27. júní 2012

Stóra myndin

Mér líður stundum eins og í landinu séu a.m.k. tvær þjóðir. Og það sem skipti henni í fylkingar sé fyrst og fremst það að fólk leitast almennt ekki við að sjá „stóru myndina.“ Fjölmiðlar og álitsgjafar eru ekki sérlega góðir í að útskýra hana heldur.

Öll flóknari mál verða þannig undantekningalítið að álitamálum – með tilheyrandi flækjum og flokkadráttum.

Og í þessum málum er tilhneiging að verða nokkuð ljós. Hún er þessi:

Ofur einfölduð hlið snýr að almenningi. Sú hlið sem auðveldast er að kyngja og minnsta þekkingu þarf til að falla fyrir.

Hún sannfærir marga. En þó ekki endilega tvo hópa. Stundum skarast einfaldaða hliðin á við sannfæringu og hugsjónir einstakra aðila eða hópa. Í þeim tilfellum verður til andófsafl sem síðan snýst oft á sveif með öðrum hópi, þeim sem þykjast sjá ýmis vandkvæði á þessari einfölduðu mynd – og því meiri sem einfalda myndin er róttækari. Þessi vandkvæði sjá þeir því þeir skoða fleiri fleti stóru myndarinnar. Við það flækist öll myndin og úr verður afl sem verður nokkuð íhaldssamt og hikandi. Vill fara öruggustu leiðina út og leggja minnst undir.

Íhaldshópurinn og hugsjónahópurinn eiga ekki samleið nema að því leyti að þessir hópar sameinast gegn yfirborðskennda hópnum.

Tökum dæmi af Kárahnjúkum.

Almenna myndin: „Við þurfum að auka hagvöxt og þetta mun hafa í för með sér miklar bætur, sérstaklega fyrir Austurland.“

Hugsjónamyndin: „Þetta eru skipulögð og óverjandi spjöll á íslenskri náttúru – sem skiptir þegar á heildina er litið miklu meira máli en nokkur störf í álveri.“

Flókna myndin: „Vissulega mun þetta auka hagvöxt en ágóðinn mun að mestu renna beint úr landi til erlendra verktaka og það sem hér verður eftir mun skapa hættulega þenslu. Svo eru víst jarðskjálftasprungur á svæðinu. Guð veit hvað það getur haft í för með sér.“

Tökum Icesave:

Almenna myndin: „Íslendingar eiga ekki að borga milljarða fyrir útrásarvíkinga og taka á sig enn meiri niðurskurð í heilbrigðis- og menntakerfinu.“

Hugsjónamyndin: „Ofurvernd fjármagnseigenda og sú tilhneiging að tryggja hagsmuni peningaafla er óréttlát og óeðlileg. Íslenskir skattgreiðendur eiga ekki að greiða fyrir hrun bankanna.“

Flókna myndin: „Þótt það sé ósanngjarnt að Íslendingar þurfi að borga Icesave, þá voru þetta íslenskir bankar á ábyrgð íslenskra yfirvalda og þeir samningar sem okkur eru boðnir gætu orðið hagkvæmari en afleiðingar þess að neita að borga.“Flækjufólkið er líklegra til að vera menntað og úr hærri stigum samfélagsins. Enda fylgir aukinni menntun m.a. sú dygð að sjá fleiri en einn flöt á máli. Þetta er ennfremur fólkið sem stýrir mikið til hinni almennu umræðu á landinu, á besta kunningjatengslanet inn í fjölmiðla o.s.frv.Í dæmunum hér að ofan, Kárahnjúka- og Icesavemálunum, tók „flækjufólkið“ annarsvegar afstöðu með hugsjónafólkinu og hinsvegar andspænis því. Það hafði áhrif á viðhorf til hugsjónanna. Þeir sem aðhyllast almennu, einföldu myndina eru ekki mikið í skilgreiningum eða hugtakanotkun. Þar eru það einfaldar grunntilfinningar sem ríkja. Skilgreiningarnar eru allar á bandi flækjufólksins. Og „hugsjónirnar“ eru skilgreindar, jákvætt eða neikvætt, eftir því hvort flækjufólkið er í liði með hugsjónafólkinu eða ekki.

Þannig eru hugsjónir Andra Snæs og Saving Iceland góðar hugsjónir (á meðan stuðningsmenn almenna viðhorfsins líta á slíkt fólk sem latte lepjandi eða hampreykjandi hippa).

En hugsjónir andstæðinga Icesave eru þjóðremba og lýðskrum.En hér er kjarni málsins:

Jafnvel þótt margir í liði „flækjusinna“ telji hugmyndir sínar betri en „almennings“ og stæri sig jafnvel af því að fylgni sé milli menntunarstigs og skoðana – þá er staðreyndin sú að afstaða þess er mjög gjarnan hendingum háð. Öll meiriháttar mál eru flókin. Lamandi áhættufælnin er ekki merkileg afstaða. Samfélag sem teflir alltaf saman lítt ígrundaðri ákefð og hræðslu mun í öllum meiriháttar málum klofna og eiga erfitt með allar ákvarðanir. Í besta falli verður umræðan þras um spár sérfræðinga – í versta falli verður hún illa dulbúið skítkast og rifrildi. Sem er ekkert skárra hjá öðrum hópnum þótt orðfæri hans sé flóknara.Til þess að þjóðfélagið fari að virka af einhverju viti þarf að gera fleira fólk að hugsjónafólki og ræða hugsjónir. Hugsjónir eru afl sem getur bæði haldið aftur af hlutum og hvatt til þeirra. Það er uppbyggingar- og niðurrifsafl. Hugsjónir fela í sér markmið – og þegar markmiðin eru skýr má ræða leiðirnar.

Það að sjá að mál sé flóknara en það birtist á yfirborðinu gefur manni enga góða ástæðu til að hafna þar með upphafsafstöðunni. Það þarf að rannsaka málið áfram – og þá kann að koma í ljós að upphaflega, einfalda afstaðan var, þrátt fyrir allt, best. Þótt hún væri snöggtum flóknari en fyrst virtist.

Engin ummæli: