5. apríl 2012

Walter Mitty

Fréttir af því að Ben Stiller ætli að taka senur í Hið leynda líf Walter Mitty upp á Seyðisfirði eru mér ekkert sérstaklega geðfelldar. James Thurber er í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér og hefur lengi verið. Kvikmyndin sem Stiller er að endurgera er ekki góð – og næsta víst er að hans mynd verður enn verri. Ég rakst á gamla „þýðingu“ í Úrvarpstíðindum á tímarit.is. Hún er á pörtum meiri endursögn. Ég ákvað að bjarga henni yfir á alminlegt stafrænt form fyrir áhugasama:



„Við skulum í gegn!“ 

Rödd skipherrans var þrumandi, rétt eins og ís væri að brotna. Hann var í einkennisbúningi sínum og hafði dregið gullskreytta einkennishúfuna niður yfir annað augað, grátt og kuldalegt. 

„Við komumst aldrei í gegn, skipherra, það er að verða úr þessu fellibylur, ef ég þekki nokkuð til". 

„Ég spyr yður ekki, Berg liðsforingi", sagði skipherrann. „Settu á fullan kraft. Keyrðu hana upp í 8500! Við skulum brjótast í gegn!" 

Skipherrann starði á ísinguna, sem var að setjast á gluggann á stjórnarklefanum. Drunurnar í vélunum jukust: pokketa — pokketa — pokketa — pokketa — pokketa. Svo sneri hann sér sér að áhaldaborðinu og sneri nokkrum dularfullum tökkum. 

„Setjið áttundu aukavél í gang!" kallaði hann. 

„Setjið áttundu aukavél í gang!" endurtók Berg liðsforingi. 

„Fullan styrk á þriðja turn!" kallaði skipherrann. 

„Fullan styrk á þriðja turn!" endurtók Berg. 

Skipsmennirnir voru löðursveittir hver við sitt verk í hinu risavaxna loftfari flotans. Þeir litu hver á annan glottandi. „Gamli maðurinn bjargar okkur", sögðu þeir hver við annan. „Gamli maðurinn óttast ekki helvíti sjálft“ 

... „Ekki svona hart! Þú keyrir of hart!" sagði frú Mitty. „Af hverju keyrir þú svona hart?" 

„Ha?" sagði Walter Mitty. 

Hann leit á konu sína, sem sat við hliðina á honum, með undrun og skelfingu. Honum virtist hún vera honum algerlega óviðkomandi, ókunnug kona, sem hefði kallað til hans í mannþröng. 

„Þú varst komin upp í 80", sagði hún. „Þú veizt, að ég vil ekki fara hraðar en 60. Þú varst í 80“. 

Walter Mitty ók þegjandi í áttina til Waterbury, en barátta loftfarsins SN 202 hvarf í fjarska gleymskunnar. 

„Þetta eru taugarnar í þér“, sagði frú Mitty. „Það er eitt kastið enn í þér. Ég vildi, að þú fengist til að láta Renshaw lækni líta á þig". 

Walter Mitty stöðvaði bifreiðina fyrir framan húsið, þar sem konan hans lét leggja á sér hárið. 

„Mundu nú að kaupa þér skóhlífar, meðan ég fæ mér lagningu", sagði hún". 

„Ég þarf engar skóhlífar", sagði Mitty. 

Hún setti spegilinn aftur í tösk-una sína. „Við erum búin að útræða það mál", sagði hún um leið og hún steig út úr bifreiðinni. „Þú ert kominn af léttasta skeiði". 

Hann jók ganghraða vélarinnar örlítið. 

„Af hverju gengurðu ekki með hanzkana þína? Ertu búinn að týna þeim?" 

Walter Mitty dró hanzkana upp úr vasa sínum. Hann lét þá á sig, en þegar hún var farin inn í húsið og hann þurfti að stoppa við rautt umferðaljós, tók hann þá aftur af sér. 

„Áfram með þig, kunningi", hreytti lögregluþjónninn út úr sér, þegar græna ljósið kom. 

Hann kippti aftur á sig hönzkunum og steig á benzínið. Svo ók hann stefnulaust um bæinn nokkra stund, en fór svo framhjá sjúkrahúsinu á leiðinni að bílastæðinu. 

... „Það er vellauðugi bankastjórinn, Wellington McMillan", sagði fallega hjúkrunarkonan. 

„Nú, einmitt“, sagði Walter Mitty og tók af sér vettlingana. „Hvers sjúklingur er hann?" 

„Dr. Renshaw og dr. Benhow hafa með hann að gera, en svo eru komnir hingað tveir sérfræðingar, dr. Remington frá New York og dr. Pritchard-Mitford frá London. Hann flaug hingað í skyndi". 

Hurðin fram á langan, svalan gang opnaðist og inn kom Renshaw læknir. Hann virtist áhyggjufullur og þreytulegur. 

„Halló, Mitty!" sagði hann. „Okkur gengur bölvanlega með McMillan. Þú veizt, vellríkur bankastjóri og einkavinur Roosevelts ...... Hvað segirðu um að líta á hann?" 

„Gjarna", sagði Mitty. Í skurðastofunni var hvíslast á kynningum. Dr. Remington, — dr. Mitty. Dr. Pritchard-Mitford, — dr. Mitty. 

„Ég hef lesið bók yðar um streptothricosis", sagði Pritchard-Mitford, þegar þeir tókust í hendur. „Afburða rit, herra minn". 

„Þakka yður fyrir", sagði Walter Mitty. 

„Ég vissi ekki, að þú værir í Bandaríkjunum, Mitty", tautaði Remmington. „Það er hreinn óþarfi að sækja mig og Mitford hingað, þegar þú ert við", sagði hann. 

„Þakka lofið", sagði Mitty. 

Stór og margbrotin vél, sem tengd var við skurðarborðið tók nú að gefa frá sér annarleg hljóð: pokketa, pokketa, pokketa. 

„Nýja svæfingavélin er að bila", hrópaði læknanemi. „Það er ekki maður í landinu, sem getur lagað hana!" 

„Hljóð, maður", sagði Mitty lágri röddu. 

Hann gekk að vélinni, sem nú glamraði í: pokketa, pokketa, kvíp, pokketa, kvíp. Lipurlega þreifaði hann á nokkrum gljáandi tökkum. 

„Fáið mér sjálfblekung", sagði hann. Einhver fékk honum sjálfblekung. Svo dró hann út bilaðan vélarhluta og stakk lokinu af sjálfblekungnum inn í hans stað. 

„Þetta dugar í tíu mínútur", sagði hann. „Haldið áfram með uppskurðinn". 

Hjúkrunarkona gekk hvatlega að Renshaw lækni og hvíslaði einhverju í eyra hans, en Mitty sá hann fölna upp. 

„Coreopsie hefur komizt í skurð-inn", sagði Renshaw hikandi. „Ef þú vildir taka við, dr. Mitty ...." 

Mitty leit á hann og hinn aumingjalega dr. Benhow, sem drakk of mikið. Hann sá óvissuna í andlitum sérfræðinganna tveggja. 

„Ef þér viljið . . . ." 

Hvítum slopp var brugðið yfir föt hans, hann hagræddi grímunni og setti á sig hanzkana. Hjúkrunarkonurnar fengu honum gljáandi tækin. 

„Afturábak, kunningi, og gættu að þessum Buick". 

Walter Mitty steig á hemlana. 

„Þú ert á vitlausum stað, kunningi", sagði eftirlitsmaður bifreiðastæðisins og leit vandlega á Mitty. 

„Ó, já", sagði Mitty. 

Hann ók varlega afturábak út af brautinni sem málað var á „út".  

„Láttu skrjóðinn vera þarna", sagði eftirlitsmaðurinn. „Ég skal koma honum fyrir". 

Mitty steig út úr bílnum. 

„Heyrðu, viltu ekki skilja lykilinn eftir?" 

„Ó, jú", sagði Mitty og fékk manninum vélarlykilinn. Eftirlitsmaðurinn smaug inn í bílinn og ók honum, með fyrirlitlegri nákvæmni á sinn stað. 

Þeir eru svoddan bölvaðir kjánar, hugsaði Walter Mitty, þegar hann gekk eftir Aðalstræti. Þeir halda að þeir viti allt. 

Hann hafði einu sinni reynt að taka keðjur af bílnum sínum fyrir utan Nýju Milfuru og hafði flækt þeim í öxlinum. Viðgerðamaður hafði komið þangað í viðgerðabíl til þess að ná þeim aftur, glottandi stráklings viðgerðamaður. Eftir það lét frú Mitty hann alltaf fara á bifreiðaverkstæðið til þess að láta taka keðjurnar af bílnum. Næst þegar ég fer þangað, hugsaði hann, þá skal ég vera með hægri hendina í fatla. Þeir skulu ekki hlæja að mér þá. Ég skal vera með hendina í fatla og þeir skulu sjá, að ég hefði ómögulega getað tekið keðjurnar af einn. 

Hann sparkaði í krapið á gangstéttinni. 

„Skóhlífar", tautaði hann fyrir munni sér og byrjaði að leita að skóbúð. 

Þegar Walter Mitty kom aftur út á götuna með skóhlífarnar í kassa undir hendinni, þá fór hann að velta því fyrir sér, hvað hitt hefði verið, sem konan hans sagði honum að kaupa. Hún hafði nefnt það tvisvar, áður en þeir fóru að heiman í Nýborg. Að vissu leyti var honum meinilla við þessar vikulegu ferðir til borgarinnar — hann var alltaf að gera einhverjar vitleysur. Voru það munnþurrkur, Squibb tannpasta eða rakvélablöð? Nei. Var það tannbursti, bökunardropar, hoffmannsdropar, hóstadropar, eða hvað var það? Blaðsölupiltur hrópaði eitthvað um réttarhöld í Vatnaborg .... 

.... „Hver veit nema þetta hressi upp á minnið hjá þér". Sakadómari otaði skyndilega stórri skammbyssu að rólega manninum í vitnastólnum. 

Mitty tók við byssunni og athugaði hana með sérfræðingsaugum. 

„Þetta er Wehley-Vickers 50.80 byssan mín", sagði hann rólega. 

Kliður og æsandi pískur fór um réttarsalinn. Dómarinn sló í borðið og bað um hljóð. 

„Þú ert afburða skytta með hvaða vopni sem er, er ekki svo?" sagði sakadómari. 

„Ég mótmæli", hrópaði verjandi Mittys. „Við höfum sannað, að sakborningur hefði ekki getað hleypt af skotinu. Hann gekk með hægri hendina í fatla kvöldið 14. júlí". 

Walter Mitty lyfti hendinni snögglega og hinir hvatvísu lögfræðingar þögnuðu. 

,,Með hvaða byssu sem er", sagði hann rólega, „hefði ég getað drepið Gregory Frizhurt á hundrað metra færi, með vinstri hendinni". 

 Hávaði mikill brauzt út í réttarsalnum. Konuhróp heyrðist yfir ópin og köllin, og skyndilega var gullfögur, dökkhærð stúlka í örmum Walter Mittys. Sakadómari barði hana af ákafa. Án þess að standa upp úr stólnum, gaf Mitty honum duglegt högg á hökuna: 

„Vesældar mannskepnan þín ..." 

 „Hundakex", tautaði Walter Mitty. 

 Hann staðnæmdist á gangstéttinni og byggingar Vatnaborgar risu upp úr réttarsalnum og voru nú á ný allt í kringum hann. 


1 ummæli:

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Niðurlaginu er sleppt í þessari þýðingu en það er á þessari úr Samvinnunni:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=291566&pageId=4285215&lang=is&q=Walter%20Mitty