5. apríl 2012

Að vera eða vera ekki pólitískur forsetiÞegar ég skrifaði hér að Þóra Arnórs yrði draumaframbjóðandi þeirra sem vilja ÓRG frá völdum var ég spurður hvaðan þessi hugmynd um Þóru væri eiginlega komin. Fyrir mörgum er eins og Þóra hafi það eitt til síns ágætis að vera sjarmerandi, þekkt og klár. Einhverjum finnst meira að segja að það séu galnar samsæriskenningar sem bendli framboð Þóru við hagsmunabaráttu Evrópusinna og Samfylkingar.

Stöð 2 var með Nærmynd af Þóru í gærkvöldi þar sem draumum hennar um að vera bóndi voru gerð skil sem og píanónámi á unga aldri. Á fésbókarsíðu framboðsins er ennfremur lýsing á menntun hennar og störfum. DV.is birti líka feriskrá við kosningu sem Þóra er að rúlla upp. Það vekur mann til umhugsunar að báðar ferilskrárnar og nærmyndin styðja þessa mynd af henni: að hún sé metnaðarfull og klár fjölmiðlakona. Ekki einu orði er vikið að því að hún hafi komið að pólitík.

Staðreyndin er sú að Þóra á sér rammpólitíska fortíð. Hún hefur kennt í stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar og tók virkan þátt í því að reyna að koma saman Samfylkingunni á sínum tíma. Á þeim tíma var hún ungur, evrópusinnaður jafnaðarmaður sem átti sér þann draum að sjá sameinaða vinstrihreyfingu á Íslandi. Hún starfaði með Grósku sem voru samtök vinstri sinnaðra ungra manna og kvenna sem voru undir miklum áhrifum af breska Verkamannaflokknum og stemmningunni kringum Tony Blair. Þar vann hún við hlið fólks eins og Hrannars Arnarsonar, Róbert Marshalls, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og Björgvins Sigurðssonar. Hún varð varaformaður og alþjóðatengiliður ungra jafnaðarmanna og beitti þar áhrifum sínum til að reyna að neyða Alþýðuflokkinn inn í samfylkingu vinstri manna. Hún og Róbert Marshall hótuðu að unga fólkið myndi snúast gegn flokksforystunni ef flokkurinn færi fram einn. Nokkuð sem vakti litla kátínu sumra ungliða sem töldu að þar væri forræðislaus smalamennska á ferð.

Þegar Þóra fór í víking og fjarlægðist stjórnmálastreðið voru þetta eftirmælin sem málgagn vinstri manna gaf henni:

Prúðasta rósin á pólitískum akri Alþýðuflokksins er Þóra Arnórsdóttir heimspekinemi. Þóra er að flestra mati bjartasta von krata í stjórnmálunum enda á hún ekki  langt að sækja hæfileikana. Þóra hefur verið hjartað í starfi Grósku allt frá stofnun  samtakanna auk þess að vera varaformaður  Sambands ungra  j a f n a ð a rma n n a. Þóra  hyggst nú taka sér frí frá vettvangi stjórnmálanna um skeið og dvelja á ítalíu við  nám í heimspeki næsta vetur. Mikil eftirsjá  ríkir í herbúðum Grósku og Alþýðuflokksins en ekki er að efa að Þóra mæti tvíefld  til leiks að ári og óskar Vikublaðið hinni stórhuga og glæsilegu kratamær góðrar
ferðar og þakkar henni frábær kynni á  liðnum árum

Eitthvað ílengdist Þóra í fríinu og var komin á kaf í fjölmiðlun stuttu seinna. Því er öllu gerð góð skil í ferilskrá hennar þótt pólitísku tilþrifunum sé sleppt.

Nú er ég ekki að segja að þetta sé Þóru til vamms. Alls ekki. Þóra þarf ekkert að skammast sín fyrir pólitískan feril sinn. Og verður alveg jafn góður forseti fyrir það. 

En það skyldi engum detta í hug að nafn Þóru hafi dottið af himnum eða að eina ástæða þess að hún var kölluð fram sé sú að hún sé klár kona sem verði hlutlaus forseti. Þóra er ekki hlutlaus frekar en Ólafur Börkur eða Jón Steinar. Hún kemur af hinum pólitíska varamannabekk sem alla tíð hefur skipt öllu máli á Íslandi þegar kemur að embættum og stöðuveitingum. Menn vilja þá sem eru hliðhollir sér í rétt störf og réttar stöður.

Þóra bauð sig ekki fram að eigin frumkvæði. Hún var kölluð fram af óvinum ÓRG. Kjarninn í stuðningsmönnum hennar eru þeir sem vilja ryðja úr vegi stjórnarandstæðingnum á Bessastöðum. En það mun ekki duga til. Það verður að selja nægilega stórum hópi í viðbót þá hugmynd að Þóra sé ópólitískur forsetaframbjóðandi og það sé kominn tími til að prófa eitthvað nýtt.Þóra er langt frá því að vera eitthvað nýtt í því tilliti. 

Engin ummæli: