19. júní 2012

Siðareglur eru bull





Siðaregla er gildishlaðið orð. Siðareglur eru einhverskonar lýsing á hlutverki eða stöðu í samfélagi. Þær fela í sér kröfur sem gjarnan ganga lengra en lög leyfa. Það er enda almennt ekki hægt að binda allskyns siðferðilega hluti í lög. Menn hafa á vissan hátt rétt til að vera siðferðilega á skjön við ýmis norm.

Síðan er til önnur tegund af siðareglum. Þær eru bindandi lýsing á því með hvaða hætti tiltekin fyrirtæki eða stofnanir ætla sér að vinna. Lýsing á því hvernig viðkomandi aðilar láta sér ekki nægja að starfa lögum samkvæmt heldur skuli og allt starf einkennast af góðu og traustu siðferði. Slíkar siðareglur, eigi þær að virka á annað borð, krefjast viðurlaga. Viðurlagalausar siðareglur eru harla gagnslitlar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hve mikið gagn getur orðið að metnaðarfullum og traustum siðareglum hjá t.d. fjármálafyrirtæki.

Á Íslandi eru siðareglur almennt bull.

Ég held það sé ekki á neinn hallað þegar sagt er að sá Íslendingur sem kom siðareglum almennt í umræðuna hér á landi hafi verið Vilhjálmur Árnason. Fyrir rúmum áratug barðist hann ötullega fyrir því að bilið milli siðfræðinnar og atvinnulífsins yrði brúað. Hann var aðalhvatamaður að námi í hagnýtri siðfræði. Síðustu 10-15 ár hafa tilteknir heimspekingar haldið mjög á lofti merkjum siðareglna og fyrri hluta tímans var algengt að fyrirtæki keyptu þjónustu heimspekinga við að útbúa og skýra siðareglur.

Á sama tíma hefur siðferði Íslendinga sjaldan verið verra.

Ég held það megi fullyrða að flestir þeir aðilar sem voru virkir gerendur í hinu siðferðilega hruni sem varð á Íslandi (tilvist hvers ég held að sé óræk staðreynd) hafi haft siðareglur. Þær skiptu bara engu máli enda voru þær bara settar á í uppskafningarskyni eða með einhverja kjánalega hugmynd að leiðarljósi um að setning siðareglna gæti ein og sér leitt til betra siðferðis.

Siðareglur eru ekki vottun á góðu siðferði. Miklu oftar eru þær hrein og tær sölumennska.

Ég fullyrði að það séu engin tengsl á milli siðferðisstyrks íslenskra starfshópa og setningar siðareglna. Ekki nokkur. Manneskja sem seld er undir siðareglur í starfi sínu er ekkert líklegri til að sýna siðferðilegan styrk þegar á þarf að halda.

Siðareglur eru svæflar. Þær eru almennt í sáralitlum tengslum við siðferði þeirra einstaklinga sem þær eiga við. Það er vandséð að þær skuldbindi fólk nokkuð umfram það sem fólk sjálft kýs. Og þær eru algjörlega og fullkomlega gagnslausar þegar kemur að því að fyrirbyggja slæmt siðferði. Ég held raunar að það sé líklegra að siðaregluvæðing samfélagsins (sem var allnokkur fyrir áratug eða svo) hafi veriðrökrétt afleiðing af slöku siðferði frekar en góðu. Menn setja sér siðareglur vegna þess að þá skortir persónulegan, siðferðilegan grunn. Skortir ótvíræð grunngildi eins og heiðarleika, hugrekki og réttsýni. Og menn reyna að fylla þetta siðferðilega tómarúm með stolnum fjöðrum.

Ég sé satt að segja fátt merkilegt eða gott við siðareglur eins og þær tíðkast. Sem er synd því ekkert er samfélagi mikilvægara en siðferðilegur styrkur almennings. Til þess að siðareglur virki af einhverju viti þurfa þær að vera allt annars eðlis en þær sem settar hafa verið á Íslandi til þessa.

Það er ekki bara óhófleg bjartsýni, það er hreint og beint fráleitt að halda það að störf nokkurs manns, hvort sem hann er forseti eða forsætisráðherra - muni vera miklum mun betri við það að sett séu embættunum siðareglur. Þeir sem halda að svo verði hafa ekki verið að fylgjast með - og eru að öllum líkindum ölvaðir af hinu gildishlaðna útliti orðsins siðaregla.

3 ummæli:

Eva Hauksdóttir sagði...

Ég held að sé rétt hjá þér að það sé töluverð hætta á að siðareglur þjóni ekki tilgangi og að tilgangurinn með þeim sé oft sýndarmennska. Nokkrar athugasemdir samt:

Hvað hefurðu fyrir þér í því að viðurlög séu grundvöllur þess að reglum sé fylgt?
Hvað hefurðu fyrir þér í því að siðferði Íslendinga hafi sjaldan verið verra, er eitthvert tímabil Íslandssögunnar þar sem spilling og leynimakk hefur ekki þrifist?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

1. Eina raunhæfa leiðin til að hafa viðurlög við siðareglum er að hafa einhverskonar siðanefndir. Þar fer fram siðferðileg umræða og rökræða jafnvel. Það, að alvarleg siðferðisbrot hafi afleiðingar fyrir gerandann, vekur til umhugsunar þá sem stunda sömu störf. Það að hafa umræðuna opna og rannsaka siðferðið hefur áhrif á breytnina - þótt það sé ekki nema til þess að forðast viðurlög. Siðferðismál eru einfaldlega þannig að þau verða aldrei afgreidd með einföldum, algildum reglum. Þau verður alltaf á endanum að rannsaka af hugsandi, siðferðilegum manneskjum. Þær manneskjur verða að vera reiðubúnar til að skoða mál með opnum huga og viðurkenna að siðferðið er fullt af álitamálum. En þær veða líka að vera tilbúnar að fordæma og aðhafast í augljósum málum.

2. Íslendingar held ég hafa aldrei verið miklir siðferðisbógar. En þegar fólk sýslar með hagsmuni annarra vaknar dýpri siðferðileg skylda en þegar maður sér bara um sjálfan sig. Íslendingar hafa á síðasta áratug farið ægilega illa með hagsmuni annarra og virt að engu. Dæmi: menn sem plokkuðu sparifé af gömlu fólki til að nota í áhættufjárfestingar og til að fóðra sveltandi peningaskrímsli og gerðu það fyri fjárhagslegan ávinning. Fleiri dæmi: almenn vanvirðing fyrir öllu nema einfalt skilgreindum hagsmunum, óumburðarlyndi og ofstæki.

Kannski urðu tækifærin bara stærri.

Nafnlaus sagði...

Almáttugur hvað ég er sammála því sem þú segir hér. Minnir mig á ágæta tilvitnun sem ég las einhvers staðar "Your beliefs don't make you a better person. Your behaviour does". Það sama má til sanns vegar færa um siðareglur.

Sigrún Hjartardóttir