Mér er minnisstæð lýsing í einni af ritgerðum Þorsteins heitins Gylfasonar þar sem hann heimsótti skóverksmiðju í Tékklandi. Í verksmiðjunni höfðu áður verið framleiddir vandaðir skór en nú var þar allt í niðurníslu og framleiðslan óttalegt hrat. Þar sem Þorsteinn var leiddur um verksmiðjuna lutu starfsmenn höfði þegar hann nálgaðist. Fyrst hélt hann að um væri að ræða venjulegan þrælsótta en sá svo að þeir voru að skoða skó gestanna. Því þótt starfsmennirnir hefðu ekki fengið að gera góða skó árum saman þá lifði með þeim áhuginn á vönduðum skóm.
Þessi saga kom upp í kollinn á mér einn af síðustu dögum skólaársins. Við höfðum fengið í heimsókn hóp af kennurum frá Bretlandi. Flestir voru þeir frá fínum einkaskóla. Þeir fylgdust með okkur í Norðlingaskóla dögum saman og margt kom þeim framandi fyrir sjónir. Einn morguninn fóru þeir með út í Björnslund, útikennslustofuna okkar, í íslenskupróf. „Prófið“ var larp, Hungurleikalarp. Nemendur gátu svo fengið stig fyrir að yrkja ljóð eða flytja texta af námsskránni – og ýmislegt fleira.
Margt smálegt kom Bretunum skringilega fyrir sjónir. Það eitt að við afhentum nemendum, sérstaklega þeim „ofvirkustu,“ hnífa og eldfæri þótti þeim ótrúleg djörfung. Það að sjá stelpuhópinn dreifast um skóginn á æðisgengnum flótta undan drengjunum, ná svo áttum og sameinast í einn hóp sem elti uppi og „myrti“ drengina einn eða tvo í einu – þótti þeim stórkostlegt (einkaskólinn breski var drengjaskóli).
Daginn eftir komu þau með fleiri gesti. Þann dag vildi svo til að ég var að mála með nemendum. Við klæddum okkur í svarta ruslapoka, settum upp trönur og máluðum svo í takt við tónlist, allt frá kínverskri kvöldballöðu upp í þetta. Á snörpustu köflunum söfnuðust nemendur í einn hnapp eins og grísir við gyltu og ég sprautaði yfir hendur þeirra málningu í æðisgengnum ham. Ég þurfti svo að eyða eftirmiðdeginum í að reyna að leysa upp málningarbletti af hellulögninni – en eitthvað verður þar áfram til varandi minningar.
Bretarnir höfnuðu góðu boði um að koma með í siglingu á Bugðu. Lögðu ekki í það og misstu þar af hressandi kennslu. Þar örmögnuðust drengir og bátana þeirra rak stjórnlaust út á Elliðavatn. Einn bátur þurfti að glíma við liðhlaupa sem stökk í land í örvæntingu. En svo skein sólin og það lægði og bátarnir sem á eftir komu lónuðu úti fyrir víkum og vogum og allt var gott. Auðvitað duttu sumir í vatnið eins og gengur – en enginn kvartaði.
Nema hvað, þegar ég hélt að Bretarnir væru farnir kom aldursforseti þeirra hlaupandi til mín. Nokkuð flaumósa. Ég var einmitt að skrúbba málningarbletti. Hann tók mjög fast í hönd mína og sagði: „Ekki breyta neinu. Gerðu það fyrir mig. Ef skólaeftirlitsfólkið kemur og segir ykkur að breyta skólanum skuluð þið bara...“ og svo sýndi hann mér tveggja fingra merkið sem ég átti að sýna eftirlitsmönnunum.
Þessi gamli kennari sagðist hafa upplifað meira lífsfjör og meiri unað af kennslustarfinu á þessum nokkru dögum en í mörg ár á undan. Samt kom hann úr skólaumhverfi þar sem nemendur náðu mjög háum einkunnum, voru agaðir og duglegir. En nám er bara svo miklu meira. Alvöru nám er þróttmikið, skemmtilegt og reynir á. Það á sér ekki stað bograndi yfir bókum í þröngum loftlitlum kennslustofum.
Næstum hver einasti kennari sem ég hitti veit hvernig á að kenna vel. Næstum hver einasti kennari vill kenna vel og ber virðingu fyrir góðri kennslu. Næstum hver einasti kennari veit að við erum ekki að kenna nógu vel.
Fyrir því eru vafalaust margar ástæður – en ég legg til að kennarar reyni markvisst að gera kennslu sína háskalegri og subbulegri. Þá er margt unnið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli