3. maí 2012

Kukl á barmi rétthugsunar

Ofsi og ládeyða einkenna íslenskt mannlíf. Allt sem er óefað, gott og gilt fær sáralitla athygli en allt sem er umdeilanlegt hverfur í rykský átaka og grimmdar. Það að hafa sannfæringu fyrir einhverju merkir einfaldlega að geta ekki stillt sig um að berjast fyrir því – hvort sem bardagi er til staðar eða ekki. Það mætti færa sannfærandi rök fyrir því að mikið myndi batna ef Íslendingar tækju þessi sérstöku þjóðareinkenni og sneru þeim á haus. Að þeir beindu ástríðum sínum í það sem sameinar og kaldri skynsemi á það sem sundrar. En það mun seint gerast því samfélagið er frekar að færast í þá átt að vera þrýstihópa- og hagsmunasamfélag að ammrískri fyrirmynd og fjær því að vera kardemommískur skandinavíusósíall.

Nema hvað, eitt einkenni þess að hagsmuna-, lífsskoðunar- eða þrýstihópur sé við það að sökkva skoltunum í helga gralið og ná valdi á hinni almennu, rétthugsandi skoðun, er einstakur ákafi. Sá sem hefur almenningsálitið á valdi sínu er yfirleitt nokkuð spakur. En sá sem er við það að landa því minnir á sjómann sem stritar við að draga golþorsk um borð. Lætin, fátið og fumið kemur upp um ólguna á bak við oft rólegt yfirborð. Þannig eru lætin í þeim sem vilja Betel-Snorra burt úr starfi því hann sé hótandi mönnum dauða (sem hlýtur þó að teljast kjánalegasta líflátshótun heimsins ef hún er skoðuð í kjölinn). Þannig eru líka læti í þeim sem fáruðust yfir gyðingahatri Hallgríms Péturssonar. En að sama skapi gat Páll Magnússon pollrólegur dissað þá, því yfir honum var ró þess sem er kvæntur rétthugsuninni en er ekki enn í ofsalegu tilhugalífinu.Og vinir mínir í dellubaráttunni urðu enn ein ábendingarskilgreining í gær þegar ruglumbullið sem sýnt var á Rúv var hakkað í buff af varðhundum velsæmisins. Þegar menn sáu að þeir höfðu fundið auðvelda bráð stukku menn á hana og tættu í sig. Af miklu meiri ákefð en óvættin verðskuldaði í raun. Það gekk svo langt að Rúv greip til þess ráðs að birta viðvörun um að kvikmyndin innihéldi rugl.

Það er vel að menn séu meðvitaðir og veit forheimskun viðnám. Ekkert að því. En við mættum svo gjarnan láta vera að hlaupa kapphlaup upp þetta einstigi upplýsingarinnar. Þetta er einmitt eitt af því sem væri svo dásamlegt að geta talað um í rólegheitunum og yfirvegað í stað þess að munda bara hamar rétthugsunarinnar og mölva óvininn í spað. Hann verðskuldar nánari og skynsamlegri skoðun. Því ef við gætum leyft okkur yfirvegun og afslöppun þegar um er að ræða vitleysu eins og þessa sem sýnd var í gær er aldrei að vita nema við myndum þora að leyfa okkur gagnrýnni hugsun þegar vitleysan eða ruslið stendur okkur nær.

Það skapaðist til dæmis skrítin stemmning þegar Baltasar gaf út Contraband. Man einhver eftir því? Hvernig rætt var um allt nema það hvort myndin væri eitthvað spes. Öll orkan fór í að fjalla um hvaða fræga fólk léki í henni eða hefði hringt í Baltasar til að gleðjast yfir því hve mikla peninga menn hefðu grætt. Einhvernveginn tókst mönnum að horfa alveg fram hjá því að myndin var hreint ekkert spes. Svona dæmigerð 6,5 á IMDB (og ég sver að ég skrifaði þetta áður en ég kíkti á vefinn og komst að því að myndin er sem stendur einmitt í 6,5!). En það mátti ekki ræða. Menn voru of uppteknir af því að Íslendingur væri að framleiða meðalmennskudrulluna í Hollívúdd, menn urðu að sjá gullbjarmann við það.

Eins væri voða gaman ef einhver íslenskur fréttamaður gæti stillt sig um að taka þátt í dýrðardansinum kringum Sólskinsdrenginn – sem er einmitt svo merkilega náskyldur hratinu sem sýnt var á Rúv í gær. Þar er einmitt fjallað nokkuð um „óhefðbundnar lækningar“ við einhverfu og m.a. rætt nokkuð um aðferðir sem löngu er búið að afhjúpa sem tóm hjávísindi og kukl.Ef það sæmir ekki RÚV að sýna mynd eins og þá sem sýnd var í gær án þess að vara við henni – af hverju skyldu menn ekki fara sér hægt þegar kemur að öðru kukli?

Það er vegna þess að hugur fylgir ekki máli. Það er ekki vitsmunalífinu sem blöskrar ruglið. Þjóðarsálin hefur nefnilega sáralítið vitsmunalíf, en ofvaxna velsæmiskennd.

Það er nefnilega svo að innan „óhefðbundinna lækninga“ bíður okkar æsispennandi og gefandi samtal – ef einhver nennir að eiga það. Það er í raun full ástæða til að sýna fólki sem telur sig hafa fengið bót alvarlegra meina fulla virðingu. Lækningahroki er ekkert betri en annar hroki.

Það samtal kemst ekki af stað fyrr en við slökum á og þorum að hafa það yfirvegað.

Hlutverk alvöru fræðslustofnunar er ekki að ná fram fræðslu gegnum ritskoðun – heldur með gagnrýni. Heiðarlegri gagnrýni. Aðall hennar er að maður beitir henni jafnvel þegar manni finnst það óþægilegt.

11 ummæli:

Matti sagði...

Fyrirsjáanlegt og slakt.

"Það gekk svo langt að Rúv greip til þess ráðs að birta viðvörun um að kvikmyndin innihéldi rugl."

Hve langt gekk það? Skrifaðar voru bloggfærslur (gvuð minn almáttugur á innsoginu).

Harpa Hreinsdóttir sagði...

RÚV birti "viðvörunina" þegar leið á daginn ... og krækti í blogg Valgarðs vantrúarfélaga, líklega af hræðslugæði með siðprúða meinta meirihlutanum. Annars er ég glettilega sammála færslunni þinni (hef áhyggjur af því hve við erum orðin sammála upp á síðkastið!) enda las ég hana eftir að hafa klárað bloggfærslu á sömu nótum.

Nafnlaus sagði...

En er umfjöllunin um contraband ekki einmitt dæmi um að beina ástríðu að því sem sameinar?

Matti sagði...

Ágætur grunnskólakennari sagði nýlega í grein á bloggsíðu sinni.

> "Vísindalæsi þjóðarinnar er áfátt. Verulega áfátt. Sem gerir hana viðkvæma fyrir loddaraskap í vísindalegum búningi. Því verður að veita viðnám"

Ég tek undir með honum. Viðnám er nauðsynlegt. Ég mæli með því að þú hóir í þennan náunga og fáir hann til að rökræða við þig um þetta mál.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Matti, ég held þú hafir ekki alveg kveikt á punktinum hjá mér. Ég er ekki að verja innihald myndarinnar á nokkurn hátt eða mæla með því. Ég kíkti sjálfur á hana á Youtube og taldi hana dæmigerða fyrir það þegar hrapað er að ályktunum og andvísindalega hugsun. Samtsemáður fagna ég ekki sérstaklega „hæpinu“ (sem þú mátt vera ósammála mér um að sé til staðar) sem verður til þess að RÚV þorir ekki annað en að linka í mjög harðorða bloggfærslu þar sem myndin er kölluð rugl og bull (að mestu án skoðunar) – og þeirri stefnu að RÚV eigi að ritskoða burt allt svona stöff.

Óhefðbundnar lækningar einkennast af óskhyggju, þvaðri og rökbrestum – en um leið af nánum tengslum við örlög venjulegs fólk og sterkum tilfinningum. Stundum er fólk haft af féþúfum og oft er (að mínu mati) um hreina glæpastarfsemi að ræða. Slík mál á að skoða yfirvegað og með því að velta fyrir sér öllum flötum – og vera jafngagnrýninn á „hefðbundnar lækningar“ og þær óhefðbundnu. Það felst engin greiningarefling í því að segja að hitt eða þetta sé bull og kjaftæði og safna liði í að beita hinn opinbera vettvang þrýstingi til að stýra því sem bera má á borð fyrir fólk.

Vönduð umræða afhjúpar það sem afhjúpa þarf af yfirvegun og sanngirni. Þaulskoðar hlutina af opnum hug.

Hagsmunagæsla og þrýstihópastarf felst í allt öðru og yfirborðskenndara. Og allar framfarir sem verða á hennar vegum standa á brauðfótum því hún verður blind á eigin lesti þegar tvenn eða fleiri gæði koma saman. Þannig t.d. hvarflar ekki að fréttamönnum að rannsaka Sólskinsdrenginn en þeir hika ekki við að lemja meitrixið í duftið. Það er vegna þess að sannleiksástin er ekki leiðarljósið – það er bara verið að láta eftir þeim vindum sem blása hverju sinni.

Matti sagði...

Ég kveikti á punktinum. Ég er bara afskaplega ósammála þér.

Ég sé ekki að ég hafi haldið því fram í athugasemdum mínum að þú hafir verið að verja innihald myndarinnar eða mæla með því.

Hverja ertu að tala um í færslunni og athugasemd? Þú talar um hagsmunagæslu, þrýstihópa og fréttamenn. Hverjir eru bara að láta eftir þeim vindum sem blása hverju sinni?

Hvaða "hæp"? Það birtist ein bloggfærsla og ein stutt grein á Vantrú áður en myndin birtist. Vissulega vöktu þær athygli og umræðu á Facebook en það var nú allt offorsið. Er þetta í lagi meðan þetta eru bara bloggfærslur hjá þér, en offors og vafasamt þegar fólk er farið að tala um þetta á netinu?

Og taktu eftir að kjarni gagnrýninnar á RÚV hjá Vantrú og Valgarð fólst í að benda á að þetta væri ekki "heimildarmynd" og að umfjöllunarefnið væri bull - sem það er. Gagnrýnin snerist um að kynningin væri villandi, sem hún var. Einhver starfsmaður RÚV tók mark á þessari gagnrýni. Það var gott. Ekkert út á það að setja. Ekkert ofbeldi í gangi, engin ritskoðun.

> "Það felst engin greiningarefling í því að segja að hitt eða þetta sé bull og kjaftæði og safna liði í að beita hinn opinbera vettvang þrýstingi til að stýra því sem bera má á borð fyrir fólk."

"Greiningarefling" - stígðu af hestinum áður en þú dettur og hálsbrýtur þig. Það er hluti af umræðunni að gagnrýna. Þú gerir það, ég geri það, nær allir gera það. Það er ekkert athugavert við það. Ríkissjónvarpið má gagnrýna eins og alla aðra.

> Vönduð umræða afhjúpar það sem afhjúpa þarf af yfirvegun og sanngirni. Þaulskoðar hlutina af opnum hug.

Umræða getur verið margskonar. Stundum er nauðsynlegt að benda á að eitthvað er kjaftæði. Það er ágætt að hafa opinn hug, skoða málið. Það er líka allt í lagi að komast að niðurstöðu eftir að hafa skoðað málið. Stundum er niðurstaðan afgerandi, eins og t.d. varðandi efni þessarar myndar.

Örlítil ábendin:
> ...vera jafngagnrýninn á „hefðbundnar lækningar“ og þær óhefðbundnu

Uh, nei. Vissulega eigum við að vera gagnrýnin á bæði - en það er mikill munur - jafnvel eðlismunur á þessu. Hugmyndir eru ekki allar jafnar - sannleikurinn er ekki mitt á milli tveggja öfga. Við erum ekki jafn gagnrýninn á fullyrðingar "hefðbundinna" læknavísinda og gervi-læknavísinda. Þetta snýst, eins og þú veist auðvitað, um það hvort sýnt hefur verið fram á virkni. Sá sem ekki hefur sýnt fram á virki, eða jafnvel mögulega virkni, á skilið meiri gagnrýni en sá sem getur vísað í rannsóknir. Bóluefni og smáskammtaremedíur eru ekki sitthvor hliðin á sömu krónunni.

ps. Vantrú mun endurbirta greinar um Sólskinsdrenginn bráðlega. Því muntu vonandi fagna.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Matti, ég ætla að láta nægja að segja að þegar um er að ræða kvalafulla sjúkdóma þar sem læknavísindin hafa ekki upp á neitt betra að bjóða en oft á tíðum takmarkaðan árangur og ofsalegar aukaverkanir – þá skiptir margt miklu meira máli en tölfræði um blóðgildi fimm ára lifun og sökk. Það skiptir máli að fólk fái að halda í mennskuna og lífsgæði og við sem samfélag þurfum hreinlega að svara áleitnum spurningum eins og um réttmæti líknardráps eða líknandi meðferðar.

Ástæðan fyrir velgengni margra óhefðbundinna lækninga er m.a. sú að margir af því sauðahúsi hafa mun betra viðhorf og manneskjulegri nálgun til sjúklingsins. Og fólk flækir saman því sem er gott, hollt og æskilegt og hinu sem er óígrundað, vafasamt og vitlaust.

Miðað við hippókratískar forsendur eingöngu er líknardráp kjaftæði. Það mætti jafnvel heimta bann á allt efni sem sýndi það í jákvæðu ljósi (tala ekki um ef eitthvað tal um handanheima og upprisu fylgir). En samkvæmt sæmilega hófstilltri og upplýstri umræðu þá á umfjöllum um líknardráp fyllilega rétt á sér. Því sjónarhólarnir eru margir og það er skárra að búa í samfélagi sem leyfir kastljósinu að flakka milli sjónarhóla en hinu sem reynir að fletja út alla hóla nema þann sem maður stendur á sjálfur.

Það er bæði hægt að verða fólki að gagni með því að reyna að skilja hvers vegna sumir sjá heilmikið vit þar sem maður sjálfur sér aðeins kjaftæði.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Loks þetta: trúin á heimildarmyndir sem eitthvað hlutlaust og klínískt á varla rétt á sér, er það?

Egill Ó sagði...

Nákvæmlega Ragnar. Og einmitt vegna þess að RÚV sýnir alls ekki hvaða 'heimildar'myndir sem er var alveg full ástæða til þess að gagnrýna ríkisstofnunina svolítið harðlega fyrir að velja þessa til sýninga. Svo ekki sé nú talað um miðað við hvernig hún var kynnt til að byrja með.

Egill Ó sagði...

Nákvæmlega Ragnar. Og einmitt vegna þess að RÚV sýnir alls ekki hvaða 'heimildar'myndir sem er var alveg full ástæða til þess að gagnrýna ríkisstofnunina svolítið harðlega fyrir að velja þessa til sýninga. Svo ekki sé nú talað um miðað við hvernig hún var kynnt til að byrja með.

Matti sagði...

Eina "rétthugsunin" sem ég sé í þessu máli snýst um að ekki skuli gagnrýna augljóst kjaftæði því til sé fólk sem trúir á það.