10. júní 2012

Ógeðslegt Alþingi

Það ríkir mjög djúp og alvarleg stjórnmálakreppa á Íslandi sem fær ekki þá athygli sem hún ætti að fá vegna þess að fólk getur ekki haft augun af baráttunni um Bessastaði. Stjórnkerfi landsins er eins og stíflaður vaskur með lekum blöndunartækjum. Við slíkar aðstæður væri óttalega óskilvirkt að eyða öllu púðrinu í að ræða hlutverk yfirfallsins.Lengi vel var það skemmtiefni í fréttatímum þegar útlenskir þingmenn slógust í þingsölum.

Sorrí, en við erum bara ekki svo fjarri nákvæmlega því.

Þingmaður kemur í pontu og lýgur því að annar sé fullur. Lendir í framhaldinu í ónáð og er hunsaður. Vælir yfir því og segir að hann ætti ekki að vera í ónáð því annar þingmaður sé ennþá meira fífl.

Þetta er ógeðslegt og skammarlegt.

Ég skammast mín virkilega heitt fyrir Alþingi Íslendinga. Mér finnst ömurlegt að það skuli vera svona plagað af ósiðum, óheiðarleika og fyrirlitlegri hegðun.

Starfshættir á Alþingi hafa breytt fjöldanum öllum af venjulegu, hæfileikaríku og fjölbreyttu fólki í gagnslitlar smásálir sem gera nákvæmlega ekkert gagn.

Má ég benda enn einu sinni á stjórnlagaráð? Þar bauð sig fram fólk sem sumt hafði ríkra hagsmuna að gæta. Því var ætlað að taka að sér verk sem Alþingi hefur aldrei ráðið við.Framanaf lofaði ekki góðu. Menn einokuðu hljóðnemann, létu á sér bera, voru taugaóstyrkir og einþykkir. Svo tóku menn sig á. Áttuðu sig á að það þarf aðeins tvennt til:

Virðingu fyrir manneskjunni og hæfileikum hennar

og

virðingu fyrir viðfangsefninu.


Með því að starfa í anda gagnkvæmrar virðingar og vinsemdar tókst ráðinu að semja drög að stjórnarskrá sem allir gátu á endanum samþykkt (þótt það væri tæpt undir lokin).

Á Alþingi Íslendinga er allt vaðandi í fyrirlitningu á málum og manneskjum. Stofnunin er ógeðsleg forarvilpa, þjóðarskömm.

Og allir kenna öllum öðrum um. Enginn getur brotið odd af oflæti sínu og gengið fram með góðu fordæmi. Talað um pólitíska andstæðinga af virðingu. Tekið sanngjarna og hófsama afstöðu gagnvart stefnumálum annarra.

Sá sem virkar herskáastur er kosinn leiðtogi og svo dansa aðrir í strengjum hans.

Ég legg til að almenningur hætti eitt augnablik að einbeita sér að yfirfallinu á Bessastöðum og setji ábyrgðina þar sem hún á heima. Að við hættum öll í smástund að styðja okkar „flokk“ eða okkar „fólk“ og gerum þá kröfu á alla að þeir komi fram af virðingu við menn og málefni. Að allir þingmenn, hver einn og einasti leggi sitt af mörkum til að auka veg og virðingu þjóðþingsins okkar.

Og að við einsetjum okkur að kjósa ekki aftur þá sem ekki geta látið af hráskinnaleiknum og ómennskunni – en að við tökum það að okkur, hvar sem við stöndum í flokki, að veita því athygli sem vel er gert. Að við hrósum þeim sem hrós eiga skilið – þótt þeir séu í röngum flokki.

Við getum ekki látið þetta viðgangast áfram.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef þetta einskorðaðist við Alþingi. Sá hluti almennings sem viðrar skoðanir opinberlega er litlu skárri. Skotgrafahernaðurinn er fullkominn. Allt sem finna má að hjá hinu liðinu veldur stórfenglegri hneykslan og rússíbanareið tilfinninga á meðan samskonar gallar í eigin liði fljóta óséðir hjá.

Það er engin samræða og engin þekkingarleit. Skoðanir eru hærra skrifaðar en skilningur og þekking. Allir eiga að hafa skoðun og skoðun er hin æðsta dyggð. Og hvað með það þó hún sé byggð á sandi, þú færð alltaf klapp á kollinn hjá þínu liði. Og hinir eru vitleysingar hvort eð er svo hverjum er ekki sama hvað þeim finnst.

Voff voff.

Nafnlaus sagði...

Það er langt í land elskan mín.

Langar að laumast hér með dæmi um hversu staðan er slæm: Dætur Páls Magnússonar og Illuga Jökulssonar fá flottustu djobbin sem allt ungt fólk langar í en á ekki sjens, því pabbar þeirra eru ekki í klíkunni. Hvaða klíku segir þú? Nú elítunni þeirri sem vegna flokks- og/eða fjölskyldutengsla eiga vini í fyrirtækinu eða í stjórnmálunum sem geta hringt og kallað inn greiða. (ég klóra þér á bakinu og þú mér aðferðin)

Illugi talar fyrir réttlæti og var að smíða nýja stjórnarskrá sem á að vera til höfuðs spillingunni. En svo hreykir hann sér af því að dóttir hans er komin í vinnu í helsta fjölmiðli landsins þar sem hún er farin að lesa fréttir. Margir óskuðu honum opinberlega til hamingju og fannst þetta allt í fína.

Auðskilið er að pabbi vilji hjálpa dóttur sinni í starf sem hún er líklega jafnhæf og margir aðrir til að gegna. Og hann hefur tengsl inn í vettvanginn. En að tilkynna stoltur fésbókarvinum sínum að þetta sé dóttir hans þýðir að honum finnst þetta bara allt í lagi þó að allir lesendur og hlustendur viti að þetta þýðir að einn af helstu álitsgjöfum þjóðarinnar er kominn í "Business as usual".

Á tímum þar sem fólk þyrstir í réttlæti og sanngirni og leiðréttingu á spilltu samfélagi eykur þetta á vonleysi almennings sem veit að spillingin og klíkustarfið er eins og vatnið fyrir fiskinn. Flestir taka ekki eftir því nema náttúrulega þeir sem sækja um og eiga ekki séns. Og ekkert mun breytast því elítan sér um sína. Hinir geta étið það sem úti frýs.

Er þá einhver munur á Sjálfstæðisflokksmanninum Páli Magnússyni og kratanum Illuga Jökulssyni? Báðum finnst sjálfsagt að nota klíku til að börnin þeirra fái flottustu djobbin. En eiga þá þessar dætur að gjalda þess að eiga þessa feður? Nei, en þær eiga að fara í gegnum sama ferli og aðrir umsækjendur (vonandi var staðan auglýst) og vera metnar eftir sama hæfnismati.

Er þetta ástæðan fyrir því að illa gengur að ná fram jafnrétti kynjanna. Frægu pabbarnir leggja ekki á sig að berjast fyrir jafnrétti kynjanna, sem eðlilegt væri þegar kröftugir karlar fara að ala upp dætur og vilja bæta þjóðfélagið svo afkomendur upplifi sanngirni. En dætur þeirra munu aldrei gjalda þess að vera konur því pabbarnir redda málunum. En þær gjalda þess auðvitað að hafa ekki fengið að berjast fyrir stöðu sinni á jafnréttisgrunni og missa þar af þeim þroska sem fæst við það að þurfa að berjast fyrir sínu, komast í gegnum mótlæti, mennta sig og verða fullorðinn á eigin forsendum. Í stað þess að færa áfram úrelt og ósanngjörn gildi pabba áfram til nýrra kynslóða.

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr, mikið ofboðslega er ég sammála þessari grein. Vona að íslendingar taki sig saman og sendi skilaboð til þingsins með því að mæta ekki á kjörstað !! Þessu verður að linna.