6. nóvember 2010

Þess vegna áttu að kjósa 4657



Ég hef verið að róta gegnum framboð til stjórnlagaþings. Ég veit nú þegar af fimm frambjóðendum sem ég ætla að styðja með atkvæði mínu og er mjög opinn fyrir hugmyndum um fleiri ef einhver vill gauka að mér. Það eru frambjóðendurnir 2303, 3568, 9948, 3194 og 4657.

Ég kýs þetta fólk af því það er bæði greint og gott. Og á endanum er það lokaprófið sem ég myndi láta þá frambjóðendur gangast undir sem ég gæti hugsað mér að styðja. En ég kýs það líka út af öðru. Í þessum fimm manneskjum er samankomin gríðarlega mikil ólík reynsla. Og þetta fólk býr allt yfir mjög ólíkum hugsunarhætti. Nöfn þessa fólks eru:

Freyja Haraldsdóttir, Smári McCarthy, Illugi Jökulsson, Mike Karlsson og Reynir Antonsson.

Freyja hefur svotil ein síns liðs brotið niður múra sem annars hefði tekið óratíma að láta molna til sjávar, Smári er í fararbroddi þeirra sem berjast fyrir nútímalegu og réttlátu samfélagi, Illugi stendur fyrir þræði í persónuleika þjóðarsálarinnar sem mér finnst skipta öllu máli að komi fram í stjórnarskrá og Mike er heimspekingurinn sem getur lagt fram stefnu þegar sjókortin vantar, getur haldið umræðnum gagnrýnum og markvissum og á auðveldara með að nota flókin hugtök en Bubbi Morthens gítar. Reynir er frændi minn.

Sá munur er á 4657 og hinum frambjóðendunum að hann er ekki opinber persóna. Hann mun því augljóslega ekki fá mikla kynningu. Mig langar því að benda þér á hann og þætti vænt um ef þú tækir þér nokkrar mínútur í að hlusta á rökstuðning minn fyrir valinu.

Reynir er fæddur seinni part vetrar 1948 og bjó fyrstu árin í torfbæ. Eitthvað fór úrskeiðis í fæðingunni og hann missti sjón á öðru auga (sem síðar var fjarlægt og sett annað úr postulíni í staðinn) og nær alla sjón á hinu. Hann var því blint barn í því nítjándualdarsamfélagi sem enn var við lýði austur í Héraðsflóa við styrjaldarlok. Hann var ónýtur til erfiðisvinnu og kaus helst að sitja við stóran glugga og stauta sig í gegnum bækur. Ef hann hélt bókunum alveg upp að nefbroddinum gat hann greint stafina í góðri birtu. Með þessum hætti las hann Íslendingasögurnar, Dickens og raunar allt sem hann komst í.

Þegar hann komst á unglingsár fékk hann að vita hvað samfélagið ætlaðist til með hans líka. Hann var sendur til Reykjavíkur til að eyða ævinni á blindraheimili. Hann átti að vinna fyrir mat sínum með því að starfa í burstagerð. Það eina sem fólkið á þessu heimili átti sameiginlegt var fötlununin.

Eitthvað hafði samt kviknað innra með Reyni sem olli því að honum þóttu þessi örlög óásættanleg. Hann ætlaði ekki að eyða ævinni í þessu hólfi sem honum hafði verið úthlutað í húsi í Reykjavík og daga uppi eins og sumt af þessu gamla fólki sem nú var orðið sambýlingar hans. Og hann átti aðeins eina leið út. Hann beit það í sig að hann yrði að mennta sig.

Hann ákvað að taka landspróf og fá sér aðra vinnu. Hann varð sendill hjá Mogganum til að framfleyta sér meðan hann væri að klára prófið. Sjálfkrafa var hann settur í bekk með tossunum en eftir að hafa komið kennaranum og bekknum rækilega á óvart með frammistöðu sinni í tímum var hann snarlega fluttur upp í bekk til þeirra barna sem áttu sér einhverja framtíð í námi.

Á þessum tíma þróaði hann með sér ótrúlegt minni. Hann saug í sig staðreyndir og viðburði eins og steinsuga hreinsar fiskabúr. Hann sá enda ekkert á töfluna í kennslustundum en þar héldu kennarar sig og þurfti helst eldgos, jarðskjálfta eða andlát í bekkum til að toga þá þaðan. Taflan var þeirra hásæti og án hennar varð Reynir að vera. En hann mundi líka allt og lauk landsprófi og komst inn í menntaskóla.

Hann byrjaði í MA og varð stúdent þaðan 1968. Á útskriftarmyndinni leynir hann sér ekki. Hann er helmingi léttari en allir samstúdentar hans, situr á jörðinni fremst á myndinni, pervisinn, lítill og með gríðarstór gleraugu. Og kannski ekki skrítið hann hafi ekki þrifist vel því hann þurfti á hverjum morgni að ganga margra kílómetra leið í skólann, framhjá fjárhúsum og vaða snjódjúpar brekkur og skorninga. Og aftur heim seinnipartinn.

Meðan hann var í Menntaskólanum gáfu skólasystkini hans honum gjöf, lítinn kíki. Kíkir þessi varð þess valdandi að í fyrsta sinn á ævinni sá Reynir heiminn. Hann hélt honum upp að auganu og fékk um leið úthlutað lítilli en skýrri sneið af umheiminum. Og hvað verður um mann sem hefur þurft að eyða meirihluta ævinnar lokaður inni í eigin huga þegar skyndilega er gerður á hugann gluggi. Jú, hann fer á skynjunarfyllerí. Hann verður ægilega rómantískur og vill skoða heiminn. Og það var þess vegna að á útskriftardaginn þegar fólk hrósaði Reyni fyrir áfangann og hugsaði sem svo að nú hlyti hann að vera orðinn saddur og tilbúinn að sætta sig við hlutskipti íslenska öryrkjans, þá var Reynir þegar farinn að langa til útlanda í nám.

Eftir stutt aðhlaup í HÍ flaug hann til Frakklands til að læra stjórnmálafræði. Hann fór til Grenoble. Þar nam hann fræðin í eldrauðum búningi og fjarlægðist smátt og smátt hugmyndafræðina sem hann hafði sendlast fyrir á Morgunblaðinu. Hann tók ástfóstri við lestar og mátti helst ekki eignast aur án þess að eyða honum í lestarmiða til einhvers heimshorns sem hann hafði ekki séð áður. Honum var hent út úr Péturskirkjunni í Róm með bera spóaleggi milli sandala og stuttbuxna, hann var handtekinn og barinn fyrir njósnir í Alsír þar sem hann stóð með kíkinn upp að auganum og fylgdist með. Hann var ítrekað rændur og barinn svo illa að hann þrufti að eyða löngum tíma á sjúkrahúsi (tíma sem hann notaði til að læra frönsku). Hann fór austur fyrir járntjald og suður á sólarstrendur.

En fyrr eða síðar þurfti hann að snúa heim. Aftur í hinn íslenska veruleika.

Heilsufar hans hafði aldrei verið sérstakt og nú fékk hann einhverja dularfulla veiki sem lét hann falla í dá í töluverðan tíma. Þegar hann snéri úr dáinu tók hann til við að búa sér líf á Akureyri. Hann skrifaði leikhússgagnrýni og reglulega pistla í Dag. Tók þátt í pólitísku starfi og fékk sér hund. Hann bjó í herbergi heima hjá foreldrum sínum á Brekkunni og einn dag árið 1992 mætir á heimilið ungur frændi hans til að feta í fótspor hans og reyna við stúdentinn í MA. Það var ég.

Næstu fjögur ár erum við Reynir, amma, afi og hundurinn Týri sambýlingar. Þegar ég fjórum árum seinna set á mig stúdentskaskettið og held mína leið út í lífið gerði ég mér enga grein fyrir því hversu mikið ég ætti þessum frænda mínum að þakka. Reynir hafði nefnilega komið sér upp óslökkvandi lífsþorsta sem hann gerði sitt besta til að brynna í herberginu sínu á Brekkunni. Nú var glugginn hans fyrst og fremst fjölmiðlarnir. Hann var að mestu dottinn út úr pólitísku starfi enda ekki nærri því nógu mikill refur í það og vann fyrir sér með því að taka upp á myndbönd sjónvarpsefni fyrir áhafnir Akureyrartogaranna. Hann sat svo samviskusamlega og vélritaði sína útgáfu af dagskrárlýsingum sem oft var drepfyndin.

En í þessum lífsþorsta hafði ég nú marinerast árum saman án þess að vita af því. Reynir hafði rökrætt við mig um allt milli himins og jarðar. Engin hugmynd sem ég kastaði fram var ekki þess virði að taka um hana sennu. Og smám saman þroskaðist tilfinning mín fyrir máli og rökum uns hún varð ráðandi afl í skapgerð minni. Og mig fór að langa í sneiðar af heiminum sem Reynir hafði alltaf geymt í hausnum á sér og skenkti mér af í reglulegum skömmtum. Mig langaði að lesa Dickens og Maupassant. Mig langaði að fara til lands þar sem „kaka“ merkti kúkur. Mig langaði að sjá Péturskirkjuna, Berlín, hlusta Bítlana og Rolling Stones. En það sem mest var um vert er það að Reynir hafði kennt mér að þekkja skilingsljósið. Þetta ljós sem kviknar innan með manni þegar maður heyrir eða les eitthvað sem er fullkomlega rétt og skynsamlegt. Og enn í dag veit ég að einhver hugmynd mín er rétt þegar ég tala við hann í símann og segi honum hugmynd mína og hlusta á þögnina sem kemur þegar hann sér skilningsljósið, en aðeins augnablik áður en hann segir: „Þú segir nokkuð.“

Um þetta leyti hafði hið íslenska samfélag loks áttað sig á því að fatlaðir gætu viljað eiga líf á eigin forsendum og Reynir fékk að borga sér leið inn í íbúð. Þangað flutti hann ekki lítið stoltur og byrjaði að koma sér fyrir í sínum eigin heimi. Hann var í göngufæri við búð og gat heimsótt foreldra sína. Á pínulitlar svalir lét hann setja gervigras, stól og borð og sat þar löngum stundum og lét sólina baka sig og ímyndaði sér að hann væri við miðjarðarhafið. Það litla sem eftir sat af tekjunum setti hann í krús og safnaði fyrir reglulegum utanlandsferðum.

Þá er það að hann er úti í búð að kaupa í matinn og finnur að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Hann rýkur heim en kemst ekki alla leið. Hann dettur niður fyrir framan útidyrnar og liggur þar bjargarlaus. Hann hafði fengið heilablóðfall.

Enginn vissi hver skaðinn hefði orðið þegar ég mæti upp á sjúkrahús og finn hann á gjörgæslunni umkringdan snúrum, tækjum og tólum. Læknarnir voru enn að meta áhrifin og velta fyrir sér hvort þeir ættu að skera eða ekki. Reynir þekkti mig strax og þegar hann gat sagt mér hverjir fyrstu tveir biskuparnir voru yfir Íslandi minnkuðu áhyggjur mínar. Það kom enda í ljós að hann hafði aðeins tapað hreyfigetu í helmingi líkamans. Strax á sjúkrahúsinu ákvað Reynir að hann skyldi til útlanda á tilteknum degi. Og það gekk eftir.

Við fórum saman til Parísar þar sem hann náði þeim áfanga að rölta einn og óstuddur niður á hverfispöbbinn og heim á hótel aftur. Hann var farinn að stunda sínar eigin rannsóknir á Victor Hugo og sérstaklega á riti eftir hann um Íslands-Hans. Svo kom dagurinn sem hann hafði lengi beðið eftir. Dagurinn sem átti að marka þann tíma sem hann væri kominn úr hættu á öðru heilablóðfalli. Nú væru sömu líkur á slíku hjá honum og hverjum sem er.

Hann hélt áfram lífi sínu af sama áhuga og þorsta og áður. Hann fékk göngugrind og óð með hana um allt. Fór reglulega til útlanda og þrasaði við mig og aðra um stjórnmál og réttlæti. En fékk svo annað heilablóðfall. Nú í hinn helming heilans.

Sú hlið líkamans sem hann hafði þó getað treyst á varð í einu vetfangi gagnslaus. Eftir sat hálflömuð hliðin sem hafði lamast í fyrra blóðfallinu. Hann endaði í hjólastól og situr þar enn. Hann getur ekki lengur haldið á kíkinum og hefur því misst gluggann sinn endanlega. Heyrnin hefur skerst. Og óttinn hefur tekið sér bólfestu. Hann óttast á hverju augnabliki þriðja heilablóðfallið sem hann er sannfærður um að klári verkið.

En hann stefnir enn á næstu utanlandsferð, og situr við sjónvarpsskjáinn, hlustar á útvarpið, hringir í fólk og bloggar. Hann hefur enn skoðanir á öllum sköpuðum hlutum. Hann vill enn lifa. Og hann vill gera þetta samfélag sem hann býr enn í að því samfélagi sem það hefði átt að vera allan tímann. Samfélagi sem hefði hlíft honum við því að þurfa að brjótast úr burstagerðinni. Samfélagi sem hefði ekki sjálfkrafa sett fatlaðan nemanda í tossabekk. Samfélagi sem gerði ráð fyrir þátttöku fatlaðra í stjórnmálum og opinberu lífi. Samfélagi sem kæmi fram við alla borgara þess af sömu virðingu fyrir mennskunni.

Stjórnarskráin er mikilvægt plagg. Þótt svo hafi farið að við höfum gleymt henni og lifað eftir öðrum forgangsmálum en lýðræði, réttlæti og siðferði. Við þurfum að velja fulltrúa til þess verks sem tryggja að það sé unnið vel. Og með fullri virðingu fyrir trukkabílstjórum sem hafa þurft að fara frá því að fara með fjölskylduna til Flórída tvisvar á ári yfir í að skrimta á bótum þá eiga menn eins og Reynir hundraðsinnum meira erindi í það verk en þeir.

Ég skora á þig að kjósa 4657 á þingið vegna þess að þar fer saman í einum manni reynsla, þekking og réttlætiskennd sem á fáar sínar líkar í hópi frambjóðenda. Þrautsegjan þarf að eiga sinn fulltrúa við samninguna. Ísland var ómagi í heiminum fyrir rúmri öld. Við vorum nýlenda. Enginn bjóst við neinu af okkur. Á margan hátt erum við komin á sama stað aftur.

4657 skilur hvað stjórnarskrár ganga út á. Hann hefur skoðað íslenskt samfélag frá sjónarhorni sem sjaldan er rætt. Hann hefur þekkingu á öðrum samfélögum. Hann hefur enn límminni. Hann hefur réttlætiskennd. Og, það sem mest er um vert, á þessu þingi veit ég að hann mun fylgja þeim að málum sem koma sér saman um réttláta og metnaðarfulla stjórnarskrá.


Viðbót 16:00.

Ég henti upp fb-síðu fyrir karlinn. Hún er hér:

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Glæsilegt og einmitt ætlunin með því að endurskoða stjórnarskránna, með ALLA íslendinga í huga:-)

Anna Benkovic