17. júní 2012

Hvernig á æskilegur forseti að vera?

Það er einkennileg staða uppi í íslenskum stjórnmálum. Atvikin hafa hagað því þannig að Jóhanna situr uppi með öll stóru málin í einum hnapp – og stjórnarandstaðan getur beitt látlausu málþófi. Ég ítreka enn og aftur þá skoðun mína að þar hafi Jóhanna ofmetið styrk stjórnar sinnar – og að hún ráði ekki við málið. Að því sögðu ætlar Jóhanna að láta á það reyna. Jafnvel þannig að hún láti kæfa málþóf andstöðunnar. Sem yrðu stór mistök. Stjórnarandstaða sem getur fullyrt að hún hafi verið svipt lýðræðislegum rétti til umræðu og skoðanaskipta um stór mál getur hæglega haldið því fram að hún sé ekki bundin af afgreiðslu slíkra mála komist hún í meirihluta. Sem allar líkur eru á að Sjálfstæðisflokkur geri innan skamms. Þeir geta þá dundað sér við það að afnema öll lög sem þannig eru sett á – og Ísland verður orðið að lýðræðislegu úrhraki.

Það er stutt í Alþingiskosningar. Þar munu núverandi ríkisstjórnarflokkar gjalda afhroð. Sjálfstæðisflokkurinn verður sigurvegari kosninganna. Mikið óskaplega vonar maður samt heitt að fram komi trúverðugt framboð gegn fjórflokknum sem leggur áherslu á breytt vinnubrögð, heiðarleika og gegnsæi. Eins og staðan er núna er það hæpið. Besti flokkurinn og framboð honum tengdum eru lítið annað en útibú frá Samfylkingunni þrátt fyrir að hann hafi lagt upp sem andóf við alla atvinnupólitík. Ég sé lítið varið í önnur framboð sem liggja á teikniborðinu – en hver veit?

Ég tel það sé algjörlega bráðnauðsynlegt við þessar aðstæður að á Íslandi sitji forseti sem reiðubúinn er að halda aftur af valdníðslu og flokksræði á Alþingi. Að gefinni reynslu er ÓRG augljós kostur. Hvað sem manni finnst um persónu hans, hvatir eða sögu – þá er alveg ljóst að hann mun veita öllum flokkum aðhald – og að hann er reiðubúinn að hleypa málum í dóm þjóðarinnar ef nógu margir kalla eftir því. Það má kalla það lýðskrum og sérhygli mín vegna. En það að „láta eftir“ lýðnum með þessum hætti er í raun nákvæmlega það sama og allir flokkar hafa meira og minna samþykkt – að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti kallað fram atkvæðagreiðslur um mál, jafnvel á sjálfvirkan hátt. Ef ÓRG er lýðskrumari þá eru allar slíkar hugmyndir líka lýðskrum.

Forsetinn á ekki, og má ekki, við þessar aðstæður vera lydda. Það er alveg ljóst að forsetinn hefur ekkert þannig vald yfir Alþingi að hann geti skipað fólki að hætta þessum hráskinnaleik. Það mun enginn mannlegur máttur megna það að fá þingmenn til að haga sér betur og virða hlutverk sín. Eina leiðin til að kalla fram breytingar er að veita þingheimi löglegt aðhald – að hefta völd ráðamanna og þingmanna.

Við þær aðstæður sem upp eru komnar er ekki skrítið að menn hugleiði það í alvöru að stöðva umræður um þingmál. Slíkt stopp er margumræddur „öryggisventill“. Og þegar þingið er hætt að virka skyldi engan undra að menn freistist til að tappa af ventlinum. Gallinn er bara sá að í dag er það líklegt til að koma af stað ferli sem mun valda meiri skaða en gagni.

Alþingi hefur umræðustjóra. Manneskju sem á að sjá til þess að allt gangi smurt og virðulega. Hann kallast meira að segja forseti og hefur töluverð völd. En forseti Alþingis er máttlaus gagnvart ruglinu sem tíðkast þar inni. Hann situr undir endalausum árásum frá öllum. Mánuðum saman hefur honum verið hótað með undirskriftalista sem fæst ekki birtur en safnað er á nöfnum þeirra sem vilja hann settan af. Ef forsetinn reynir að ná samkomulagi við minnihlutann er hann harðlega gagnrýndur fyrir linkind.

Menn skyldu ekki halda eitt augnablik að forseti Íslands eigi meiri séns til að hafa stjórn á þingheimi en forseti Alþingis. Alþingi er helsjúkt. Fast í áratugagömlum ósiðum. Það þarf verulega miklar breytingar til að það fari að virka eins og það ætti að virka.

ÓRG verður áfram forseti. Þóra Arnórs er enda markvisst farin að tapa með sæmd frekar en að vinna með öllum tiltækum ráðum. Andstæðingar ÓRG áttu enda fæstir nokkru sinni mikla samleið með Þóru. Hún var kölluð fram á sjónarsviðið og ákvað sjálf að fara ekki í drulluslag. Tala gegn öllu slíku. Á meðan stuðningsmenn hennar hafa margir staðið sveittir við að moka drullunni yfir sitjandi forseta. Það náðist aldrei samhljómur eða taktur milli framboðsins og stuðningsmanna þess. Kjarni stuðningsmanna var drifinn áfram af heift og hatri á persónu sitjandi forseta á meðan frambjóðandinn vildi ekki dæma. Stuðningsmenn Þóru hefði betur kallað fram Ara Trausta – hann á miklu meiri samleið með þeim.

Ég heyrði um daginn að það besta sem Þóra gæti gert til að fella ÓRG væri að draga sig til baka. Það hljómar fráleitt. En í alvöru talað þá myndu flestir stuðningsmenn hennar skila sér á líklegasta kostinn (ATG) af ofangreindum ástæðum. Þetta fólk vill ekki endilega Þóru sem forseta, það vill ÓRG burt. En það gerist aldrei. Það væri álitið veikleiki og myndi á endanum ekki koma í veg fyrir sigur ÓRG.

Á netinu gekk um daginn grein með sömu fyrirsögn og þessi pistill. Þar var Guðbergur Bergsson að skrifa enn einn heimsósómann. Hann vill að forsetinn sé afalegur og komi fram við valdhafa eins og ódæl barnabörn en sé ekki að atast í þeim. Auk þess vill hann einhverja útgáfu af virðulegum forseta.Með fullri virðingu fyrir þessum ævagamla milljarðamæringi þá held ég Guðbergur sé meira og minna úr öllum tengslum við veruleikann (öðrum en þessum sjálfsögðu tengslum gamalmenna sem finnst lítið til framtíðarinnar koma). Það kemur voða lítið frjótt frá þessum gamla meistara. Eiginlega ekkert nema sæmilega vel stílað tuð.

Ég vil ekki sjá afturhvarf til þess heims sem Guðbergur talar fyrir. Eitthvað öldungaveldi karlrembunnar þar sem forsetinn situr á veldisstóli og hastar á unga fólkið. Ekki ósvipað forseta Alþingis á löngum köflum.

Mér er reyndar með öllu óskiljanlegt að enn sé snobbað fyrir Guðbergi. Það hafa einhvernveginn allir gaman af því að hafa hann í „sínu liði“ og deila honum eins og vitfirringar þegar hann er að tuða í „rétta átt“ – en ég hef satt að segja fáa séð sem halda á lofti jafn mannvondum sjónarmiðum og þessi gamli kall.

Forsetinn þarf að taka þátt í því að laga til lýðræðið á Íslandi. Hann gerir það með því að veita stjórnvöldum aðhald. Hindrar þau í að vaða út fyrir valdmörk sín.

Ég er alveg á því að ÓRG hefði mátt gera það oftar en hingað til og það má skamma hann fyrir að hafa ekki verið meira aðhald en hann þó var.

En það kemur ekki í veg fyrir það að ÓRG er í dag eini raunhæfi kosturinn vilji maður svona aðhald. Andrea mun aldrei eiga séns. Aðrir sem eiga séns ætla að vera eins og forseti Alþingis.

Það er bara ekki nóg.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Ég tel það sé algjörlega bráðnauðsynlegt við þessar aðstæður að ..." pistlahöfundur komi hvergi nálægt kennslu barna. Enda með hakakrossarmbandið um annan handlegginn og nefið hættulega nálægt endaþarmi forsetans. Sieg heil!

"Forsetinn þarf að taka þátt í því að laga til lýðræðið á Íslandi." Virkilega? Ekki þjóðin?

Skammastu þín.

Bjarki sagði...

Ég átta mig ekki á því hvað nákvæmlega gerir Ólaf Ragnar að góðum kosti við þessar aðstæður og af hverju ömurðin á Alþingi á endilega að breyta forsetaembættinu í eitthvað sem það er ekki með virkari afskiptum af störfum þings og ríkisstjórnar. Allir frambjóðendur í þessum kosningum ganga út frá því að synjunarvald og málskotsréttur forseta sé til staðar og að til greina komi að beita því við sérstakar aðstæður. Ég hef ekki skilið annað á Þóru en að hún telji að ÓRG hafi gert rétt (og varla átt kost á öðru) með því að vísa Icesave II til þjóðarinnar í kjölfar 60 þúsund undirskrifta og naums meirihluta á þingi fyrir málinu.

Mér þykir þessi áhersla á persónuleika Ólafs sem manns sem er óhræddur við að standa uppi í hárinu á stjórnvöldum ótrúverðug og kjánaleg. Oflæti hans er alls ekki það sem þarf núna.

Nafnlaus sagði...

Ég les Guðberg þannig að hann sé að gagnrýna tiltekna þætti í umræðuhefðinni í stíl þess sem hann er að gagnrýna. Hárbeitt - en vissulega stuðandi - ádeila. Honum tekst fullkomlega að framkalla reactionary heiftina sem ætlunin var að beina spjótum að. Í raun heldur hann spegli á lofti fyrir framan þá herskáustu og þeir átta sig ekki á að þeir séu að öskra á eigin ásjónu.

Ég sé meira að segja suma hluti sem komið hafa frá femínistum í öðru ljósi, hafandi lesið þetta; stuðandi framsetningu þar sem sjálft inntakið ýmist tapast eða er hampað eftir því hvort viðkomandi er sammála því. Stíllinn verður þá skálkaskjól til að forðast að taka á innihaldinu. Það er a.m.k. hollt að reyna að taka á eigin biases.

-E

Nafnlaus sagði...

Og afsakaðu að ég sé að blanda nýjasta pistli Guðbergs inn í þetta, kannski óþarft að vera að þvælast út fyrir umfjöllunarefnið...

-E