4. maí 2012

Málþóf – dæs
Bara svo einhver nenni að færa það til bókar. Það voru núverandi broddmeðlimir ríkisstjórnarinnar sem börðust fyrir réttinum til málþófs þegar þingsköpum var breytt á 2007-2008 þinginu. 

Steingrímur sagði:

Þess vegna eru þingsköp Alþingis landslög. Það er þetta heildarsamhengi sem við erum að tala um. Það verður ekki fram hjá því horft að réttindi til málflutnings hér eru hluti af því sem hefur áhrif á jafnvægið ef jafnvægi skyldi kalla hérna inni. Það er ósköp einfaldlega ekki á dagskrá af hálfu okkar sem stærsta flokksins í stjórnarandstöðunni nú að standa að breytingum ef við óttumst að þær verði frekar en hitt til að veikja frekar Alþingi sem er fyrir allt of veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er okkar megináhersla. Það er okkar meginpunktur og því er ekki að mínu mati þannig varið í hinum nýju hugmyndum um fundartíma og ræðutíma að þar sé ásættanlegu landi náð. Það er allt of langt gengið.

Og það voru þeir sem nú beita málþófi sem vildu málþófið burt:

Pétur H. Blöndal:

En það sem gerðist hér einu sinni var að minni hlutinn á Alþingi beitti meiri hlutann ofbeldi, hann beitti hreinlega ofbeldi með því að tala út í eitt um eitthvert ákveðið mál til þess að fresta einhverju öðru máli og tókst það furðuoft. Ég ætla að vona að menn hætti slíku og það lýðræði fái að ríkja inni á Alþingi að þeir þingmenn eða sá meiri hluti sem þjóðin hefur kjörið og kosið yfir sig fái að ráða með eðlilegum hætti á Alþingi en þurfi ekki að hlusta á einhverjar óskaplegar umræður með því markmiði að ná að stöðva eitthvert mál.

Siv Friðleifs:

Virðulegur forseti. Ég er alveg sannfærð um að það mál sem við erum að samþykkja hér sé til bóta og ég held að við munum furða okkur á því að allt til ársins 2007 hafi þingmenn getað komið upp í 2. umr. og talað endalaust, eins lengi og stætt var. Ég held að við munum ekki skilja mikið í því eftir nokkur ár þannig að það er gott að við erum að taka skref inn í nútímann.


Birgir Ármannsson:

...þann 3. desember hélt Vinstri hreyfingin – grænt framboð blaðamannafund þar sem höfð voru uppi verulega stór orð í sambandi við takmarkanir á ræðutíma og hrópað hátt um skerðingu málfrelsis, mannréttindi og ég veit ekki hvað. Í yfirlýsingu sem var kynnt á þeim fundi er talað um að þegar sjónarmiðin hafi komið fram, eða (Forseti hringir.) forseti bent á ræðutíma, og málfrelsi skorið niður við trog, eins og segir í tilkynningum vinstri grænna, hafi Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki verið til umræðu (Forseti hringir.) um að afsala sér slíku vopni.

Svar Steingríms:

Það er hins vegar rétt að við höfum haft umtalsverða sérstöðu í því að við höfum viljað standa fastar vörð um það sem við teljum vera mikilvægan hluta af réttindum þingmanna og minni hluta og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Ég segi það bara aftur sem ég sagði í morgun, að við upplifum okkur í þessari stöðu þannig að við séum hér, því miður ein, að reyna að standa vörð um réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðu að þessu leyti. Og það er gríðarlega mikilvægt að einhver geri það því að ekki er það í þágu lýðræðisins að allir gefist upp í þeim efnum og velji bara þægindin.
Bara svo þetta finnist á gúgl næst þegar menn hafa skipt um hlutverk – og sannfæringu með.

Atriðisorð: Málþóf

Engin ummæli: