16. maí 2012

Þetta hentar ÓRG ágætlegaÞótt það kunni að virka þversagnarkennt þá hentar það ÓRG eflaust ágætlega að mælast með aðeins minna fylgi en Þóra. Það kemur að einhverju leyti í veg fyrir að fólk, sem vel getur hugsað sér að kjósa einhvern annan frambjóðanda, en vill alls ekki Þóru láti eftir sér að velja annan kost. Einhverjir fyllast kappi við þennan litla mun sem er – og framboð ÓRG mun vera það langtilfinningaríkasta. Það er erfitt að finna nýja fleti á „horfum fram á veginn.“

Þá er ástæða til að ætla að ÓRG eigi sér sterkari stuðning í elstu aldurhópunum en Þóra. Það er alls ekki svo að gamalt fólk sé skoðanalausar lyddur sem kjósi Gísla Martein eða Þóru – bara af því þau eru þokkafull í sjónvarpinu. Gamla fólkið er oft afar gagnrýnið á samfélagsástandið og líklegt til að vera lítið ginnkeypt fyrir hugmyndum um kornungt sameiningartákn. Og byltingarkenndara. ÓRG ætlar að tala inn í þá stemmningu sem skapaðist í Búsáhaldabyltingunni á meðan andstæðingar hans tala eins og hún hafi aldrei átt sér stað. Þannig þykir mönnum stappa við geðveiki einræðisherra að ÓRG hafi verið farinn að spá í utanþingsstjórn. En gleyma því að á svipuðum tíma var sett skothelt gler í Alþingishúsið og mótmælendur voru sóttir til saka fyrir valdarán.

ÓRG tekur vissulega áhættur en eina fólkið sem ég sé kvarta yfir þeim er fólk sem löngu er búið að gera það upp við sig að það ætli ekki að kjósa hann. Ég sé marga segja að nú hljóti ÓRG að hafa fælt frá sér fylgi – en ég hitti engan sem raunverulega hefur látið fælast. Ég hitti hinsvegar sífellt fleiri sem viðra grunsemdir um að hugsanlega sé eitthvað til í Samfylkingar-samsæriskenningunum um Þóru.

Við allt þetta fólk segi ég það sama: Mér dettur ekki til hugar eitt augnablik að Þóra Arnórs sé strengjabrúða eins né neins. Ég sé heldur ekki að það skipti nokkru máli hvort hún vill í ESB eða ekki. Mér er fyrirmunað að sjá að það skipti nokkru. En hitt er algjörlega óefað að nafn Þóru kom ekki upp úr potti vegna þess að hún er alþýðleg sjónvarpskona. Þeir sem komu nafni hennar á flot og stóðu að því að hún færi fram er fólk nátengt núverandi stjórnvöldum sem stakk upp á Þóru vegna þess að hún var talin „í réttu liði.“

Það hvort hún verður síðan þæg og góð (og í besta falli erfið Sjálfstæðisflokknum og Framsókn) nái hún kjöri er algjörlega óráðið. En frammistaða hennar á Beinni línu DV var vægast sagt óinspírerandi.

Mig grunar að hún sé búin að toppa og þurfi eitthvað nýtt útspil eða nýja taktík til að standa af sér skriðþunga ÓRG. Þar dugar ekki að innmúraðir Samfylkingarmenn úthúði ÓRG og noti um hann ljót orð og andstyggilegan málflutning. Þeir hafa náð öllum þeim eyrum sem þeir munu ná. Nú þarf að ná til fleiri.

Þetta verður spennandi.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ragnar Þór. Við viljum nýtt Ísland, gamla Ísland er úr sér gengið, í dauðateygjunum. Endurkjör Óla, enn einu sinni, væri því vissulega ekki spor í þá átt. Þú vilt áfram gamla jálkinn, þótt þú segir það ekki á skýran hátt. Þú skrifar oft athyglisverða pistla, en ert farinn að minna mig á Þorstein Pálsson. Of hátíðlegur, predikar. Á þýsku köllun við þetta "Klugscheisserei". En þú hefur hæfileika, þyrftir hinsvegar að breyta um stíl, sýna meiri hógværð, einmitt minna "Klugscheisserei". Kveðja, Haukur Kristinsson

Matti sagði...

Hmm, hvaða nýja útspil getur Þóra komið með á næstunni. Eitthvað sem kemur henni sjálfkrafa í alla fjölmiðla og veitir óumflýjanlega afar jákvæða umfjöllun - en er þó þess eðlis að enginn annar frambjóðandi getur gagnrýnt "uppákomuna"? Eitthvað alveg nýtt í baráttunni um forsetaembættið á Íslandi.

Mér dettur ekker í hug sem Þóra gæti gert til að "toppa" umræðuna um sjálfa sig :-)

Nafnlaus sagði...

Matti. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti ekki öllu máli hver verði forseti; Þóra, Ari Trausti, Andrea Jóhanna eða Herdís. Það sem skiptir máli er að Ólafur Ragnar verði ekki kjörinn. Ólafur er minnisvarði um útrásina sem setti landið á hausinn, maður sundrungar en ekki sameiningar. Ég eins og fleiri er búinn að fá nóg að þessum manni og lít ekki á hann sem forseta minn. Við viljum nýjan forseta. Og eins og ég sagði hér fyrir ofan, verða þessar kosningar örlagáríkur þáttur í því að taka fyrsta sporið í átt að Nýju Íslandi. Haukur Kristinsson

Hans Haraldsson sagði...

Haukur: Er þetta ekki einmitt vandinn við framboð Þóru? Það eru engar pósitívar ástæður til að kjósa hana. Hún er örugglega ágæt kona en það er ekki hægt að finna neina aðra ástæðu fyrir því að gera hana að forseta lýðveldisins en þá að hún er ekki Ólafur Ragnar.

Kjarninn í fylgi hennar eru svekktir vinstrimenn sem fannst að Ólafur ætti að vera með þeim í liði.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Matti, ég hefði átt að láta fylgja hér fyrirvarann sem ég setti þegar ég deildi þessu á FB: „Þóra þarf ný spil á borðið. Fyrir utan þessi augljósu: ungbarnamyndirnar.“

En þekkjandi innræti þjóðarinnar þá má ætla að það að verða mamma í miðri baráttu muni vinna gegn henni en ekki með. Það finnst eflaust einhverjum ekki hæfa að reka harða baráttu meðan maður „á“ að vera að sinna litla krílinu. Þetta er biluð veröld.

Haukur, ég hef áður fjallað um stílbrögðin á síðunni. Þau eru vissulega hátíðleg og fleira miður gott – en m.a. vegna þess að ég vil halda ákveðinni fjarlægð milli þess sem ég skrifa hér og nemenda minna. Predikunnarstíllinn er örugglega rétt gagnrýni en ég vona að menn sjái í gegnum hann og að undir leynist virðing fyrir viðfangsefninu og þeim sem eru ósammála mér.