23. júní 2012

Oft þarf bara eina hugmynd

Ég hef skrifað mikið um ákvarðanatökuferlið í íslenskri stjórnsýslu. Mér finnst það meingallað. Eiginlega bara næstum því ónýtt. Aðal vandinn er samt ekki hæfileikaskortur eða heimska. Meginvandi íslensk samfélags er sóun á hæfileikum og tækifærum. Skortur á gagnrýnni en um leið frumlegri hugsun. Við erum eitthvað svo föst í einhæfum, línulegum hugsunarhætti.

Og ekki bara Íslendingar. Heimsbyggðin öll líður fyrir vitsmunatregðu. Ég held það sé nokkuð sanngjarnt að segja að upplýsingin, sem að mínu mati er ein af grunnstoðum allrar menningar sem vit er í, hafi aldrei náð alminlega að festa rætur í venjulegu fólki. Ég skýri það kannski betur seinna. En nú langar mig að tilfæra nokkur dæmi – sum hef ég notað í kennslunni með nemendum mínum en önnur ekki.

Mikilvægasta sameiginlega viðfangsefni mannkyns er að finna hagkvæmar og umhverfisvænar leiðir til að beisla orku. Því ódýrari og skilvirkari sem orkan er – því auðveldara að leysa öll önnur vandamál. Orka er lykillinn að farsæld allra þjóða.

Því miður er það svo að orkumál heimsins eru enn í nokkrum ólestri. Fyrst og fremst vegna þess að við reiðum okkur enn á orkugjafa sem til eru í takmörkuðu magni og á afmörkuðum svæðum. Olían er enn orkugjafi heimsins og þótt hún hafi vissulega verið stórt stökk framávið frá kolunum þá er alveg ólíðandi að vera enn, árið 2012, ofurseldur þessum meingallaða orkugjafa. Félagslega elur olíunám og vinnsla á misskiptingu og ólgu – umhverfislega er hún skaðvaldur.



Þess er vonandi ekki langt að bíða að raunhæfar lausnir koma fram um aðra orkukosti. Það, samhliða tækjum sem nýta orku betur og meiri meðvitund um orkusóun, getur orðið gríðarlegt stökk fram á við fyrir allt mannkyn. Með orkubyltingu má fara langleiðina með að útrýma fátækt og hugri í heiminum.

Það er því ofsalega sorglegt að fylgjast með umræðum um orkumál á Íslandi. Nú ætlum við að fara að bora eftir olíu – þrátt fyrir að vera eitt fárra landa í Evrópu sem lifir við ofgnótt orku. Við ráðum okkur ekki fyrir kæti að geta tekið þátt í þeirri fjárkúgun sem olíueinokun er. Við höfum þegar gengið langleiðina með að virkja nýtanlega fallvatnsorku á landinu sjálfu – mestmegnis til að keyra áfram stóriðju. Eitt einasta álver krefst jafnmikillar orku og öll þjóðin þar fyrir utan. Stóriðja notar langstærsta hluta allrar orku á Íslandi. Við erum eins og fjölskylda sem býr í fimm herbergja einbýlishúsi en hefur holað sjálfri sér allri í eitt herbergi til að geta leigt afganginn af húsinu út í gróðaskyni.

Margir eiga sér drauma um að græða enn meira á íslensku orkunni og leggja sæstreng til Evrópu til að geta selt rafmagn. Sú orka er að megninu tilkomin með tvennum hætti. Fallvatnsvirkjunum og jarðhitavirkjunum. Sem vissulega eru mun skárri en olíubrennsla en eru langt frá því að vera fullhannaðar og gallalausar. Og langt frá því að vera sjálfbærar og endurnýjanlegar. Það skapaðist mikil pressa á sínum tíma að byggja risavirkjanir á Íslandi vegna þess að menn óttuðust að vatnsorkan yrði verðlaus þegar kjarnorkan tæki við sem aðalorkugjafi heimsins. Svipuð rök munu vera notuð til að réttlæta massíva og róttæka olíuvinnslu við Ísland – reynist hún möguleg.



Mín skoðun er að Íslendingar eigi að hætta að reyna að finna leiðir til að græða á orkuvanda heimsins – og hefja markvissar rannsóknir á því hvernig megi leysa hann. Til að svo geti verið þarf að stórefla vísindamenntun þjóðarinnar. Hún er satt að segja frekar léleg. Og það þarf að leggja miklu meira fé og áhuga í vísindarannsóknir á öllum sviðum. Og loks þarf að hliðra til þessu hugarfari ágirndar og reyna markvisst að gera íslenska þjóð siðferðislega ábyrga og velviljaða öðru fólki. Það má byrja á að stilla sig um að ala á vantrausti og fordómum í garð útlendinga, og sérstaklega flóttamanna. Viðhorf okkar til þeirra er vægast sagt kaldranalegt og heimóttarlegt. Þjóðin lítur á flóttamenn sem óboðna gesti sem helst þurfi að losna við áður en þeir brjóta eitthvað eða stela. Það fór svona langdregið a-ha! um þjóðina þegar í ljós kom að unglingspiltar sem höfðu í örvæntingu sinni reynt að fá inni á Íslandi voru ekki 15 ára heldur nokkrum árum eldri. Það var með sannri gleði sem flestir hugsuðu eitthvað á borð við: „Þarna náðum við ykkur, óbermin ykkar,“ og svo spörkum við þeim úr landi með mikilli velþóknun. Einhvernveginn erum við alveg blind fyrir því að flóttamenn eru afleiðing á klikkaðri misskiptingu auðs, eymdar og úrræða. Skýrt sjúkdómsmerki þeirrar vansæmdar sem enn herjar á mannkynið allt. Og menn gera sér ekki lengur grein fyrir mörkum sjúkleika og heilbrigðis. Það fer ekkert á milli mála að sá með krabbameinið er veikur – en sá fullfríski telur sig ekki hafa minni þörf fyrir heilsufarsbætur en sá fársjúki. Hann þarf að minnka fituprósentuna, hlaupa hálfmaraþonið mínútu hraðar – eða hvað sem það er sem heldur honum uppteknum við að sækja í sífellt meira heilbrigði og meiri fullkomnun. Eins eru engin saðningsmörk þegar kemur að þörf fyrir auð. Fjölskyldan sem búin er að leigja út öll herbergin heima hjá sér nema eitt reynir enn að hagnast meira á auðlindum sínum – og byrjar að bora eftir olíu í garðinum. Vesturlandabúar vagga í andlegu og veraldlegu spiki ofneyslu og auðlegðar og finnst jafnmikið til um sinn eigin vanda og þeirra sem há harða og gráa lífsbaráttu fyrir nauðsynjum.

Frjóustu hugar Íslands eru í vinnu við að reyna að græða peninga, forrita hugbúnað utan um gróðann eða eitthvað álíka andlaust og óspennandi. Slatti fæst við afþreyingariðnað og gróða honum tengdum. Fæstir fá að gera eitthvað markvert og mikilvægt. Það er einfaldlega ekki stemmningin á Íslandi. Þessum frjóu hugum er sólundað á nauða ómerkilegt lífsgæðastrit. Og á meðan sveltur heimsbyggðin.




Oft þarf bara eina hugmynd. William Kamkwamba er ungur maður frá Malaví. Þegar foreldrar hans höfðu ekki efni á fimmþúsundkallinum sem það kostaði að halda honum í skóla ákvað hann að mennta sig sjálfur. Hann fór á bókasafn þorpsins og las sér til. Loks rakst hann á kennslubók í náttúrufræði. Þar sá hann vindmyllur í fyrsta sinn. Hann áttaði sig á því að þetta þyrftu ekki að vera flókin tæki og byggði vindmyllu fyrir þorpið, úr rusli af haugunum. Á meðan á smíðinni stóð hæddu menn hann. En þegar henni lauk tókst honum að framleiða nóg rafmagn til að dæla vatni um þorpið. Þar með sluppu konurnar í þorpinu við stóran hlut af þeirra daglega striti (sem var að bera vatn í skjólum). Stærsti hvati að jafnrétti kynjanna í hverju samfélagi er að leysa konur undan einhæfi, daglegu striti.

Í dag er William í háskólanámi í Bandaríkjunum.


Hveru mörg þorp í heiminum væri hægt að bæta með einföldum hætti? Hversu mikill tími ætli fari í strit sem er óþarft? Hversu margir ætli séu fangar óþarfa annmarka og tímasóunar?






Dave Williams er ungur Bandaríkjamaður sem vakti athygli þegar hann hannaði tæki sem framleiddi ís með þrýstilofti. Þetta tæki, sem var reyndar ekki ægilega skilvirkt, var hægt að nota til að frysta matvæli þar sem engu rafmagni var til að dreifa. Það þýðir um leið að fólk í afskekktum byggðum getur nýtt búskap, veiðar eða yrkju til að afla fjár á fjarlægum mörkuðum.


MIT-háskóli hefur árum saman leitað einfaldra verkfræðilausna til að bæta lífsgæði fólks sem býr við bág kjör. Ein snjöll og einföld hugmynd er að lýsa upp heimkynni fólks með rusli. Með bárujárnsbút, kítti og kókflösku má búa til „ljósaperu“ sem leiðir  sólarljós inn í dimmar vistarverur án þess að við það tapist mikill varmi (eins og fylgir stærri gluggum). Því þegar kemur að gluggum þá erum við því miður enn flest föst á sama tækniþróunarstigi og því þegar menn strengdu vambir á ramma og lögðu í göt á veggjum eða þökum húsa sinna. 









Í nýbyggðum skólanum mínum eru þakgluggar sem lýsa eiginlega ekkert upp nema jafnstóran flöt beint fyrir neðan gluggann


Ég setti mig í samband á sínum tíma við þá William og Dave og ræddi við þá um uppgötvanir þeirra. Báða spurði ég hvort þeir hefðu einhver ráð fyrir nemendur mína. Báðir voru, eins og reyndar allir sem ég tala við kennslunnar vegna, óðir og uppvægir að tala við börnin. Dave sagði:



Ég trúi því líka að vísindin séu ekki sagan af dauðum, hvítum köllum og formúlunum sem þeir þróuðu. Vísindin eru grundvöllurinn að því að skilja hvernig heimurinn virkar. Við erum á mjög tvísýnum tímamótum í sögu mannkyns. Það er mikilvægt að þeir sem læra vísindi í dag finni fyrir ákafa því við treystum á þá við að leysa hungurvanda heimsins, loftslagsbreytingar og hanna minni farsíma. Ég er sannfærður um að vísindin eru ferð sem hefst í kennslubókunum en endar ekki fyrr en ímyndunaraflið ber þig ekki lengra. Ég verð að viðurkenna að að þegar ég reyni að finna ný sjónarhorn verð ég að glíma við grundvallarformúlur og gamlar kennslubækur. Þannig langar mig ekki að eyða föstudagskvöldunum. En, hinsvegar, þegar grunnurinn hefur verið lagður, þá byrjar gamanið strax með næsta skrefi. Þar get ég notað mismunandi vísindaaðferðir, -svið og rannsóknir við að leysa vandamál.

William sagði (á sinni bjöguðu ensku):


Mig langar að hvetja ykkur til að trúa á að allt sé mögulegt ef maður er tilbúinn að leggja mikið á sig. Ekki gefa drauma ykkar upp á bátinn. Vísindin hjálpa ykkur að verða það sem þið viljið.

Þessa dagana er það mér mikil og djúp gleði að sjá að allnokkrir af mínum gömlu náttúrufræðinemendum eru að útskrifast úr vísindanámi. Ég á mér þá veiku von að þeir nýti ekki gáfur sínar og sérþekkingu í það eitt að græða peninga og koma sér þægilega fyrir í íslensku samfélagskökunni. Það er engin skömm að því að þéna minna en hæfileikar manns og gáfur ættu að segja til um. Það skiptir svo ofsalega miklu meira máli að gera eitthvað sem einhvers er um vert.

Ég vona líka að þótt útséð með að við getum látið olíuna vera sem hugsanlega er norðan við landið – að þjóðin geti tekið þá ákvörðun (verði af henni gróði, sem er allsendis óvíst) að nýta arðinn til að efla vísindin á landinu, auka nám og rannsóknir – og ráðast að rót orkuvanda heimsins.

Oft þarf bara eina hugmynd.

Engin ummæli: