1. maí 2012

Sótthreinsandi blekkingarleikur

Aldrei þessu vant las ég Fréttablaðið á pappír í morgun. Líklega í þeim tilgangi að ýfa upp nostalgíuna og undirbúa mig fyrir kröfugöngu á eftir. Nema hvað, í kynningarbæklingi sem kallast Fólk var opna um undratæki sem býr til umhverfisvænan sótthreinsilög úr kranavatni og salti. Framleiðandinn, Toucan-Eco, hefur verið nokkuð í fjölmiðlum upp á síðkastið og af fréttunum að skilja er hér komin byltingarkennd ný tækni. Ég fletti að mestu yfir þetta en setti í úrklippusafn heilans til frekari skoðunar seinna.Síðan las ég blogg Einars Karls og þá rann upp fyrir mér ljós. Og mér leið eins og fífli. Sannleikurinn um þetta undratæki er svo sáraeinfaldur að ég hefði átt að átta mig á því strax. Ég veit ekki hversu oft ég hef rafgreint vatn með nemendum mínum. Líklega oftar en hundrað sinnum. Rafgreining vatns er ein af algengustu efnafræðitilraununum í grunnskóla. Þá setur maður vatn í skál og gjarnan eitthvað efni með sem eykur rafleiðni (ég nota stundum salt) og síðan leiðir maður rafmagn gegnum lausnina. Við það klofnar vatnið í vetni og súrefni – og (sé salt notað) þá kemur þessi fína sundlaugarlykt. Því saltið klofnar í natríum og klór. Já, klór. Hið baneitraða sótthreinsiefni sem gefur sundlaugarvatni sérstaka lykt.

Annars er rafgreining hið hversdagslegasta fyrirbæri. Álver eru t.d. ekkert annað en tröllvaxnar útgáfur af sömu tilraun – nema í staðinn fyrir vatn er notað súrál og í staðinn fyrir salt er notaður flúor.Það er gott og blessað að gerð séu tæki sem framleiða klór úr salti heima í eldhúsi. Það er sannarlega umhverfisbætandi að klór sé framleiddur í litlum skömmtum með litlum tilkostnaði í stað þess að hann sé fluttur í stórum einingum um allt samskiptanetið. Þetta tæki er fín og flott hugmynd – dæmi um það sem gerir vísindin að helsta bandamanni nýjunga og framfara.

Það sem ekki er til fyrirmyndar er framsetningin. Þessi tilraun til að dylja fyrir fólki hinn vísindalega einfaldleika. Þessi viðleitni til að láta einfalda efnafræði líkjast göldrum. Og sú sölumennska sem felst t.d. í þessu:

Að lokum leggur hann áherslu á öryggisþáttinn sem er ekki síður mikilvægur. „Efnið inniheldur nær eingöngu salt og vatn. Efnið er því í raun algjörlega hættulaust. Það skiptir því engu máli hvort til dæmis börnin á heimilinu komist í hreinsilöginn og drekki hann eða fái í augun. Hann hefur engin skaðleg áhrif,“ segir Geoff og sprautar vökvanum upp í sig til að sanna mál sitt.

Ég þaullas opnuna og hvergi er klór nefndur. Af lestrinum að dæma þá er verið að sótthreinsa með saltvatni sem búið er að gefa undraeiginleika með rafmagni. Sem er auðvitað alls ekki raunin. Og þessi brella með að sprauta efninu upp í sig. Tja, þessi tegund sölumennsku er ekki ný af nálinni. Þeir sem hafa beitt henni gegnum tíðina hafa verið misþokkalegur félagsskapur. Sá frægasti er líklega Thomas Midgley, bandaríski vélaverkfræðingurinn, sem alræmdur er í vísindasögunni. Hann er maðurinn sem kom þeirri hugmynd á koppinn að gera eldsneyti stöðugra með því að blanda það taugaeitrinu blýi (og til að sanna skaðleysi þess makaði hann því á sig fyrir framan blaðamenn). Síðan sneri hann sér að því að setja CFC-gös í kælikerfi. Og þegar þessi lausnamiðaði maður fór að finna fyrir einkennum lömunar með aldrinum hannaði hann flókið vindukerfi og setti í rúmið til að gera sig sjálfbjarga þrátt fyrir lömunina. Það er skemmst frá því að segja að blýið olli óafturkræfum skaða á taugakerfi fólks (svo mikil voru áhrifin að þau mældust sem versnandi niðurstaða á greindarprófum borgarbarna sem verst urðu úti), CFC-gösin eyðilögðu ósónlagið og Midgley hengdi sjálfan sig í vindukerfinu.Vísindalegur einfaldleiki er ekki minna töfrandi en galdrar. Góðar uppfinningar þurfa ekki að dulbúa virkni sína. Slíkur loddaraskapur tilheyrir öðrum, mun skuggalegri, heimi. Þannig uppgötvaði Midgley að þótt fólk vildi ekki kaupa bensín sem innihéldi blý þá væri það meira en viljugt að kaupa bensín sem innihéldi tetraetílblý, svo lengi sem maður gætti þess að kalla það alltaf etíl, en ekki blý.


Og þannig er rafgreining ekki nefnd á nafn í tengslum við nýja sótthreinsi-undraefnið. Í stað þess er talað um rafefnavirkni. Þrátt fyrir að um nákvæmlega sama hlut sé að ræða.

Vísindalæsi þjóðarinnar er áfátt. Verulega áfátt. Sem gerir hana viðkvæma fyrir loddaraskap í vísindalegum búningi. Því verður að veita viðnám.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú allt gott og blessað hjá þér nema að álver framleiða flúor sem úrgang en nota hann ekki. Enda hefur síðan álframleiðsla fór almennilega af stað verið vel að verki staðið við að troða flúor allsstaðar sem hann á ekki heima. Enda dýrt að losa sig við úrganginn og gott að geta selt hann í tonnavís til notkunnar í annan iðnað.

Björn Friðgeir sagði...

Að minnast hvergi á klór minnir mig augljóslega á 'Þetta er náttúrulegt og þar afleiðandi hollt" rökin.
Við þeim er besta svarið: "En ánægjulegt! Má nokkuð bjóða þér glas af náttúrulegu óðjurtarseyði?"