23. maí 2012

Að draga til baka umsókn að ESB



Ég er ekki stuðningsmaður þess að Ísland gangi í ESB. Mér finnst það einhvernveginn engan veginn sjálfgefið og vil fá sannfærandi rök fyrir því af hverju hag okkar væri betur borgið þar inni. Mér dugar ekki yfirborðskennd rök um galla krónunnar eða einfalt af hverju ekki. Ég hef enn ekki séð neina sannfærandi ástæður þess að við göngum þar inn. Ég er samt hrifinn af þeirri hugmynd að stórþjóðir Evrópu reyni að vinna saman í friði og spekt og eftir lýðræðislegum leikreglum. Það þarf ekki mikla sögulega dýpt til að sjá að sambandið er merkileg tilraun. En ég er síður hrifinn af þeirri heimsmynd að risa-hagsmunaveldi séu nauðsynleg. Ég held að heimurinn hafi öll tækifæri til að vaxa upp úr því og flytja valdið nær íbúunum sjálfum undir sæmilega siðuðum grunnkröfum um frið og spekt. Aðal gallinn held ég sé sá að dæmið af Þórði á stofu sex er alltaf innan seilingar í svona stórum hagsmunabandalögum. Fyrir þá sem ekki kannast við Þórð þá er hann aðalpersónan í heimspekilegri klípusögu sem er þannig að nær fullfrískur maður, Þórður, kemur á sjúkrahús í smáaðgerð. Þegar hann er kominn undir hendur lækna átta þeir sig á því að hann myndi smellpassa sem líffæragjafi fyrir heilan helling af dauðvona sjúklingum á deildinni. Með því að svæfa Þórð og senda ljúflega inn í eilífðina og taka svo úr honum helstu líffæri má bjarga mörgum mannslífum öðrum.

Og Evrópusambandið held ég glími við þann djúpstæða vanda að þrátt fyrir allt þá er mikið valdamisræmi þar inni og hagsmunir smærri þjóða munu aldrei verða lagðar að jöfnu við hagsmuni þeirra stærri. Jafnvel þótt um aðeins formlega hagsmuni sé að ræða – eins og t.d. í Icesave. Það má vel vera að allir séu vinir þegar vel árar – en krísan sem alltaf kemur upp í Evrópu þegar skóinn kreppir er sú að þá hugsa þeir voldugu um sig og þeir minni eru troðnir undir. Þessi árátta var lengi vel leyst með innræktun og konunglegum hjónaböndum – sem voru hið upprunalega Evrópusamband – en slík hagsmunatengsl hafa aldrei dugað. Gerðu það ekki fyrir Snorra á Sturlungaöld og gerðu það ekki í Evrópu á Öld öfganna.

En málið er margþætt – ég viðurkenni það. Ég treysti bara ekki Evrópu fyrir horn. Og tel mig hafa ríkulegar ástæður til þess. Hefði haldið að okkur væri betra að taka upp þá góðu siði sem Evrópusambandið finnur upp eða kemur til leiðar. En að við hefðum útgönguleið þegar sambandið gerir sig líklegt til að kremja okkur undir hælinn af einskærri umhverfisblindu og fjærsýni.

Hafandi sagt allt þetta – þá tel ég fráleitt að draga umsóknina um aðild til baka.

Mér finnst það fyrst og fremst vanvirða við þann stóra hluta þjóðarinnar sem telur að ESB-aðild sé eða geti verið okkur til hagsbóta. Og þótt ég viti að í ríkisstjórnarflokkunum sé ekki meirihluti fyrir aðild þá tel ég það alls ekki ólýðræðislegt að halda málinu til streitu. Því innan stjórnarandstöðunnar er heilmikill leyndur stuðningur við aðild. Aðild var beinlínis á stefnuskrá margra af þeim sem nú vilja ekkert við það kannast. Sem skiptu um skoðun, ekki af hugsjónalegum ástæðum, heldur til að syngja í takt við neikvæðni í garð ESB sem menn töldu sig upplifa í samfélaginu. Andúð minnihlutans á þingi á umsókn að ESB stafar fyrst og fremst af því að þannig geta þeir gert meirhlutanum mest ógagn – en það er dálítið stefnan eins og hún er í dag.

Ég skal glaður inn í ESB sé það vilji þjóðarinnar. Flestir stuðningsmenn aðildar sem ég þekki eru sérlega vandað fólk með góðar og málefnalegar ástæður fyrir vali sínu. Þeir eru líka flestir líklegir til að vera tilbúnir að ræða málin af yfirvegun og sanngirni.

Nokkuð sem ekki á sér mikinn stað í störfum Alþingis þessa dagana.

Ég get einhvernveginn ekki séð að það að beita þetta sama fólk (sem veit vel að það er í minnihluta) bolabrögðum sé réttlætanlegt í því skyni að forða Íslandi frá bandalagi sem ég óttast að kunni að eigi slík brögð í handraðanum ef skóinn kreppir.



Það að klára ferlið sem nú er komið í gang er eina leiðin til þess að við sem um stund höfum stillt okkur upp andspænis stuðningsmönnum aðildar getum átt samtal við þá um efnisatriði málsins. Það að berja málið út af borðinu án fullrar skoðunar er öngvu betra en að berja það í gegn.

Það að Alþingi myndi (í raun og sann og í krafti óupplýstrar neikvæðni) slíta viðræðum við ESB eftir atkvæðagreiðsluna á morgun fæli einhvernveginn í sér að það væri hvorteðer tapað sem (allavega sum okkar) vilja varðveita.


Engin ummæli: