22. júní 2012

Áróðursfrí

Þetta verður mín síðasta færsla um forsetakosningarnar fram að þeim. Það er vika í kosningar og mér finnst ágætt að gefa fólki frí frá áróðri síðustu dagana í þeirri trú að fólk þurfi næði frá fólki eins og mér til að gera upp hug sinn. Mig langar bara að enda á því að draga saman nokkrar tilvitnanir úr því sem ég hef skrifað um baráttuna hingað til – líka til gamans fyrir mig. Það er fróðlegt að sjá hvað maður hugsaði á hverjum tímapunkti og hvað reyndist rétt og hvað rangt. Ég virðist helst hafa ofmetið framboð Herdísar. Því þótt það hafi verið Þóru skaðlegt með því að Herdís bakkaði ÓRG alltaf upp í kappræðunum sem lét Þóru líta illa út þá fékk Herdís ekki af því mjög mikið fylgi. Þótti of lík ÓRG, of frek eða of erfið (t.d. með því að skera sig ítrekað frá hópnum vegna smámála). En ég sá heldur ekki fyrir framboð Ara Trausta. Það gæti á endanum verið fylgið sem upp á vantaði fyrir Þóru.

Annað er nokkuð eftir bókinni held ég.

Nema hvað, here goes:

4ði mars

Ólafur Ragnar Grímsson býður sig fram aftur. Mjög margir mega ekki til þess hugsa. Aðrir fyllast eldmóði við tilhugsunina um að hann tapi kosningum og fari þar með í sögubækurnar sem forsetinn sem lýðskrumaði fyrir stundarhylli en dró forsetaembættið inn í pólitík andstætt vilja þjóðarinnar. Sigur hans í kosningunum tryggir endanlega að hann muni fara í sömu bækur sem forsetinn sem stóð með þjóð sinni og naut hylli þegar stjórnmálin glötuðu trausti. Því naumari sem sigur hans yrði, þeim mun líklegra að orrahríðin haldi áfram.
[...]
Það sem gerir þetta enn pólitískara er að mótframbjóðandi ÓRG verður að njóta stuðnings margra aðila. Það þýðir ekki að fram komi margir aðilar, hver með sitt bakland. Þannig munu atkvæði dreifast og ekki koma í veg fyrir skrið ÓRG. Það er því alveg ljóst að mjög margir munu þurfa að sameinast um einn frambjóðanda – sem þeir jafnvel hafa ekki endilega brennandi áhuga á að fá á Bessarstaði – en standa þétt við bakið á til að reyna að stöðva ÓRG 
[...]
Sjálfstæðismenn munu að sjálfsögðu vera hlutlausir að mestu. Vitandi það að ÓRG segist ætla að hætta þegar „pólitískur stöðugleiki“ kemst á. Sem í augum þeirra merkir þegar núverandi ríkisstjórn er komin frá og ESB-umsókn hefur verið hafnað. Sjálfstæðismenn vita að vera ÓRG á Bessastöðum veitir núverandi ríkisstjórn skráveifur og að sigur hans í kosningum myndi magna upp andúð á SJS og JS. Þeir munu því dunda sér við það á bak við tjöldin að munstra upp næsta frambjóðanda. Þann sem tekur slaginn eftir 2-4 ár þegar búið verður að undirbúa framboðið af slíkum krafti að sundurlynd vinstri öfl munu ekki geta boðið annan betri – sérstaklega ekki eftir að hafa kastað fram frambjóðanda í fljótheitum til höfuðs ÓRG nú. 
Það er þessvegna nauðsynlegt að fram komi einn, og aðeins einn, frambjóðandi sem óvinir ÓRG geta sameinast um. Sá frambjóðandi verður að virka (a.m.k. á yfirborðinu) ótengdur stjórnvöldum (svona að mestu). Hann verður að hafa eitthvað til að bera sem menn geta notað sem átyllu til að kjósa viðkomandi. 

Af þessum ástæðum er augljóst að þessi frambjóðandi verður að vera kvenkyns. Þá getur a.m.k. einhver hluti þjóðarinnar trúað því að kynferðið ráði atkvæðinu. Þessi kona má samt ekki vera of mikill kvenréttindafrömuður. Hún má samt ekki vera skaplaus lydda. 

Það verður að teljast líklegast að fyrst verði farin blysför til Salvarar Nordal. Hún á fáa náttúrulega óvini og hefur sýnt það upp á síðkastið að hún hafi skap. Þessi gamli rökfræðikennari minn er líklega sú eina sem á þessum tímapunkti getur safnað nægu fylgi gegn ÓRG til að eiga séns.
[...]

 Eitt þykir mér þó miður. Það er hroki sumra sem tala eins og stuðningsmenn ÓRG séu allt kjánar, gott ef ekki keðjureykjandi vitleysingar í krumpugöllum sem hlusta á Útvarp Sögu og eru ginnkeyptir fyrir skrumi. Einn gekk svo langt að kalla andstæðinga forsetans betri hluta þjóðarinnar. Þessi rembingur er heldur ógeðfelldur - og þeim mun ógeðslegri sem hrokabelgirnir þykjast heilagri í leit sinni að betra sameiningartákni þjóðarinnar.

6ti mars

Mótframboð gegn ÓRG mun ekki við svo búið eiga sér lýðræðislega rót. Það verður útilokað að túlka það sem andóf almennings gegn mikilmennskubrjáluðum Forseta sem þekkir ekki sinn vitjunartíma. Ef Þóra Arnórs eða Stefán Jón fara fram mun það alltaf vera túlkað sem spuni. Spuni frekar lítils hóps Evrópusinna. 

Og það er alls ekki víst að hann komist einu sinni nálægt því að virka. Þóra Arnórs hikar. Örugglega vegna þess að hún er í starfi sem samrýmist ekki framboði og þarf því að stíga til hliðar fyrir verulega óvissan ávinning. Auk þess er hún ólétt. 

Stefán Jón vilja sumir meina að væri betri kostur, þrátt fyrir þann augljósa ókost að vera beintengdur stjórnmálalegum óvinum ÓRG og núverandi valdhöfum. Virðist það byggja á einhverri hugmynd um að hann muni eiga roð í ÓRG í kappræðum (af því hann er karl?) og að hann sér djúpur hugsuður og mannvinur (af því hann vinnur í Afríku).

25ti mars


Of lítið - of seint. 

Ég lýsti því yfir hér fyrir allnokkru síðan að ég vildi sjá Pál Skúlason sem næsta forseta. Það virðist úr sögunni núna. Mér þykir það miður. Ég vildi svo gjarnan fá forseta sem ljær embættinu meiri dýpt - sem hefur hugsjón fyrir hlutverki þess, lýðræðinu og er meðvitaður um þær ógnir og hættur sem samfélagið stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Og hefur trú á þeim möguleikum sem hið sama samfélag hefur í greip sinni ef það kærir sig um. 


Sumir hafa meira að segja haldið því fram að ÓRG sé huglaust egósentrískt flón sem muni lyppast niður fái hann mótframboð. Aðrir halda því fram að forseti með 1/3 fylgi geti aldrei talist sameiningartákn. 

Maður þarf að vera illa haldinn af óskhyggju til að halda að ÓRG muni bakka út ef Þóra Arnórs býður sig fram. Það er svo fráleit hugmynd að maður hlýtur að halda að sá sem trúir því í einlægni sé þar með búinn að sýna fram á að hann skilur enganveginn það sem hann er að rembast við að hafa sterkar skoðanir á. Og það að þriðjungur atkvæða sýni fram á sundurlyndi og vantraust er álíka óupplýst della. Vigdís Finnbogadóttir var kjörinn með slíkum fjölda atkvæða á sínum tíma. ÓRG var kjörinn með lítið meiri mun á sínum tíma. Það mun enginn frambjóðandi koma fram gegn ÓRG sem getur vænst þess að njóta meira fylgis en það í könnunum. Sá sem þykist sjá trúnaðarbrest milli þjóðar og frambjóðanda við þriðjung atkvæða mun ekki hræsnislaust geta bakkað upp frambjóðanda eins og Þóru með innan við helming þess fylgis án þess að glefsa í rassinn á sjálfum sér um leið. 

Verðugur frambjóðandi gegn ÓRG hefði þurft að koma fram fyrir löngu. Áður en þetta varð að örvæntingarfullu kappi þeirra sem vildu einhvern, bara einhvern, á Bessastaði. Staðan er nefnilega sú að það eru ekki mannkostir Þóru sem ráða för. Það er ekkert við hana, hugsjónir hennar eð ahugmyndir, hæfileika eða dygðir, sem kalla fram þessa blysför. Þeir sem hrópa nafn hennar gera það fyrst og fremst vegna þess að þeir telja hana meinlausa. Henni er ætlað að vera leppur í fínum kjól sem heldur vöffluboð og drekkur kókó úr mávastelli. 

4ði apríl
Þá virðist það vera að koma fram. Vinir Þóru Arnórs slúðra því að hún ætli í framboð. Næsta verk þeirra sem vilja ÓRG af Bessastöðum er að fá Herdísi Þorgeirs til að draga sitt framboð til baka. Það er ekki sama hvernig það er gert. En það er algjört grundvallaratriði. 

Styrkleiki framboðs Þóru er að ÓRG á mjög erfitt með að grípa til varna. Það verða helst einhverjir lítt þokkalegir gaurar sem halda merki hans á lofti – þeir sömu og kölluðu hann fram aftur – á meðan fjöldinn allur af fólki mun blása í lúðra fyrir Þóru. Það verður mjög einhliða kosningabarátta. 

[...]

En öflugt framboð Herdísar er skeinuhætt. Þá lendir framboð Þóru í ónauðsynlegum átökum sem spillir mynd þess óumdeilanlega og kjaftæðislausa – auk þess sem erfitt er að sjá annað en að Herdís sé a.m.k. jafnhæf og Þóra ef tekið er tillit til mannkosta. 

[...]

Sjálfstæðismenn munu flykkjast um ÓRG. Ríkisstjórnin er farin að taka ansi stórkallalegar ákvaranir og hikar ekki við að troða þeim í gegn. Sjávarútvegsmál munu tapast í þinginu en ekki er ólíklegt að með dálítilli vinnu sé hægt að fá almenning (sérstaklega í sjávarplássum) í baráttuham. Í því máli og fleirum álíka mun ríkisstjórnin fyrirsjáanlega koma sér fyrir við barma þeirrar gjár sem fræg er orðin að endemum. Þá vilja Sjálfstæðismenn hafa einhvern á Bessastöðum sem kann að segja nei.
 [...]

En þetta er skák. Þóra er nefnilega að bjóða sig fram í samhengi nýrrar stjórnarskrár en ekki núgildandi. Stjórnarskrár sem átti að kjósa um samhliða forsetakosningunum – en klúðraðist. Það mál mun því tefjast og þegar loks ný stjórnarskrá liggur fyrir og rjúfa þarf þing til að gera hana gilda þá er alls ekki víst að núverandi meirhluti hafi fylgi. Þóra getur hæglega lent í því að þurfa að fela Bjarna Ben stjórnarmyndunarumboðið án þess að ný stjórnarskrá taki gildi. Bjarni er svo alveg vís til að fara að „taka til“ eftir núverandi ríkisstjórn – sem felur í sér að mölva niður öll framfaramál núverandi ríkisstjórnar. Ef Samfylking og Vg tapa kosningum verða það höfuðlausir herir því Jóhanna og Steingrímur munu hverfa af sviðinu. Í framhaldi af því kemur pressa á forsetann að vera einmitt pólitískur og veita Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki (eða Samfylkingu) viðnám. 

Það er fyrst með nýrri stjórnarskrá sem hægt er að losa forsetann undan því að þurfa að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslur í óþökk valdhafa – með ákvæðum um lágmarksfjölda undirskrifta. Ný stjórnarskrá tekur ekki gildi án kosninga. Af augljósum ástæðum munu núverandi stjórnvöld vilja seinka þeim kosningum eins mikið og hægt er og klára fullt af erfiðum málum fyrst. Næsti forseti mun verða fyrir miklum þrýstingi vegna þeirra. Mjög líklega mun tímaþröng og hörkupólitík á þessu tímabili skapa nokkrar myndalegar gjár milli þings og þjóðar. Þá verða menn lítið sáttir með það að forsetinn virki sem skaplaus puntudúkka.

[...]

Þetta er alveg alvöru slagur. En það verður fróðlegt að sjá hvaða vinkil Þóra ætlar að taka. Hún verður að selja einhverja nálgun, útskýra erindi sitt í slaginn. Hvað vill hún gera? Hverju vill hún breyta? Það er ekki nóg að segjast vilja endurreisa virðingu embættisins eða gera það að sameiningartákni. Það má færa sannfærandi rök fyrir því að embættisfærslur ÓRG hafi komist mun nær því að sameina þjóðina en sundra henni. Hún má ekki koma fram sem eitthvað séríslenskt Stepford-víf. Fátt er ógeðfelldara þjóðinni – en fyrir hvern millimetra sem beinið vex fram í nefið á henni mun hún færast inn á vígvöll Herdísar. 

Spennandi tímar eru framundan. 
4ði apríl

Þóra Arnórs 1999 um það hvað hún ætli að verða þegar hún verður stór:
„Ég ætla að verða afbragðs móðir og húsmóðir, eilífðarstúdent og líklega forseti.“
6ti apríl
Framboð Þóru Arnórs má gagnrýna fyrir það að látið sé eins og það sé ópólitískt. Það er rammpólitískt. Þóra sjálf var einn af helstu hvatamönnum stofnunar Samfylkingarinnar og náinn samstarfsmaður núverandi og fyrrverandi ráðamanna í flokknum. Við þetta þurfa menn að kannast en samt hefur öllum vísunum í pólitískan feril Þóru verið sleppt hingað til í allri kynningu. Vegna þess að selja á fólki hugmyndina um að Þóra sé fulltrúi Nýja-Íslands og ÓRG þess gamla – þegar raunin er sú að þau eru bæði fulltrúar þess gamla á vissan hátt. 

Framboð hennar verður hinsvegar ekki gagnrýnt fyrir það að hún sé ung, móðir barna sinna eða dóttir föður síns.  

[...]

Það er í öllu falli sérlega ómaklegt að reyna að gefa til kynna að ætternið geri Þóru að gagnrýnilausum sósíalista. Ekkert getur verið fjær sannleikanum.

10di apríl

Minn æðsti draumur fyrir íslenska þjóð er að fram komi fólk sem vill kannski ekki endilega gera aðra hluti en þá sem fólk í flestum flokkum vill – heldur vill gera þá öðruvísi. Ég myndi alveg sætta mig við að búa í samfélagi sem kýs að fara aðra leið en ég teldi ákjósanlega ef við gætum komið okkur saman um sæmilega siðaðar leikreglur um það hvað verður ofan á. Þessi bakgarðsslagur sem hið „lýðræðislega“ fyrirkomulag hefur skilað okkur er í senn viðurstyggilegur og forheimskandi. Ég væri meira en til í að kjósa þingmann eða forseta sem væri ósammála mér um meginatriði – ef við gætum treyst á eðlilegt samtal okkar á milli; ráðamannsins og þjóðarinnar, ráðamanna innbyrðis og þjóðarinnar innbyrðis.

[...]

Ég ætla nú að kjósa ÓRG vegna þess að núverandi stjórnvöldum er þrátt fyrir allt ekki fyllilega treystandi. Þau hafa svikið fallega hugsjón um að hunskast nú til að skapa nýtt Ísland. Þau þykjast vera að því en aðfarirnar koma upp um þau. Þau eru í sama hráskinnaleiknum og hingað til hefur verið stundaður. 

Ég ætla að kjósa ÓRG vegna þess að ég hef óbeit á nánast öllum þingheimi og vil, reynslunnar vegna, hafa forseta sem vís er með að stöðva ofur-valdabrölt stjórnmálamanna sem komast í slíka aðstöðu. 

Forsetinn hefur mjög takmarkað vald. En Alþingi og forsetinn hafa gagnvirkt vald sem báðir aðilar geta beitt fari hinn freklega út fyrir valdsvið sitt. Það má sækja forseta til saka með sama hætti og ráðherra kjósi Alþingi það. Alþingi getur komið forseta frá sé það vilji þjóðarinnar. Með sama hætti getur forsetinn vísað lögum til þjóðarinnar.

[...]

Þið fyrirgefið, fyrir mér er það að skipta um forseta á þennan hátt dálítið eins og að halda upp á það, að sannanlega ótrú kærasta segist lofa að hætta að sofa hjá öllum sem henni dettur í hug, með því að hætta að nota smokk. Og kalla það til marks um nýja og betri tíma.
[...]

17di apríl

Þóra Arnórsdóttir reið ekki feitum hesti frá beinni línu á DV í kvöld. Hún sagðist líta á það sem hlutverk sitt að skapa samheldni og samhljóm við þjóðina og sátt milli forseta og stjórnmálaaflanna. Það væri orðið tímabært að horfa fram á veginn og hætta að horfa um öxl.

En þegar hún var innt eftir einhverju haldbæru, einhverjum skoðunum eða áherslum – þá var mjög fátt um svör – og langt á milli svara. Ég held að aldrei fyrr hafi sá „yfirheyrði“ tekið sér jafn langan umhugsunarfrest við hverja spurningu. Þegar Hildursvaraði fyrir „Karlar sem hata konur“ náði hún að svara tæplega 120 spurningum. Meðaltalið er um eða yfir 60 spurningar. Þóra svaraði ekki helmingnum af því. 

Og þeim spurningum sem hún svaraði, svaraði hún yfirleitt ekki. Ekki í raun:

Hún var spurð hverrar trúar hún væri. Svarið: „Ég er skírð og fermd innan þjóðkirkjunnar en er ekki í trúfélagi.“

Hún var ítrekað spurð um skoðanir sínar á hinum og þessum málum. Svörin alltaf: Ef málið er ekki á valdsviði forsetans er ekki við hæfi að forsetaframbjóðandi hafi skoðun á þeim.

Í ljósi þess að forsetinn er svotil alveg valdalaus þýðir þetta auðvitað að forseti með þetta viðhorf verður um leið skoðanalaus.
13di maí

ÓRG er stjórnmálalegur refur. Menn skyldu fara varlega í að afskrifa hann. Hann leggur af stað í kosningabaráttu einmitt þegar Þóra hefur skipað sínu liði að hætta baráttu í bili. Afleiðing af því er að þeir sem verða til að „svara“ eru fyrst og fremst hatursmenn hans, sem flestir eru innmúraðir í ríkisstjórnarflokkana (sem virkar til að styðja kenninguna um að Þóra sé leppur þeirra flokka). 

Hann fer fram undir slagorðinu Ólafur og Dorrit. Til að hamra á öðrum veikleika Þóru. Sem er karlinn hennar. Honum er markvisst haldið úr umræðunni af hennar fólki. Auk þess dregur ÓRG Svavar inn í umræðuna aftur. 

Hann stekkur á kvótamálið. Og nýtir sér það að þeir einu sem eru alminlega sáttir við það eru nú þegar ekki að fara að kjósa hann, enda sama fólkið og myndar kjarnann sem styður ríkisstjórnina og hatar ÓRG. Hann lofar bæði þeim sem vilja ganga lengra og þeim sem vilja ganga skemur að þeir geti fengið þjóðaratkvæði ef ríkisstjórnin fer ekki að vilja þeirra.
Kosning forseta hefur oftar en ekki einkennst af örlitlu andófi. Kristján og Vigdís voru bæði kosin til að sýna ráðandi öflum puttann. Nú snýst baráttan um hvora kenninguna hægt er að selja frekar: 

Með því að kjósa Þóru ertu að veita ÓRG og öllu stjórnmálahyskinu sem hann er maríneraður af andóf. 

Með því að kjósa ÓRG ertu að veita gagnslausu, andlýðræðislegu Alþingi og fjórflokkunum sem þar ráða andóf. 

Til að geta selt hugmyndina um að tímabært sé að horfa fram á veginn og hætta að velta sér upp úr fortíðinni þarf sirka einn mánuð af stjórnmálalegum stöðugleika, kyrrð og ró. Og þar er enn ein kænska ÓRG. Hann stekkur fram um það bil sem ríkisstjórninn er að hefa blóðugt PR-stríð við útgerðarmenn, er að díla um stjórnarskrármálið og situr langa krísufundi um fjárlög á sama tíma og stjórnarandstaðan djölfast á þeim.

16di maí

Þótt það kunni að virka þversagnarkennt þá hentar það ÓRG eflaust ágætlega að mælast með aðeins minna fylgi en Þóra. Það kemur að einhverju leyti í veg fyrir að fólk, sem vel getur hugsað sér að kjósa einhvern annan frambjóðanda, en vill alls ekki Þóru láti eftir sér að velja annan kost. Einhverjir fyllast kappi við þennan litla mun sem er – og framboð ÓRG mun vera það langtilfinningaríkasta. Það er erfitt að finna nýja fleti á „horfum fram á veginn.“ 
[...]

ÓRG tekur vissulega áhættur en eina fólkið sem ég sé kvarta yfir þeim er fólk sem löngu er búið að gera það upp við sig að það ætli ekki að kjósa hann. Ég sé marga segja að nú hljóti ÓRG að hafa fælt frá sér fylgi – en ég hitti engan sem raunverulega hefur látið fælast. Ég hitti hinsvegar sífellt fleiri sem viðra grunsemdir um að hugsanlega sé eitthvað til í Samfylkingar-samsæriskenningunum um Þóru.
[...]
 
Við allt þetta fólk segi ég það sama: Mér dettur ekki til hugar eitt augnablik að Þóra Arnórs sé strengjabrúða eins né neins. Ég sé heldur ekki að það skipti nokkru máli hvort hún vill í ESB eða ekki. Mér er fyrirmunað að sjá að það skipti nokkru. En hitt er algjörlega óefað að nafn Þóru kom ekki upp úr potti vegna þess að hún er alþýðleg sjónvarpskona. Þeir sem komu nafni hennar á flot og stóðu að því að hún færi fram er fólk nátengt núverandi stjórnvöldum sem stakk upp á Þóru vegna þess að hún var talin „í réttu liði.“ 

Það hvort hún verður síðan þæg og góð (og í besta falli erfið Sjálfstæðisflokknum og Framsókn) nái hún kjöri er algjörlega óráðið. En frammistaða hennar á Beinni línu DV var vægast sagt óinspírerandi. 

Mig grunar að hún sé búin að toppa og þurfi eitthvað nýtt útspil eða nýja taktík til að standa af sér skriðþunga ÓRG. Þar dugar ekki að innmúraðir Samfylkingarmenn úthúði ÓRG og noti um hann ljót orð og andstyggilegan málflutning. Þeir hafa náð öllum þeim eyrum sem þeir munu ná. Nú þarf að ná til fleiri. 

Þetta verður spennandi. 

17di maí

ÓRG og nú Herdís Þorgeirsdóttir hafa kvartað yfir fréttaflutningi RÚV af forsetakosningunum. Þau virðast bæði telja að fréttastofan sé illa fær um að fjalla af hlutleysi um framboð innanbúðarmanneskjunnar Þóru. 

Ég hef fylgst æði náið með fréttaflutningi af baráttunni og get ekki séð að slík gagnrýni sé á sterkum rökum reist. Þóra og Svavar hafa bæði tekið sér leyfi frá störfum og fram að þeim degi sem Þóra bauð sig fram kom ekkert fram í störfum þeirra sem benti til þess að þau ætluðu í slaginn. 

Auðvitað hefur verið slagsíða á fréttaumfjöllun. En sú slagsíða hefur verið ÓRG í vil alveg eins og Þóru. Þau tvö fá alveg ofboðslega athygli – miklu meiri en mótframbjóðendurnir fá. Sem er áhyggjuefni í sjálfu sér. Því þótt það sé ekki hægt að ætlast til þess að fjölmiðlar sýni öllum frambjóðendum álíka áhuga (tala ekki um þegar bjánar eins og sprengjumaðurinn lýsa yfir framboði) þá vill maður trúa því að Ísland geti vel þolað það að „venjulegt“ fólk gæti komist til æðstu metorða, enda sé hin faglega innistæða selebbanna næsta lítil umfram manneskjuna á götunni.
Rúv hefur alls ekki staðið sig svo illa að mínu viti. Alls ekki raunar þegar haft er í huga hvað heiftin og þrýstingurinn úr „herbúðum“ ÞA og ÓRG er ofboðslegur.

1sti júní

Það virðist eitthvað vera að fjara undan framboði Þóru þessa dagana. Og það þrátt fyrir að gagnsóknin sé hafin. Hún hefur ekki verið að koma vel út í þau skipti sem hún hefur þurft að eiga samtal við fólk þótt ræðurnar sleppi alveg til. Bein lína á DV var fyrst, vitavonlaus. Fundurinn í Iðnó var ekki góður heldur. Og hún forðaði sér undan mjög beinum og afdráttarlausum spurningum – sem virkar eins og hugleysi eða óeinlægni. 

En aðalmistök Þóru eru þau að þú getur ekki farið með framboð til höfuðs öðru framboði án þess að hafa reiknað til enda hverra hagsmuna þú ert að gæta. Það hefur ekki tekist að fullu að selja almenningi vörunna: 

Atkvæði með Þóru er atkvæði gegn hrunöflunum og Gamla-Íslandi. 

Því þótt ÓRG sé vissulega rauður þráður í vaðmáli þess vonlausa Íslands sem allir vilja losna við þá er hann festur við fleiri þræði. Og almenningur sér stöðuna dálítið þessum augum: 

ÓRG er meiri ógn öflum innan Gamla-Íslands en hann er þrándur í götu þess nýja. 

Það sem framboð Þóru hefur klikkað á að gera er að gera annað tveggja (eða bæði):
Að sannfæra almenning um að þingræðið og stjórnarfarið nú sé á verulegan hátt frábrugðið því sem einkenndi Gamla-Ísland. 

Að sannfæra almenning um að Þóra hafi til að bera eitthvað sem einkenni Nýja-Ísland.
Í stað þess að selja Þóru sem ferska, nýja vöru. Eitthvað spennandi og nýtt hefur Þóra (væntanlega að boði ráðgjafa sinna) reynt að höfða til íhalds og gamaldagsöryggiskenndar. Í þeirri viðleitni hefur Þóra nefnt bæði Vigdísi og Kristján Eldjárn (reynt m.a.s. að líkja sér við V. ef hún mögulega getur) og talað mikið um þingræði og það stjórnarfar sem var við lýði.
Með þessu er Þóra leynt og ljóst að taka sér stöðu með Gamla-Íslandi eða Eld-Gamla-Íslandi.

[...]

En það er enn tími til stefnu. Ef Þóra ætlar að vinna þetta þarf hún að: 

Hætta að kvóta í gamla tíma og dauða forseta. 
Finna hvað það er sem hún færir Nýja-Íslandi og gera það sýnilegt.
Aðeins þannig á hún séns.
3ðji júní

Þóra dó dálítið í kappræðunum í kvöld og besta skammtímataktík hennar fólks er að beina allri, og ég meina allri, athyglinni á það hversu afleit dagskrárgerðin var. Það er alls engin þórðargleði í því að segja að Þóra var hræðilega léleg og kom einstaklega illa út á milli Herdísar og ÓRG. 

Nú mun eitthvað fylgi færast til Herdísar (sem stóð sig nokkuð vel í auðveldum aðstæðum) og hinna þriggja sem gengu út. Mest frá Þóru, kannski eitthvað frá ÓRG. En forskot ÓRG mun aukast. 

Þóra er búin að tapa þessu. Hún á engan séns í málefnin. Þar er valtað yfir hana aftur og aftur. Þess vegna mun þetta gerast næst: 

Ráðgjafar hennar munu segja: gleymdu málefnunum. Málefni eru leiðinleg. Láttu gamla liðið um að mala um þau. Við skulum setja stefnuna á unga fólkið og fólkið sem hvorteðer skilur ekki helminginn af því sem þau Herdís og ÓRG tala um. Tökum okkur stöðu með einfaldleikanum og ferskleikanum. Stillum okkur upp andspænis öllu þessu alvarlega, gáfaða fólki – sem er í raun hundleiðinlegt.

[...]

Þóra hefur engu að tapa lengur. Hún getur alveg treyst Gauki og kó til að poppa upp fjögurra vikna baráttu um ekki neitt. Það verður mörgum mikill léttir að geta tapað alvörugleðinni og mega viðurkenna að þeir skilja hvorki né hafa áhuga á öllum þessum þrætum um forsetaembættið. 

Væri ekki hægt að hafa svoltið gaman? Taka húmorinn og gleðina á þetta? Búa til sniðugt slagorð: „Já, Ísland“ eða „Til hamingju, Ísland!“ hefði verið fínt en er því miður frátekið. Mönnum leggst þá eitthvað annað til. Gera skemmtileg myndbönd. Jafnvel pínu inspæjerd bæ æsland. Ef þarf, búa til pínu áróður um hve Herdís og ÓRG séu gömul og leim.

 17di júní

ÓRG verður áfram forseti. Þóra Arnórs er enda markvisst farin að tapa með sæmd frekar en að vinna með öllum tiltækum ráðum. Andstæðingar ÓRG áttu enda fæstir nokkru sinni mikla samleið með Þóru. Hún var kölluð fram á sjónarsviðið og ákvað sjálf að fara ekki í drulluslag. Tala gegn öllu slíku. Á meðan stuðningsmenn hennar hafa margir staðið sveittir við að moka drullunni yfir sitjandi forseta. Það náðist aldrei samhljómur eða taktur milli framboðsins og stuðningsmanna þess. Kjarni stuðningsmanna var drifinn áfram af heift og hatri á persónu sitjandi forseta á meðan frambjóðandinn vildi ekki dæma. Stuðningsmenn Þóru hefði betur kallað fram Ara Trausta – hann á miklu meiri samleið með þeim.

20sti júní

Það er eitthvað skrítið við suma af ráðgjöfum Þóru og hennar risastóra kosningaráð. 
En það eru fótgönguliðarnir sem hafa spillt mest fyrir. Hörðustu stuðningsmenn Þóru hafa spillt ægilega fyrir henni með því að gefa öllu sem hún segir holan tón. 
Þóra vill ekki láta baráttuna snúast um persónu og verk ÓRG – en stuðningsmenn hennar tala um fátt annað. 
Þóra vill horfa til framtíðar – en stuðningsmenn hennar er í því að tala um fortíðina. 
Þóra vill vera glöð – en stuðningsmenn hennar eru afar reiðir. 
Það þarf ekki að lesa blogg af kappi til að sjá þetta ægilega misræmi á milli stefnu og strauma. Stuðningsmenn Þóru hafa verið algjör plága á feisbúkk vikum saman og hafa gert marga afhuga henni með neikvæðni, örvæntingu og endalausum áróðri. 
Þegar málflutningur þinn nær ekki einu sinni eyrum hörðustu stuðningsmanna þinna – hvernig í ósköpunum á þá að vera trúverðugt að þú getir leitt saman stríðandi fylkingar? 
Það er ekki hægt. 
Allt afhjúpar þetta aðeins eina blákalda staðreynd. Fyrir hinn háværa kjarna stuðningsmanna Þóru snerist þetta aldrei um að gera hana að forseta – heldur um að steypa ÓRG af stóli.

4 ummæli:

Guðmundur Hörður Guðmundsson sagði...

Fróðlegt. Ég velti þessum ummælum fyrir mér: ,,En ég sá heldur ekki fyrir framboð Ara Trausta. Það gæti á endanum verið fylgið sem upp á vantaði fyrir Þóru." Heldurðu að fylgi Ara myndi endilega fara allt yfir á Þóru ef hann væri ekki í framboði? Ég er ekki viss um það.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nei, alls ekki. Ég held raunar að úr því sem komið er myndu fleiri kjósa Ara Trausta ef Þóra drægi sig til baka en Þóru ef hún bakkaði. Ég meinti aðeins að kjarnafylgi ÓRG væri svo mikið og sterkt að tveir eða fleiri sannfærandi valkostir í einu myndu sjálfkrafa koma í veg fyrir tap ÓRG. Ég hélt það yrði Herdís miðað við stöðuna – en á endanum virðist það ætla að vera AT.

Það mun samt ábyggilega sópast fylgi að Þóru síðustu dagana. Pólitíski óróleikinn er úr sögunni í bili og massív söfnun í gangi. Það verður fróðlegt að sjá hvort það dugar gegn tilhneigingunni (sem ég held að sé að verða algeng) að kjósa "með hjartanu".

„Að kjósa með hjartanu“ er óformleg slagorð kosningabandalags Herdísar, Hannesar, Ara og Andreu. Og ef það hefði verið nýtt betur og fyrr hefði verið auðvelt að smyrja fylgi á þau fjögur í mótmælaskyni við tveggja turna talið.

Þetta er í öllu falli mjög spennandi ennþá.

Og ég skal viðurkenna að þótt ég hafi mjög skýrar skoðanir og ástæður til að kjósa ÓRG – þá hefur hvarflað sterklega að mér að „kjósa með hjartanu“ um næstu helgi.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þetta á að vera ..en Þóru ef HANN bakkaði, augljóslega.

Nafnlaus sagði...

Brilliant grein og fróðlegt að lesa "aftur í tímann" og þetta er málefnanlega fram sett - sem in itself er óskaplega hressandi.

Hef vísvitandi haldið mig utan þessa sirkuss fáránleikans sem mér hefur fundist þessi barátta vera. En ég sé ekki betur en að þú sért bara "spot-on" í þinni analýsu um framvinduna á hverjum tíma. Kannski er þessi þjóð bara svona fyrirsjáanleg. Ekkert mun, úr þessu, koma í veg fyrir að ÓRG verði forseti næstu árin - svo lengi af kjörtímabilinu sem "hans heilagleika" þóknast.

Um Þóru segi ég þetta, mig langaði að langa til að kjósa hana en það kom mjög fljótt í ljós að það myndi aldrei gerast, m.a. af þeim ástæðum sem þú nefnir.

Minn atkvæðaseðill fer því að öllum líkindum jafn auður í kassann og þegar ég tók við honum.


Sigrún Hjartardóttir