27. júní 2012

Icesave – hver er krafan?



Samkvæmt EES-samningnum bar íslenska ríkinu að sjá til þess að hér væri starfandi tryggingarsjóður sem tryggði innistæður í íslenskum bönkum upp að lágmarki 20 þús. evrur plús. Hér var settur á stofn slíkur sjóður, sambærilegur við sjóði í öðrum löndum. Sérstaklega var tekið fram að slíkur sjóður ætti ekki að ógna stöðugleika fjámrálakerfa. Iðgjald í sjóðinn gat því aldrei orðið hátt áður en það færi að ógna ávöxtun fjármálafyrirtækja.

Þegar kerfið hrundi átti sjóðurinn ekki fyrir allri tryggingunni. Þá kusu Bretar og Hollendingar að greiða Icesave-höfum eftir þarlendum truggingareglum sem voru töluvert umfram lágmarkstrygginguna íslensku og þá sem fest var í lög. Bretar og Hollendingar kröfðust þess að íslenski sjóðurinn liti á þetta sem lán og fóru fram á vexti.

Íslenski sjóðurinn hafði fulla heimild til að slá slíkt lán en Bretar og Hollendingar kröfðust þess að lánið væri tryggt með skattfé (en tryggingarsjóðurinn átti að vera fjármagnaður eingöngu af fjármálafyrirtækjunum).

Þessari baktryggingu var tvívegis hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lagaleg rök Íslands eru að ekkert ríki hefði þannig trygginarkerfi að það myndi duga við algjört hrun – og að ekkert í reglum segi til um að við þær aðstæður eigi ríkin að borga mismunin. Að auki sagði íslenska ríkið að í stað ríkistryggingar þá hefði ríkisstjórnin tryggt stöðu þeirra sem áttu inneignir með neyðarlögunum – þar sem inneignir fengu forgang yfir allar aðrar kröfur.

Afleiðing þeirra og stöðu þrotabús Landsbankans er sú að Bretar og Hollendingar munu fá miklu meira en þeim bar samkvæmt tilskipun EES. Þeir græða á kostnað annarra kröfuhafa í Landsbankann.

En það er Bretum og Hollendingum ekki nóg. Þeir vilja fá vexti líka (sem mega ekki koma úr þrotabúinu, bara úr vasa skattgreiðenda) og viðurkenningu Íslands á að ríki eigi að tryggja innistæður, líka við hrun.

Íslandi var hótað að það skipti engu mái hvort kröfuhafar fengu allt sitt. Ef landið féllist ekki á kröfur Breta og Hollendinga þá yrðu málaferli þar sem landið yrði sakað um að hafa innleitt EES-tilskipun með röngum hætti og sakað um brot á fjórðu grein EES-samningsins (um bann við mismunun).

Ef Ísland myndi gefa sig yrðu engin málaferli.

Málaferlin nú eru ekki tilkomin vegna tjóns Breta og Hollendinga. Þeir munu fá meira en þeim ber. Þetta eru refsiaðgerðir vegna þess að almenningur á Íslandi gaf ekki heimild til að leggja skattfé að veði fyrir skuldum einkafyrirtækja.

Eigendur Icesave-reikninga hafa þegar fengið meira en þeir áttu heimtingu á. Bretar og Hollendingar eru að fá meira en þeir áttu heimtingu á. Við skuldum þessum þjóðum ekki nokkurn skapaðan hlut. Með neyðarlögunum gulltryggðum við hagsmuni þeirra.

Hér ræður för pólitísk heimtufrekja og ekkert annað. Það hélt því enginn fram að „dómstólaleið“ væri áhættulaus. En samningurinn sem fyrir lá var hinsvegar ranglátur og ósanngjarn og hann byggði á vafasamri kröfu.

Við skuldum Bretum og Hollendingum ekki neitt.

Engin ummæli: