28. júní 2012

Þrjú andlit IcesaveÞað er mikill misskilningur í gangi varðandi Icesave. Það gera sér fæstur grein fyrir því að um þrjú aðskilin mál er að ræða. Þetta er ekki eitt mál sem liggur fyrir dómi og mun enda með skýrri sekt eða sakleysi.

Í fyrsta lagi snýst þetta um hvort Ísland hafi innleitt tilskipun um innistæðutryggingar með réttum hætti, sér í lagi í ljósi þess að þegar á reyndi var ekki nóg í tryggingarsjóðnum til að greiða lágmarkstryggingu.

Í öðru lagi snýst þetta um hvort Bretar og Hollendingar hafi getað gert kröfu á að íslenska ríkið yrði aðili að lánssamningi sem gerður yrði við innstæðutryggingarsjóð – og að íslenska ríkið myndi greiða af láninu vexti með skattfé en ekki eignum bankanna.

Í þriðja lagi snýst þetta um hvort íslenska ríkinu hafi verið heimilt að tryggja íslenskar innistæður til fulls en ekki erlendar í sömu bönkum í viðleitni til að bjarga bankakerfinu frá hruni.


Um hvert og eitt atriði er þetta að segja:

Tryggingarsjóður innistæðna átti að vera á kostnað bankanna. Ríkinu bar bara skylda til að sjá til þess að slíkur sjóður væri til staðar. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heldur því fram að það sé ekki nóg (stofnunin gerði aldrei athugasemd við sjóðinn fyrir hrun) heldur að ríkinu hafi borið að sjá til þess að hér væri sjóður sem gæti greitt lágmarkstryggingu innan tiltekins tíma frá hruni banka. Það væri ríkisins að sjá til þess að það tækist með einhverjum hætti.

Bretar og Hollendingar buðu sjóðnum lán (sem íslensk lög heimiluðu) en gerðu það að kröfu að lánið yrði ríkistryggt. Og þótt að höfuðstóll lánsins yrði endurgreiddur með eigum þrotabúsins þá sat íslenska ríkið uppi með tugmilljarða vaxtakostnað sem kæmi af skattfé. Í tveim þjóðaratkvæðagreiðslum hafnaði löggjafarvaldið framkvæmdavaldinu um heimild til slíkra samninga.

Bretar og Hollendingar gerðu engar kröfur á frekari greiðslur vegna þess að ríkisstjórnin hafi ákveðið að tryggja íslenskar innistæður (Bretar notuðu það reyndar sem átyllu til að setja hryðjuverkalög á Landsbankann). En það hefur verið láta í veðri vaka að mótþrói við að samþykkja lánaskilmálana geti orðið til þess að Bretar og Hollendingar auki kröfur sínar í refsingarskyni.

Loks til umhugsunar:

Hnútur deilunnar er aðeins einn: Hin tapaða þjóðaratkvæðagreiðsla. Í henni fólst afstaða sem kvað á um að skattfé mætti ekki leggja að veði fyrir hugsanlega glataðar innistæður fallins banka auk þess sem vextir af láni sem veitt væri tryggingarsjóði fjármálafyrirtækja ættu ekki að greiðast af skattfé.

Bretar og Hollendingar hefðu hæglega, eftir sem áður, getað gert lánasamning við tryggingarsjóðinn. En krafa þeirra um ríkisábyrgð var ósveigjanleg.

Vandinn er að dómsmálið sem nú stendur yfir tekur ekki á því deilumáli. Þar er ekki verið að taka afstöðu til þess hvort ríkið hefði átt að samþykkja kröfur Breta og Hollendinga. Þar er aðeins verið að taka afstöðu til þess hvort ríkið hefði átt að sjá til þess að innistæður hefðu verið tiltækar innan ákveðins tíma.

Það hvort krafa Breta og Hollendinga hafi þar með orðið bindandi fyrir Ísland er mál sem þarf að leysa fyrir allt öðrum dómstóli og á allt öðrum forsendum.

Engin ummæli: