27. febrúar 2010

Klofningur í VG

Ég held að tal um klofning í VG vegna ástandsins sé dáltið misráðið.

Flokkurinn er ekki að klofna umfram það sem verið hefur. Hann er, og hefur alltaf verið, samsettur af mjög mismunandi hópum fólks – sem flest á það sameiginlegt að vera ofsatrúað í einum skilningi eða öðrum.

Þetta eru eiginlega 4 flokkar í einum. Femínistaflokkur, umhverfissinnaflokkur, kommúnistaflokkur og flokkur áhugamanna um sinn pólitíska frama.

Steingrímur, sem fyrst og fremst tilheyrir síðasta flokknum (enda var VG viðbragð við því á sínum tíma að fá ekki að ráða - og tapa fyrir konu í þokkabót) hefur haldið VG í einu lagi á saman hátt og Tító hélt Júgóslavíu saman.

Og eftir því sem fleiri voru óánægðir með ástandið í íslands-Bólunni og kreppunni sem kom þegar hún sprakk – því fleiri horfðu til VG.

En það fólk var hvorki kommúnistar, femínistar né umhverfisverndarfólk. Steingrímur hefur síðan stýrt flokknum með hliðsjón af því.

Þar sem honum skjöplast er að fæst af þessu fólki er áhugamenn um politískan frama VG og VG manna.

Og flest af þessu fólki hefur nú þegar beint sjónum sínum annað. Og bölvar í hljóði yfir því að hafa stutt VG að kjötkötlunum og með því framlengt hörmungarsögu íslenskra stjórnmála í upphafi 21. aldar.

Þegar Orwell lýsti alræðisríki Stóra bróður og flótta Winstons Smith undan hugsanaþrengslunum lét hann litla glerhvelfingu spila rullu. Winston geymdi hana á hillu á leynistaðnum sínum. Þetta var svona kúla sem maður hristir og þá fyllist hún af snjó, sem síðan fellur til jarðar. Þegar vondu karlarnir handtóku Winston mölvuðu þeir hvelfinguna.

Íslenskt athafnalíf er svona kúla. Það er sama hvar almenningur andskotast. Það eina sem gerist er að upp þyrlast flösulegir bitarnir, svífa um smástund - og lenda svo aftur. Sendiherra sem samningamaður, forsætisráðherra sem seðlabankastjóri og svo aftur sem ritstjóri.

Það dugar ekki lengur að hrista kúluna. Við þurfum annað hvort að brjóta hana eða fergja flyksurnar.

VG fer svo sömu leið og Júgóslavía um leið og baklandið hættir að þrýsta flokksgeirunum saman. Þá dettur flokkurinn einfaldlega í sundur af sjálfum sér. Ekki vegna innri klofnings heldur vegna þess að ytri stoðgrindin hverfur.

16 ummæli:

Óli Gneisti sagði...

Eins og ég er spenntur fyrir því að komast að því hvort ég sé í Ögmundar- eða Steingrímsarminum þá er ég voðalega spenntur að vita hvar ég fell í þínu flokkunarkerfi.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Augljóslega í fjórða flokk.

Óli Gneisti sagði...

Er ég sumsé áhugamaður um eigin pólitíska frama? Hvernig kemstu að þeirri ályktun?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

...og pólitískan frama VG, má bæta við.

Óli Gneisti sagði...

Ég get nú ekki gefið þér mörg stig fyrir glöggskyggni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hví skyldi ég enda vænta frá manni stiga sem ég er nýbúinn að segja, ekki leynt heldur ljóst, að skorti nær algjörlega sjálfsþekkingargreind.

Lýsing á fjórðu týpunni væri samt einhvernveginn svona: Hún má varla ferðast upp um meira en fjórar hæðir í lyftu með öðru fólki án þess að vera búin að taka að sér formlegt hlutverk í „félagsskapnum“. Hún leitar uppi kyrrstæða vagna til að mega draga þá -og mælir sjaldan hnjóðsyrði um húsbónda sinn, hver sem það er á hverjum tíma. Hún myndi t.a.m. fá samviskubit ef hún fylgdi sannfæringu sinni ef það kæmi sér illa fyrir húsbóndann. Dæmi: Hólmsteinn afsakar DO gagnvart Falún gong og Óli Gneisti vill ekki kjósa með betri vitund í Icesave því það kæmi sér illa fyrir ríkisstjórnina.

Annars er tilgangslaust að orðlengja þetta við þig. Svona svipað og að taka með sér heyblásara í froðudiskó. Ekki ætla ég frekar að svipta þig þokunni sem þér þykir svo þægileg.

Óli Gneisti sagði...

Merkilegt nokk þá ertu ekki einu sinni nógu heiðarlegur til að fara rétt með skoðanir mínar á Icesave og sem fyrr gef ég þér ekki mörg stig fyrir almenna glöggskyggni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Rökþvælan í þessu innleggi þínu ætti að vera gefin út í Netþrætubókarkorni kennd við þann sem innleiddi hana í íslenskt netþvaður, þig.

Þú reynir endalaust að draga umræður á það plan að ekki sé rétt í þig vitnað einhversstaðar og það sé til marks um óheiðarleika sem landi rökræðunni eða ljúki henni.

Ég endurtek: Mér er nákvæmlega sama um þig og þín stig. Hættu að veifa þeim framan í mig eins og einhverjum verðlaunum sem ég fæ ef mér tekst að heilla þig.

Og ef þú reyndir nú, þótt ekki væri nema af þínum veika mætti, að skilja gagnverkið í sjálfum þér þá sérðu að hárrétt er í þig vitnað að öllu leyti nema því að það má efast um að þú hafi yfir höfuð vitund (hvað þá betri) um stöðu þína til þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Þú veist ekkert hvað þú vilt annað en að þú vilt semja og semja eins vel og hægt er.

Hitt er óumdeilt að þú segir að þú viljir ekki kjósa í kosningunum þannig að einhverjir muni túlkað það sem andúð á ríkisstjórninni.

Og ef þú ert sjálfur ert ekki búinn að fatta opinbera skoðun þína á Iesave-kosningunni þá er hún þessi.

Það er erfitt að styðja Icesave ef kostur er á betri samningi. En það er ómögulegt að fella Icesave því EINHVERJIR GÆTU TÚLKAÐ ÞAÐ sem vantraust á ríkisstjórnina og vilja um dómstólaleið.

Vessgú!

En hugleiðingar þínar um Icesave eru í raun svo ómerkilegar að ég er hálffarinn að sjá eftir að hafa eytt þessu púðri í að tala um þær. Og svo gæti einhver túlkað þetta langa svar mitt sem svo að síðasta komment þitt hafi verðskuldað það.

En ég ætla að gefa skít í það sem aðrir hugsa og fylgja betri vitund.

Óli Gneisti sagði...

Merkilegt nokk þá er þetta ekki það sem ég sagði. Ég sagði að ég myndi ekki vilja að atkvæði mitt yrði túlkað sem andstaða við ríkisstjórnina. Punkturinn minn átti að vera að gagnrýna þá sem ætla sér að nota svona bull túlkanir á mögulegri niðurstöðu en ekki að þetta yrði forsenda fyrir því hvernig ég myndi greiða atkvæði. Ég hef annars ekki grænan grun um hvernig ég ætla að kjósa.

En það er auðveldara fyrir þig að ætla mér leiðtogadýrkun og flokkshóruskap heldur en að ætla að ég hafi einhverja sjálfstæða hugsun því þá getur þú farið upp á kassann þinn og fordæmt.

Þú ert í raun á sama stigi og Moggabloggarinn Don Hrannar sem vill tala um landráðamenn í stað þess að gera ráð fyrir að fólk sé í raun og veru að finna bestu leiðina út úr erfiðum málum.

Ég játa alveg að ég á erfitt með að hafa mjög harða skoðun á Icesave málunum en það er af því að þetta er flókið mál. Ég vil að Ísland komist sem best útúr því en ég er reyndar líka á því að íslenskir embættismenn og stjórnmálamenn hafi bakað okkur ábyrgð með orðum og gjörðum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þetta er ekki rétt hjá þér. Hefði gagnrýni þín snúist um það að svona túlkanir væru bull og markleysa og hefði þessi sama gagnrýni verið af einhverri alvöru hefði hún síst af öllu átt að letja mann til að kjósa gegn Icesave.

Það vottaði ekki á slíkri gagnrýni hjá þér. Þú tiltókst þessa túlkun sem letjandi atriði til að kjósa gegn Icesave.

Og hvaða Don Hrannar bull er þetta?

Ég tel einmitt að Steingrímur og Jóhanna, Svavar og kó séu öll að gera sitt besta. Og ég held meira að segja að Geir Haarde, Árni Matt og Sigmundur Davíð hafi allir verið að því sama.

Stundum er sumra besta bara alls ekki nóg.

Óli Gneisti sagði...

Merkilegt hvað þú veist mikið meira hvað ég var að meina en ég. Þú ert svo klár.

Þú getur gert ráð fyrir að ljúga eða spinna eða þú getur gert ráð fyrir að ég sé heiðarlegur og þú sért að misskilja hvað ég var að segja.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Tertium non datur?

Svo eru tveir möguleikar enn. Að þér hafi mistekist að segja það sem þú taldir þig vera að hugsa. Eða að þú hafir hreinlega haft mjög takmarkaða hugmynd um hvað þú varst að segja/hugsa.

Og jú, ég gæti auðvitað gert ráð fyrir vammleysi þínu og heiðarleika. En það væri varla nærtækt fyrir mig núna þegar þú ert nýbúinn að ljúga upp á mig einhverjum mannfjandsamlegum samsæriskenningaskoðunum í ætt Don Hrannars.

Fyrst þú lýgur því, ertu þá ekki lygari? Og eru lygarar ekki óheiðarlegir?

Nema þú hafir þar hreinlega ekki vitað hvað þú varst að segja. Og hvurn fjandann ertu þá að gera með þessu masi?

Ertu til í að hugsa fyrst, skilja svo - og skrifa svo,

Eða bara sleppa því?

Óli Gneisti sagði...

Ég sagði:
"En það er auðveldara fyrir þig að ætla mér leiðtogadýrkun og flokkshóruskap heldur en að ætla að ég hafi einhverja sjálfstæða hugsun því þá getur þú farið upp á kassann þinn og fordæmt.

Þú ert í raun á sama stigi og Moggabloggarinn Don Hrannar sem vill tala um landráðamenn í stað þess að gera ráð fyrir að fólk sé í raun og veru að finna bestu leiðina út úr erfiðum málum."

Þú svaraðir þessu með því að lýsa yfir viðhorfum þínum til Steingríms og kó en ég var að tala um viðhorf þín til mín.

Óli Gneisti sagði...

Þar sem ég er að þessu er hægt að bera saman:

"Óli Gneisti vill ekki kjósa með betri vitund í Icesave því það kæmi sér illa fyrir ríkisstjórnina."

En Óli sagði:

"Ef möguleiki er á betri samningi þá er erfitt fyrir nokkurn að styðja þessi lög. Á móti er lítið til þess að hvetja mann til að kjósa á móti. Maður sér að hinir og þessir ætla að túlka þetta á hinn og þennan hátt.

"Nei við lögunum þýðir að andstöðu við ríkisstjórnina." - Ég er hlynntur ríkisstjórninni og myndi ekki vilja að atkvæði mitt yrði túlkað á þann hátt."

Rétt er að benda á að þarna kemur hvergi fram að mín "betri vitund" sé á einn veg eða annan enda veit ég satt best að segja ekkert hvað er best í stöðunni. Ég tek fram að "ef" það sé möguleiki á betri samning þá sé erfitt að samþykkja lögin en ég veit satt best að segja ekki hvort sá möguleiki sé raunverulega fyrir hendi.

Gæti verið að þú ættir að lesa betur áður en þú tjáir þig? Eða ert þú, ólíkt mér, með 20/20 sjón þegar kemur að sjálfsgagnrýni? Gæti verið að þú sért að fylla fullmikið inn í eyðurnar?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ertu búinn að gleyma því að upphaf alls þessa liggur í því að ég setti þig í flokk með SJS í greiningu minni?

Viðhorf mitt til beggja er því að þessu leyti það sama.

Ástæða þess að ég taldi þig ekki upp yfir þá sem eru að gera sitt besta er aðeins sú að þú ert ekki að gera rassgat.

Óli Gneisti sagði...

Ég var ekki að biðja þig um að setja mig í flokk með þeim sem væru eitthvað að "gera" og ég veit ekki hvers vegna þú heldur það. Það eina sem ég er að reyna að gera er að komast að niðurstöðu í flóknu máli og játa vel að mér þykir það erfitt.