28. júní 2012

Óheilindi Stefáns Ólafssonar.Stefán Ólafsson fræðimaður er farinn að blogga. Hann leggur á það áherslu að hann sé óháður og ekki tengdur flokkum. Hann gengur vasklega fram við að afmá af sér Samfylkingar-stimpilinn með fyrstu færslunum sínum sem eru (í aldursröð) þessar:


 • Íslendingar eru aftur orðnir ein hamingjusamasta þjóð í heimi.
 • Samtök atvinnulífs eiga að auka kaupmátt.
 • Hjól atvinnulífsins eru farin að snúast.
 • Jóhanna gerði ekkert rangt.
 • Sigur ríkisstjórnarinnar yfir útgerðinni er sigur þjóðarinnar allrar.
 • Við hefðum betur samþykkt Icesave en vorum plötuð til að gera það ekki.


Því ber að fagna sérstalega þegar fræðimenn taka þátt í opinberri umræðu og reynast jafn mikið aðhald og Stefán greinilega ætlar sér að vera.

Það veitir ekki af fræðilegri, agaðri og markvissari umræðu í bloggheimum.

Nýjasta færslan, um Icesave, er skólabókardæmi um það hvað gerist þegar nákvæm, akademísk hugsun kryfur viðkvæmt umræðuefni og nær úr því kjarna sínum. Uppsetningin er aðdáunarverð. Fyrst koma fullyrðingar, svo innir höfundur sjálfan sig eftir rökum fyrir fullyrðingunum og loks koma rökin í skipulagðri röð.

Fullyrðingarnar eru þessar:

Þjóðin var blekkt af sumum andstæðingum Icesave-samninganna.
Forsetinn gerði stór mistök að vísa samningi III í þjóðaratkvæði.

Rökin eru þessi:


 • Kostnaður við samþykkt Icesave var stórlega ýktur af ónefndum stuðningsmönnum nei-sins.
 • Seðlabankinn tapaði meira en nam kostnaði við Icesave.
 • Ónefndir menn fengu þjóðina til að trúa því að nei myndi ekkert kosta.
 • Þeir sem voru á móti já-i lögðu okkur í stóra hættu.
 • Hannes Hólsteinn heldur að við töpum ESA-málinu.


Þetta eru ekki ónýt rök skal ég segja ykkur. Og handbragð hins þjálfaða akademíkers blasir við.

Og ekki það að ég treysti ekki rökum Stefáns, enda er hann þrautþjálfaður hugsuður sem kann alla bókfræðilega smásmygli sem til er – en þá vildi ég gjarnan fá nánari skýringu á örfáum atriðum.

#1 Hvernig kemur tap Seðlabankans ákvörðun ÓRG eða áróðri fyrir synjun samnings við? Hefði Seðlabankinn tapað minna ef við hefðum sagt já?

#2 Hvar kemur fram að þjóðin hafi trúað því að „nei“ myndi ekki kosta neitt? Hvaða málsmetandi menn héldu því fram með svo áberandi hætti að „þjóðin“ féll fyrir því?

#3 Eru það virkilega rök í málinu hvað Hannesi Hólmsteini finnst?

#4 Hver er þessi stórkostlega hætta sem við erum í og hvað þarf að gerast í viðbót við dóm í ESA-málinu til að hún verði að veruleika? Er möguleiki að hún sé ýkt?

Ég reikna ekki með að Stefán svari ómerkilega mér – en það væri þá gaman að þeir sem betur eru að sér en ég bendi mér á svörin.

Engin ummæli: