26. maí 2012

Hvernig dirfist Greta?

 
Einhver hluti þjóðarinnar er að snúast gegn íslenska laginu í Júróvisjón vegna þess að höfundur lagsins, Greta Mjöll, vill ekki nota tækifærið og mótmæla mannréttindabrotum í Bakú.

Einn fésbókarvinur minn vonar að íslenska laginu gangi herfilega illa og margir virðast ætla að styðja Svíþjóð vegna þess að sænska söngkonan sagði þeim aserbæsjönsku til syndanna. 

Mér finnst þetta voðalega slappt.

Mér þykir ekki mikið til um þá dygð að espa sjálfan sig upp í vandlætingu með reglulegu millibili og grípa öll tækifæri sem gefast til yfirlýsinga. Heimska og hatur mun aldrei hverfa úr þessum heimi vegna þess að nógu margir verði nógu móðgaðir og reiðir til að „vonda fólkinu“ verði hvergi vært. Heimurinn mun þá fyrst batna þegar kúgaða fólkið og undirokaða fær sína réttu hlutdeild í því sem er gott og fagurt við þennan heim.

Að því sögðu er ég að sjálfsögðu ekki að mæla mannréttindabrotum bót. Hreint ekki. En það er einfaldlega rétt hjá Gretu að stundum á pólitík barasta ekki við. 

Mín uppáhaldshljómsveit, Queen, fékk miklar skammir fyrir að halda tónleika í voðaríkinu S-Afríku árið 1984. Þá var aðskilnaðarstefnan á fullu blússi og mörgum þótti skammarlegt að virða ríkið viðlits fyrr en það hefði tekið sig á. 

Nákvæmlega tíu árum seinna leið aðskilnaðarstefnan undir lok. Hvort skyldu skemmtikraftar frá hinum frjálsa, velmegandi hluta heimsins hafa flýtt fyrir breytingum eða tafið? 

Í tilfelli Queen var það svo að unga, svarta fólkið í S-Afríku fór að taka upp hendingar og lög og halda á lofti í baráttu sinni fyrir frelsi.

Þegar klakaböndin fóru að þiðna í Sovétinu á sínum tíma var eitt fyrsta merki þess að eitthvað verulegt væri að breytast það að Billy Joel skellti sér til Moskvu og hélt þar tónleika. 

Fyrsta lagið var ballaðan um Billa barnunga og þar sem hann rakti hina einstaklega ópólitísku tilurð lagsins ofan í gestina og rússneski þulurinn snaraði öllu jafnóðum á móðurmálið – fagnaði múgurinn óskaplega. 

Það er nefnilega svo að fólk sem býr við gallað stjórnarfar, kúgun og alræði hefur engan sérstakan áhuga, held ég, á að lifa lífinu í einni samfelldri fyrsta maí göngu. Þau örlög að geta ekki fengið að njóta lista öðruvísi en að þau séu sífellt vafin inn í pólitískan áróður eða kappræður auka á eymdina – en lina hana ekki.

Fólk vill vissulega málfrelsi – en ekki bara málfrelsi til þess að segjast vilja málfrelsi. Málfrelsi sem mark er að takandi fer fyrr eða síðar að snúast um að mega syngja af hjartans list um eitthvað svo nauðaómerkilegt (eins og örlög dvergvaxins amerísks útlaga) eða ögrandi.

Sú stefna Júróvisjón að blanda ekki pólitík í keppnina er aðall hennar. Það er þessi dæmigerði vestræni hroki sem krefst þess nú að við aumkum okkur yfir hina austrænu þjóð og grátum með henni í nokkrar mínútur. 

Auðvitað er ýmislegt að í mörgum löndum. Júróvisjón hefur alltaf snúist um að reyna að nota orkuna í annað en að fárast yfir því hvað heimurinn er vondur og fullur af óvinum í smá stund og syngja saman. Og ef maður er ekki tilbúinn að syngja heima hjá fólki sem geymir eitt og annað óþokkalegt í skápnum (og jafnvel á borðstofuborðinu) á maður að sleppa því að taka þátt. 

Það þýðir ekki að syngja með og ætla svo að verða ægilega hneykslaður ef Ísrael vinnur, eða Tyrkland, eða Rússland, eða Aserbæsjan.

Árið 1974 drápu Írar 21 Breta og slösuðu 182 í viðbót þegar þeir sprengdu upp knæpu í Birmingham. Um jólin tóku þeir sig til og sprengdu upp saklausa vegfarendur í innkaupaösinni í Bristol. 

Árið eftir hittust Bretar og Írar í Júróvisjón og horfðu á Hollendinga sigra með laginu Ding-a-dong. Bretar urðu í öðru sæti með lagið Let Me Be The One í flutningi Shadows. Írar urðu í 9. sæti með That's What Friends Are For.

Árin 1992, 1993, 1994 og 1996 unnu Írar Júróvisjón. 

Sömu árin stundaði IRA ofboðslegar árásir á breskan almenning. 

Árið 1992 var sprengd upp stoppistöð (29 slasaðir), miðborg London (3 dánir og eignatjón upp á 800 milljón pund), þrjú söfn og sögufræðir staðir voru skemmdir í eldsprengjum þar sem ómetanlegar minjar eyðilögðust, karlaklósett á knæpu var sprengt upp (1 dó og 4 slösuðust), miðborg Manchester var sprengd (65 slösuðust) auk eins tilræðis sem misheppnaðist.

Þetta hélt áfram 1993. Þá dóu m.a. tvö börn í sprengingu og sprenging í London olli skaða sem metinn var á rúmlega milljarð punda.

City of London eftir árás IRA

Hlé var næstu tvö ár en svo rauk allt af stað aftur árið 1996 með tilheyrandi blóðbaði og viðbjóði.

Hversu geðfellt ætli það hafi verið einhverjum Bretum að horfa upp á Íra vinna hvern sigurinn á fætur öðrum á meðan börn, unglingar og annar almenningur var stráfelldur í nafni írska lýðveldisins – og þurfa að fara til Írlands og ár eftir ár og standa á sviði og syngja popp? 

En það er bara nákvæmlega það sem menn gerðu. Hvert einasta ár mættu Bretar og sungu sitt popp. 


Eða réttara sagt: Bretar og Írar gátu mæst á einu og sama sviðinu þrátt fyrir pólitík, glæpi og morð – og sungið eina kvöldstund. 

Það er ekki tilviljun að lögin í Júróvisjón hafa yfirleitt verið prýdd textum með einföldum og ögn barnalegum friðaboðskap og ástarvellu. Júróvisjón er eiginlega eina varanlega og stóra samstarfsverkefni Evrópuþjóða frá stríðslokum sem snýst ekki um þras, vandlætingu eða pólitík.


Það þarf ekki að „dýpka“ Júrovisjón eða gera það að baráttuvelli. Sá er hvorki einfaldur né heimskur sem af og til gleymir sér við að horfa á fegurð sólarlagsins – þótt það sé í sama lit og blóðið sem flóir kringum hann. 

Hryðjuverkin og ofbeldið hefur reglulega blossað upp í samskiptum Breta og Írlendinga. Ógeðið kemur og fer – og vonandi styttist í að við getum sagt að það sé farið fyrir fullt og allt. Það að syngja um ást og froðu innan um blóðvellandi byssukjafta og kúgandi þrjóta er ekki til marks um hugleysi og heimsku – það er til marks um von.

Allir kúgarar kunna að díla við þetta...

Þjóð sem ekki hefur von hefur sáralítið við frelsi og frið að gera. En þjóð sem hefur von – mun komast til frelsis og friðar fyrr en seinna.

...en þeir hafa aldrei fundið alminlega leið til að díla við þetta.

Ég hef komist að því að afstaða til Júróvisjón er ágætis mælikvarði á sálarlíf fólks. Að amast við því (svona almennt og yfirleitt) er eins og að amast við Gay Pride. Það er til marks um einhverja óþarfa skugga í sálinni. 

Og á sama hátt er eitthvað svo áttavillt við það að heimta meiri alvöru í Júróvisjón. Fólkið sem dillar sér uppi á vögnum í Gaypride og daðrar góðlátlega við áhorfendur er ekkert að afneita því að enn sé nóg til að reiðast yfir í réttindabaráttu samkynhneigðra. Það hefur bara tekið þá ofur-einföldu ákvörðun að í þetta skipti skuli baráttan einkennast af gleði og kærleika. 

Hvort skyldi það tefja hina (alvarlegri) baráttunni eða styðja hana?

1 ummæli:

Oddný Halldórsdóttir sagði...

Nákvæmlega. "Það er þessi dæmigerði vestræni hroki sem krefst þess nú að við aumkum okkur yfir hina austrænu þjóð og grátum með henni í nokkrar mínútur." - og hræsni! Ómar Ragnarsson er á svipuðum slóðum: http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/