22. júní 2012

Hjartans hobbí

Ég var að lesa Íslenska menningu e. Sigurð Nordal um daginn. Það vill svo til að fyrr um daginn hafði hvarflað að mér að skrá mig loks úr þjóðkirkjunni og mér fannst nærtækast að skrá mig í Ásatrúarfélagið – svona upp á menninguna og hefðina. Við bræður berum millinöfnin Þór, Freyr og Sindri og ég hef alltaf verið hugfanginn af þessari fornu menningu.

Ég hætti snarlega við þegar ég las þetta hjá Sigurði:


Það er grátbroslegt fyrirbrigði nútíðaróra, sem sögur hafa farið af á seinni árum, að menn leiti sér sanngermanskrar sáluhjálpar með því að blóta Þór og Óðin, – broslegt af því, að það verður ekki annað en skopstæling, – grátlegt vegna þess. að menn eru leiddir á slíka glapstigu af fornfræði, sem hefur gefið miklu meiri gaum að goðaævintýrum og fátæklegum fornminjum en lífrænasta kjarna heiðinnar heimsskoðunar og mannræktar.

og

Meira af verðmætustu arfleifð [heiðins dóms] lifir enn í fari kristins drengskaparmanns en forneskjuórum þeirra, sem gera sér upp ásatrú á vorum dögum.

Þá hvarflaði að mér að heiðinn dómur, alveg eins og kristni, er eitthvað sem maður ætti ekki að gera sér upp eða taka í hálfkæringi. Trú manns á að vera manni hjartans mál en ekki hobbí.

Ég ætla að halda ásatrú sem hobbíi og ætli ég endi ekki á að skrá mig úr þjóðkirkjunni af sömu ástæðu. Fyrir mér hefur hún menningarlegt og samfélagslegt gildi. Ég hef enga persónulega tengingu við trúaratriði hennar.

Ætli ég reyni ekki að vera sá drengskaparmaður að leggja ekki hjartað að veði í hobbíin.

2 ummæli:

Einar Þór sagði...

Eins og talað útúr mínum tranti.

Nafnlaus sagði...

Ég þekki þig ekkert en langaði bara að segja að þetta er mjög viturlega skrifað hjá þér, og ég hrífst af þessari einlægni og heiðarleika. Þú hefur algjörlega rétt fyrir þér.