20. júní 2012

Vésteinn og þriðja leiðin

Vésteinn Ólason skrifar grein þar sem hann innir andstæðinga þess að „hagstæðum“ aðildarsamningum við ESB verði tekið eftir nýjum kosti: þriðja kostinum. Annar kosturinn er sá að hverfa aftur til fortíðar með laskaða krónu og gjaldeyrishöft.


Fjármálakreppuna, sem nú skekur Evrópusambandið, afgreiðir hann svona: 


Hafa verður í huga að fjármálakreppa er — ef reynslan lýgur ekki — ástand sem gengur yfir. Aðild eða ekki aðild snýst um afstöðu og framtíðarsýn til langs tíma en ekki tímabundinn vanda. 


Makríldeiluna setur hann í það samhengi að áður fyrr hafi þjóðir Evrópu varið hagsmuni sína með ófriði og stríðum – nú reyni þau að semja sín á milli. Hann spyr hvernig Íslendingum og Færeyingum myndi farnast ef Evrópa myndi verja hagsmuni sína með afli í fiskveiðideilum.
Hann spyr hversu langan tíma það muni taka okkur að byggja upp traust á efnahagsstjórn Íslands og gjaldmiðilinn – og hve mikið það megi kosta.

Hann skorar svo á sérfræðinga og stjórnmálamenn að benda á þriðju leiðina. Einhverskonar leið til að koma á stöðugleika í efnahagsmálum án þess að það taki langan tíma eða byggi á núverandi efnahagsstjórn.Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á Vésteini. Ég er alveg sammála honum um að það sé tilraunarinnar virði að evrópsk stórveldi leysi deilumál sín með samningum í stað þess að fara með stríðum gegn öðrum þjóðum. Ég sé bara ekki að það þurfi að koma Íslendingum sérstaklega við. Hagsmunabandalag Evrópuþjóða felur ekki í sér að þjóðirnar áskilji sér rétt til að fara í stríð við þjóðir utan bandalagsins – útaf fiski. Það virkar jafnvel nokkuð sannfærandi að samningsstaða Íslands í makríl- eða hafsbotnadeilum sé ekkert veikari þótt við semjum við við ESB sem ytri aðili. Alls kyns hagsmunaflækjur og ofurefli gæti hæglega orðið okkur að bráð ef við stæðum innan ESB í slíkum deilum. 

Það er líka undarlegt að afgreiða logandi kreppu í Evrópu með þeim orðum að hún hljóti, eins og allar kreppur, að ganga yfir og því eigi menn að ganga í Evrópu út frá langtímahagsmunum og taka ekki of mikinn nótis af tímabundnum erfiðleikum. Sérstaklega þegar kjarni greinarinnar er síðan sá að það sé eiginlega óverandi einstætt, íslenskt ríki vegna fjárhagserfiðleika. 

Ef við gefum okkur að greining Vésteins sé rétt og að fjármálakreppur komi og fari – þá hlýtur að vera eðlilegt að álykta að lausn á vandræðum Íslendinga sé a.m.k. jafn líkleg og lausn á vandræðum Evrópu. 

Annars er ég sammála Vésteini um það að það er ágætt að ræða framtíðarhorfur og -stöðu. En þar vandast samt málið doldið. Einn af vandanum við fjármálakreppur er að í ólgusjó alþjóðakapítalismans er maður sjaldnast með útsýni nema upp á næsta öldutopp. Fjármálaheimurinn er kvikur og illfanganlegur. Ef eitthvað er að marka söguna þá er næstum verra að treysta á hagfræðinga við lausn vandamála en herforingja. Hagfræði er enda vísindagrein sem hefur færst alltof mikið í fang – og ræður illa við hlutverk sitt.Ég sé ekki neitt í málflutningi Vésteins sem fyllir mig vonleysi um það að Ísland muni spjara sig. En það verður aldrei gert þannig að einhverjir spekingar geti í dag lagt fram landakort sem sýni leið okkar í samfélagi þjóða næstu árin og áratugina. Til þess eru óvissuþættirnir einfaldlega of margir – og vísindin á bak við viðfangsefnin brokkgeng.

Það sem hægt er að gera hinsvegar er að ræða vinnubrögð og afstöðu. Það má setja niður á blað þau gildi sem stjórnmálamenn, sérfræðingar, álitsgjafar og aðrir sem hafa einhvern áhuga á farsæld á þessari eyju, vilja hafa í hávegum. Ég sting upp á að menn byrji á varfærni og aðgát. Að menn komi sér upp ábyrgri afstöðu til efnahagsmála sem og alþjóðlegra samskipta. Að menn taki mark á úrtöluröddum og stundi samræðu í stað kappræðu. Að menn reyni að bera virðingu fyrir sjálfum sér, náttúrunni, viðfangsefnum og samferðarfólki (hvar sem það er í bandalagi).

Bættir siðir eru margfalt betra veganesti inn í framtíðina en spár spekinga. Af þeim sprettur raunveruleg aðlögunarhæfni. Sem er mikilvægasti eiginleiki þess sem ætlar sér að vera til eitthvað áfram. Hin tegundin af vörn, sú að halda sig í kjölfari risastórra aðila, hugnast mér ekki. Hví ætti lítill, kvikur bátur að elta risaflutningaskip á röndum? Jafnvel þótt flutningaskipið sé fullt af stjóræningjum í afturbata?

Engin ummæli: