21. júní 2012

Það sem þjóðin getur þó sameinast um



Sumpart virðast forsetakosningarnar laða fram allt það versta við opinbera umræðu og ákvarðanatöku á Íslandi. Stuðningsmenn eru heiftúðugir, grimmir og einþykkir – og mikið er um neikvæðan áróður (og jafnvel hatursáróður á stundum). En ef vel er að gáð leynist í þessum kosningum nokkrir þræðir sem eru næsta óumdeilanlegir – þótt atvikin hagi því þannig til að enginn vill toga í annars spotta meðan menn eru stútfullir af persónulegri kergju.

Af Ólafi þarf þjóðin að læra að það er tímabært að stjórnvöld á landinu geri almenning upplýstan og ábyrgan í þátttöku stjórnmálanna. Að stór mál og umdeilanleg séu ekki barin með ofbeldi gegnum ákvarðanaferli, þvert á lýðræðislega hugsun en í skjóli formsatriði þingskapa. Almenningur vill og á að vera þátttakandi í lýðræðinu – og bera ábyrgð samkvæmt því.

Af Andreu má læra að framkvæmda- og löggjafarvaldið þarf virkt og öflugt aðhald. Saga þess er því miður þannig að því er ekki treystandi. Þetta aðhald getur komið frá forseta – og það er kannski nærtækast – en það getur líka komið frá kjósendum, almenningi. Það þarf að greiða götu almennra skoðana inn á Alþingi með einhverjum hætti.

Af Herdísi má þarf að nema þá mikilvægu lexíu að einhver óskilgreind valdaöfl ráða alltof miklu á landinu. Hvort sem það eru fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar eða fjármálaöfl þá er eitthvað bogið við samsetningu samfélagsgerðarinnar – þar sem fólk getur í krafti fjár eða tengsla stjórnað meira og minna allri umræðu og framvindu. Gegnsæi í eignarhaldi og fjármálum væri stórt framfaraskref – sem og mjög alvarleg og djúp hugsun um það í krafti hvers fólks kemst til áhrifa á landinu.

Af Þóru má læra að það er löngu tímabært að hætta að velta sér upp úr fortíð og húka úti í horni og „ala sorg sína“ eins og kerlingarnar segja. Það þarf kraft og drífandi. Ráðamenn eiga að vera hvetjandi, veita fólki innblástur í stað þess að vera peð í pólitísku þrátefli. Það þarf líka að leiða til áhrifa fólk af mismunandi aldursskeiðum, fjölskyldugerðum og bakgrunni – og brjóta niður andlega og veraldlega múra sem skapa einsleitni í íslenskum valdastrúktúr.

Af Ara má læra að þjóðin þarf að vera í miklu betri tengslum við landið sem hún býr í og náttúruna. Hún þarf að efla menntun og víðsýni og gefa gaum að fólki sem safnað hefur reynslu og er hófstillt í sinni. Ráðamenn eiga að taka að sér hlutverk umræðustjóra, þeirra sem leiða saman sjónarmið og hvetja þjóðina til að leggja í púkk. Safna reynslu almennings og bera á borð í opinberri umræðu – án fordóma og heiftar. Og að lýðræðinu stafi af því hætta þegar lýðræðislegir ferlar hætta að snúast um sannfæringu og málefni og fara að snúast um pragmatískar leikfléttur.


Af Hannesi þarf þjóðin að læra að leiðtogar hennar bíða í þúsunda tali úti í samfélaginu. Að þjóðin sé of lítil til að sóa hæfileikum sínum í að búa til eitthvert mengi „þekktra“ andlita sem stjórna hér öllu og eru álitsgjafar í öllum málum. Það er fráleitt að frambjóðendur þurfi að vera sjónvarpsandlit eða selebb að öðru leyti. Venjulegt fólk á fullt erindi til áhrifa og valda – og það á ekki endilega að bíða þess að menn gefi sig fram. Því eins og staðan er núna má sá sem vekur á sér athygli búast við að vera skotinn niður eða níddur. Það þarf að skapa samfélag sem leitar til þegna sinna og gerir það að skyldubundnu hlutverki hvers og eins að vera virkur, lýðræðislegur þátttakandi í samfélaginu, nær sem fjær.

Ég væri meira en til í að kjósa þau öll sex til áhrifa og gefa þeim góðan tíma til að útfæra leiðir að markmiðum sínum – ekki á kostnað málflutnings eða markmiða mótframbjóðendanna – heldur í samhengi við alla þræðina sex.

Þessi kosningabarátta hefur sýnt mér að það býr ofsalegur máttur í þjóðinni sem hægt er að virkja til að búa til svo miklu, miklu betra samfélag en okkur hefur tekist hingað til.



Kannski er stærsta lexían sú að það sé óttalega heimskulegt að þurfa alltaf að velja einn á kostnað allra hinna.

Engin ummæli: