bækur sem barn. Um tíu ára aldur var hann búinn með allan bókakost heimilisins hvort sem um var að ræða Dickens eða Biblíuna. Og þá las hann bara allt dótið aftur. Þessi lestrarárátta fór í taugarnar á samferðamönnunum sem álitu það hina mestu hind að erfiða úti á túni meðan birtu naut. Hann var meira að segja flengdur í þeirri von að rofaði til í kollinum á honum. 

Bækur voru ekki einkafyrirbæri á Íslandi fyrr en nokkuð nýlega. Þær fáu bækur sem til voru varðveitti húsbóndinn og skammtaði hinum af í kvöldlestrum. Sú hugmynd að börn hefðu óheftan aðgang að bókum þótti fráleit. Og þetta mikla aðgengi eyðilagði vafalaust samverustundina sem kvöldvakan var. Jafnvel í dag liggja hjón í einni sæng og yrða ekki hvort á annað en eru niðursokkin hvort í sína bók. Nokkuð sem auðvelt er að álykta sem svo að sé hnignunarmerki ef miðað er við kvöldvökur. 

Eins og með tónlistina kom að því að framleiddar voru bækur sérstaklega með börn í huga. Þær fóru í taugarnar á mörgum – sérstaklega svokallaðar teiknimyndasögur. Unglingabókmenntir blossuðu upp og reyndust sumar vera argasta klám. Ég veit ekki hvort menn hafi haldið uppi massívum vörnum eða reynt mikið að skammta bækur ofan í ungdóminn – en allar slíkar tilraunir voru dæmdar til að mistakast.

Þess má geta að frændi minn varð ekki ónýtari en svo af þessum bóklestri öllum að hann varð sá fyrsti í minni fjölskyldu til að ljúka háskólaprófi í háa herrans tíð. Og mér mikilvæg fyrirmynd að því leyti þegar kom að því sama nokkrum áratugum seinna. Í minni ætt var hin mesta dygð að vera heiðarlegur og dugandi – og vinna.

Ég þekki engan ungling sem misnotar frelsi sitt til lestrar eða hlustunar á tónlist. Heimurinn hefur einfaldlega lagað sig að þessum nýju möguleikum og börn sem alast upp við frelsið verða að mönnum alveg eins og allir aðrir. Það er frekar að börn séu hvatt til þess að nýta sér miðlana því þeir reynast hafa margvíslegan ávinning – sem íhaldskólfar fyrri ára áttuðu sig ekki á.

Heimurinn er nú fyrir nokkru kominn á þann stað að við höfum aðgang að samskiptaneti allan sólarhringinn. Börnum og unglingum verður ekki haldið frá þessum veruleika, sama hvað þeir eldri reyna. Það er sömuleiðis fráleitt að halda að þessi nýja tækni muni skaða mannlífið verulega, hvað þá ónýta samskiptahæfni, málvitund og skynsemi. 

Við erum stödd í miðju breytingarferli. Notkun tækninnar er enn að mótast af möguleikunum og er sumpart dálítið einhæf ennþá. Það mun lagast með áframhaldandi notkun. Það sem er algjörlega á tæru er að allir bardagar sem hafa það að markmiði að „skammta“ tæknina eru dæmdir til að tapast og óþarfir.

Við höfum séð þetta sjálf í Norðlingaskóla. Við höfum notað tölvur mikið árum saman. Nemendur hafa ýmist getað unnið í þeim heima, fengið tölvur í skólanum eða, nú nýlega, fengið spjaldtölvur frá skólanum til afnota heima og í skóla. Það er greinilegur munur á nemendum sem hafa spjaldtölvur til afnota allan daginn og þeim sem þurfa að panta tölvur. Það er viðvarandi vandamál hjá þeim sem búa við tölvuskömmtun að þeir reyna að hanga í tölvunum heilu dagana. Vinna jafnvel hægt eða alls ekki til að geta pantað tölvu í næstu vinnulotu líka. Þeir sem hafa spjaldtölvur til afnota allan daginn eiga ekki í neinum vandræðum, almennt og yfirleitt, með að leggja þær frá sér og gera eitthvað annað. Nemendurnir eru löngu hættir að mikla fyrir sér tæknina og taka henni sem sjálfsögðum hlut – og því fylgir að þeir fá leið á henni. Síðast þegar ég þurfti að hafa afskipti af nemanda sem var í spjaldtölvu þegar hann átti að vera að gera annað kom í ljós að nemandinn var að lesa bók af skjánum og gat ekki hætt.

Eins er það með feisbúkk og annað sem „glepur.“ Þeir nemendur sem „alist“ hafa upp við að það sé sjálfsagt að nota tæknina (þ.m.t. feisbúkk) og þeir hvattir til þess uppgötva furðu fljótt að aðdráttarafl þess er ofmetið og hætta að hanga þar inni. 

Það kemur ekki annað til greina en að viðurkenna að tæknin er komin til að vera. Og hún er í fullri notkun. Foreldrar sem ætla að líta á tæknina sem vandamál og miðla því hugarfari til barna sinna eru að gera mistök. Þeir eiga að líta á tæknina sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut, hafa temmilegan áhuga á rafrænum áhugamálum barna sinna en gefa þeim persónulegt svigrúm – og fyrst og fremst – halda áfram að bjóða upp á samveru og aðra valkosti. Barn sem ekki upplifir pressu á tölvunotkun sinni fagnar tækifæri til að spila eða föndra eða gera eitthvað annað skemmtilegt.

Að lokum: börn eru ekki fávís þótt þau séu ekki með „frasa“ á hreinu sem við hin ólumst upp við. Þau eru hafsjór af fróðleik. Sá fróðleikur er bara barna- og unglingamiðaður í mörgum tilfellum. En þetta er gjald þess að umbera sjálfstæða tilvist barna- og unglingamenningar. Við hin eldri þurfum að sætta okkur við það að þeir yngri nemi annað en við. Og það er sömuleiðis þvæla að ungdómurinn í dag sé illa læs. Hann er öðruvísi læs. Það má vissulega efla hefðbundið læsi sem er alls ekki nógu gott. Það verður best gert með betri nýtingu tækninnar. En börnin í dag eru læs á ýmislegt sem við erum algjörlega ólæs á. Fljótaskrift netsins hefur breytt ritun og lestri. Þá hefur bæst ný vídd við textann með nýtingu mynda, allt frá brosköllum til hreyfanlegra gif-mynda. Allt kallar þetta á læsi og ritunarhæfni sem á tíðum er frábærlega hugmyndarík.

8 ummæli:

Véfrétt sagði...

Takk innilega fyrir að skrifa þennan pistil, svo að ég geti sparað mér ómakið :-)

Nafnlaus sagði...

*hóst*

Þróun er ekki það sama og þróun.

Tækniöldin - þessi sem er á aldur við meðaltáning - hefur svo sannarlega haft neikvæð áhrif á menningu og anda.

Því þarf að grípa í taumana áður en lengra er haldið.

8 ára eða 9 ára börn hafa ekkert með ótakmarkað, eftirlitslaust frelsi að gera - fyrir nú utan það að slíkt er ólöglegt í nágrannalöndum okkar (Í UK er bannað með lögum að börn yngri en 14 ára dvelji ein heima við).

Enginn er að mótmæla eða andmæla tækninni - en umgengnin um hana einkennir visst þekkingarleysi og kæruleysi sem er ekki af hinu góða.

Enginn er að segja að börnin okkar séu fávís heldur - en það er svo sannarlega rétt að með aukinni tölvufíkn barna og unglinga hefur dregið úr félagsfærni og þættir eins og einangrun og sérhlífni sjást æ víðar.

Börn forðast samskipti við jafnaldra og finnst of erfitt að stunda tómstundir eða að fara út í leiki, unglingar forðast að vinna, fólk í háskóla lærir ekki fyrir próf, veikindadagar eru leystir út til að "lana", spila póker og horfa á eitthvað í sjónvarpinu.

Það þarf að kenna börnunum okkar góða umgengni - á öllum sviðum, líka tæknisviðinu.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus: Ég leyfi mér að fullyrða á móti að börn forðist ekki samskipti við jafnaldra, finnist sjaldan erfitt að stunda tómstundir eða fara út í leiki, unglingar sækist eftir að komast í vinnu, fólk í háskóla læri almennt vel og lengi fyrir próf og veikindadagar séu oftast nýttir í veikindi. Hugsanlega er einhver skekkja á úrtakinu hjá þér.

Þar fyrir utan þá hefur það að "lana", spila póker og horfa á sjónvarpið ekkert með netið að gera, þessa umræddu tækni á táningsaldri :)

Baldur sagði...

Eins og uppleggið er í þessum pistli þá er höfundur greinarinnar "börn og kex" að mótmæla tækniþróun og pistillinn í rauninni ágætis andsvar við pexi eldri kynslóða sem finnst heimur fara versnandi.

Ég get hins vegar engan veginn séð að það hafi verið tilgangur greinarinnar - höfundur segir sjálfur að það sé hægt að gera margt frábært með tækninni og læra ýmislegt á netinu. Hann er fyrst og fremst að hvetja foreldra til að gera skemmtilega hluti með börnunum sínum og ýta þeim út í eitthvað heilbrigt frekar en að láta þau sitja sjálfala fyrir framan sjónvarp og tölvur. Þetta á við núna alveg eins og fyrir 20 árum, en það er ágætt að minna á það og uppfæra boðskapinn í takt við tækniþróunina.

Ásgeir H Ingólfsson sagði...

Nafnlaus segir "Í UK er bannað með lögum að börn yngri en 14 ára dvelji ein heima við" - ekki ertu að benda á það sem dæmi um jákvæða reglugerð? Mér finnst hún eiginlega frekar skelfileg - og alveg örugglega ekki til þess að auka sjálfstæði, frumkvæði eða þroska breskra ungmenna.

Bárður Jökull Bjarkarson sagði...

@Nafnlaus 9.júlí 14:40
Þú skrifar:
"8 ára eða 9 ára börn hafa ekkert með ótakmarkað, eftirlitslaust frelsi að gera - fyrir nú utan það að slíkt er ólöglegt í nágrannalöndum okkar (Í UK er bannað með lögum að börn yngri en 14 ára dvelji ein heima við). "
Höfundur skrifaði:
"Þeir eiga að líta á tæknina sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut, hafa temmilegan áhuga á rafrænum áhugamálum barna sinna en gefa þeim persónulegt svigrúm – og fyrst og fremst – halda áfram að bjóða upp á samveru og aðra valkosti."
Dálítið persónulekt svigrúm með áhuga og eftirliti foreldra á rafrænum áhugamálum barna þýðir (að minnsta kosti ekki í minni bók) það sama og ótakmarkað, eftirlitslaust frelsi. Það var enginn að tala um það.

Þú skrifar:
"Enginn er að segja að börnin okkar séu fávís heldur"
Höfundur upprunalegu greinarinnar (Börn og Kex) skrifaði:
"Margir af þessum krökkum er fá-vísir."

Það er mikið ósamræmi á milli umræddra greina og athugasemdar þinnar, auk þess að þú kemur með mikið af staðhæfingum án þess að hafa rök þar á bakvið.

hæma bídjei sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Hildigunnur sagði...

Þessir unglingar sem höfundur kexpistilsins talar um, þau sem kunna ekki að segja takk fyrir matinn og ráða ekki við almenn samskipti hafa bókað verið afskipt á annan hátt en bara að þau hafi fengið að „hanga of mikið í tölvunni“. Hljómar eins og við þau hafi aldrei verið talað og að þau hafi aldrei borðað með foreldrum sínum. Ég efast ekkert um að svona unglingar séu til (og hef sérstaklega heyrt hryllingssögur um slíka krakka frá Bretlandi hverju sem er um að kenna) en það er talsverð einföldun að kenna tölvum og tækni um slíkt ástand.