29. júní 2012

Spennan milli landsbyggðar og höfuðborgarÞað eina sem forsetaframbjóðendur þorðu að vera sammála um í síðustu kappræðum var að hér á landi ríkti spenna milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Þessa gjá þyrfti að brúa.

Ég held þetta sé ekki alveg rétt. Ég veit að það sem ég skrifa núna kann að móðga einhverja vina minna – en só bí it.

Spennan er ekki einskorðuð við landsbyggð og höfuðborgarsvæðið. Því miður er komin upp sú staða að tiltekinn „stétt“ eða samfélagshópur er að greina sig með sífellt meira áberandi hætti frá stórum hluta þjóðarinnar. Í þessum hópi er ágætlega menntað fólk sem flest býr vissulega á höfuðborgarsvæðinu (þótt margir búi reyndar í útlöndum). Og þótt þessi hópur hafi margt til síns ágætis þá er ekki hægt að neita því að hann hefur á síðustu misserum orðið verulega hrokafullur í garð annarra. Í stað þess að viðurkenna skoðanaágreining eða önnur sjónarmið – þá skrifast allur skoðanamunur á heimóttarskap og heimsku.

Í augum þessa hóps eru Vaðlaheiðargöng algjörlega óþarft bruðl, mótmæli gegn breytingum á kvótakerfinu eru örvæntingarlaust sprikl viljalausra strengjabrúða, atkvæði greitt ÓRG er merki um þjóðrembu, heimsku eða hrekkleysi, andstaða við Icesave-samninga afleiðing af skilningsleysi o.s.frv.

Það er ekki tilviljun að þessi áberandi (sérstaklega á netinu) og á tíðum háværi hópur tapar hverju einasta baráttumáli. En hvert einasta „tap“ festir í sessi þá skoðun hópsins að þjóðin sé heimsk, illa menntuð og fávís. Og upp á síðkastið hafa menn jafnvel dregið fram tölfræði sem á að sanna að skoðanamunur stafi af menntunarskorti „hinna.“

Það er misskilningur að hér sé um að ræða gjá milli höfuðborgar og landsbyggðar. Sá klofningur er tilfallandi. Fordómar þessa hrokafulla hóps eru ekki minni gagnvart ákveðnum hópum innan höfuðborgarinnar – og jafnvel íbúum tiltekinna hverfa.

Staðreyndin er sú að jafnvel þótt kunni að vera að í þessum hrokafulla hópi sé ágætlega menntað fólk með talsverða yfirburði í að tjá sig skriflega á netinu – þá er staðreyndin sú að þessi formlega menntun og þessi hæfni til tjáningar hefur ekki gert þetta fólk neitt betra að neinu leyti sem skiptir einhverju máli. Mannbætandi áhrif menntunar eru stórkostlega ofmetin. Skynsemi, sið- og hyggjuvit þeirra sem hafa hlotið litla formlega menntun er stórlega vanmetin.

Þessi klofningur er algjörlega óþarfur. Og hann er knúinn áfram af óþarfa skítkasti og meiningum. Ég benti gamla ritstjóranum, Jónasi Kristjánssyni, á það um daginn að það væri þreytandi að lesa færslu eftir færslu á síðu hans þar sem hann kallaði stóran hluta þjóðarinnar fífl og fávita í annarri hverri línu.

Honum var nákvæmlega sama.

Þannig leikur hrokinn mann.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi greining er röng. Það er engin spenna á milli menntastéttarinnar og hinna sem minni menntun hafa. Spennan er á milli hagsmunahópanna, sem vald hafa yfir fjármagninu og hinna sem rétt komast af, sem er stærri hópur en marga grunar. En það versta að sá hópur sem “hefur”, hefur minnkað miðað við heildina. Hin svokallaða “millistétt” hefur minnkað. Þetta sú þróun sem orðið hefur fyrir vestan haf, hjá Kananum. Við erum nefnilega í mörgu líkir Kananum. “Big is beautiful”, hávaði og stælar þeirra sem peninga hafa. Annars hefur menntun verið vanmetinn hér á klakanum, oft talin óþörf. Því voru vanhæfir menn settir í krefjandi störf hjá ríki og sveit, enginn hafði stórar áhyggjur af því, þetta hafði alltaf reddast. Svo gerðist eitthvað óvænt, það verður hrun og vanhæfni þeirra sem ábyrgð báru og áttu að takast á við vandann var algjör. Og hvað hrokann varðar, finnst mér hann mestur hjá þeim sem litla menntun hafa, en samt auðugir.

Haukur Kristinsson

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir innleggið, Haukur.

Ég er sammála þér um mikilvægi menntunar en stend við það að hún geri menn ekki endilega að betri mönnum. Og ég er líka sammála því að það sé spenna milli hagsmunahópa. En hún ein og sér skýrir ekki klofning í icesave, forsetakosningum, sjávarútvegs- og samgöngumálum.

Er það nokkuð?

Nafnlaus sagði...

Ragnar Þór, þú ert með flottan pistil um kennslu rétt áðan. “Ekki breyta neinu”. Hef alltaf borið mikla virðingu fyrir góðum kennurum, en ég átti því láni að fagna að hafa frábæra kennara í MA í sínum tíma.
“Góð” menntun hlýtur að gera flesta að betri og vísari mönnum, eins og kynni af góðu fólki er mannbætandi í alla staði. Hinsvegar eru til manneskjur, svo góðar og kærleiksríkar frá nátturunnar hendi, að ekki verður lengra komist.
Icesave málið fór ílla með þjóðina og hefur verið notað sem vopn í baráttunni um völdin hér á skerinu. Eftir Icesave áttuðu menn sig á þeim mikla óheiðarleika sem að baki stóð og skömmuðust sín. En í stað þess að biðjast afsökunar og viðurkenna mistökin fóru flestir í þvermóðskugírinn og sögðust ekki borga skuldir óreiðumann. Innantómur frasi, víst kominn frá ömmu Dabba. Auðvitað gengur það ekki að láta íslenska banka stunda þjófnað á spariféi erlendra borgara og það allt í skjóli stjórnsýslunnar. Það gengur bara ekki. Period. Um slíka hlutu verður að semja.

Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hver þú ert en mér finnst þetta frábær greining hjá þér. Er einmitt búinn að vera að hugsa það sama undanfarið.
Ég er klárlega í þessum minnihluta sem þú talar um, kaus já í Icesave, er á móti Vaðlaheiðargöngum og Ólafi Ragnari og alles. Og já, í hvert einasta skipti sem mitt sjónarmið "tapar" upplifi ég meirihlutann sem heimskan og óupplýstan.
Það er hins vegar eðli lýðræðisins að meirihlutinn ræður. Ég er á þeirri skoðun að við í þessum andstæðu hreyfingum þurfum að tala meira saman og átta okkur á því að við erum ein þjóð.

Svanur Sig sagði...

Sæll Ragnar Þór. Ég er sammála þér í því að það er ekki eins mikill munur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og menn hafa sagt vera. T.d. var aðeins um 5% munur í heild á stuðningsmönnum ÓRG og Þóru í heild eftir þessum svæðum, en Suðurland skar sig þó talsvert úr með um 10% mun miðað við höfuðborgina. Þessi munur gæti líka skýrst af lang mesti leyti af mismunandi menntunarstigi landsbyggðarfólks og höfuðborgarfólks. Það var sláandi mikill munur í heild yfir landið hversu mikið fleiri með háskólamenntun kusu þóru en Ólaf Ragnar, en með framhalds- eða grunnskólamenntun.

Þú nefnir síðan "hrokafulla" penna á meðal menntafólks, en það er líka hroki á hinn veginn. Þeir virka jafnan hrokafullir sem fastir á sínu í augum fólks á öndverðu meiði. Það er afar lítið með því fengið að tala um hroka.

Svo segir þú: "þá er staðreyndin sú að þessi formlega menntun og þessi hæfni til tjáningar hefur ekki gert þetta fólk neitt betra að neinu leyti sem skiptir einhverju máli. Mannbætandi áhrif menntunar eru stórkostlega ofmetin" Það er ákaflega erfitt að meta hvað þú ert að segja hér. Það er svo margt sem bætir manneskjur, en ef að þú ert að tala um siðferði fyrst og fremst þá er þessi fullyrðing þín jafn marklaus og ef að ég myndi fullyrða á móti hið gagnstæða án þess að færa fyrir nokkur gögn. Svo er líka sá möguleiki að háskólamenntað fólk hafi verið siðferðislega fremra því fólki sem minna er menntað (að meðaltali)áður en það hóf nám. Það veljist því frekar til háskólanáms. Þetta eru bara pælingar og það þarf að skoða hvað rannsóknir á þessu hafa leitt í ljós. Til þess hef ég ekki tíma nú.

Ég hef áhyggjur af þessum mismnun skoðana fólks eftir menntunarstigi. Það getur leitt til spennu milli hópanna og sundurlyndis. Maður hefur séð það nú þegar t.d. í síðustu Alþingiskosningum þar sem talað var niðrandi um "cafe latte" súpandi fólk í Miðbænum og "sérfræðielítu" sem væri með einhverja frekju. Svona tal hafði ég aldrei heyrt áður (er 47 ára). Hvert þetta leiðir veit ég ekki en mér finnst það ekki jákvætt.