12. apríl 2012

Upphafning ofbeldis



Ég hef óbeit á ofbeldi. Ég tel það ekki undir neinum kringumstæðum eðlileg bernskubrek að kýla úr mönnum tennurnar – hvað þá að slíkt sé undir einhverjum kringumstæðum eðlilegri hegðun þegar maður er rúmlega tvítugur en tíu eða tuttugu árum seinna.

Ég hef samt sem áður fulla samúð með því að fólk getur gert eitthvað sem það síðan iðrast af öllu hjarta síðan. Fólk getur gert viðbjóðslega hluti sem ekki verða aftur teknir – en unnið þannig úr verkum sínum að það er betra á eftir. Það er ekki bara vont fólk sem gerir vonda hluti og meira að segja vont fólk getur orðið gott með tímanum.

Hún er samt eitthvað sérlega ógeðsleg umræðan um þá viðbjóðslegu subbutaktík að draga fram í dagsljósið eldgamalt líkamsárásarmál Svavars Halldórssonar. Svavar svaraði þessu nafnlausa bréfi með miklum myndarskap. Að mestu leyti. Það er tvennt við svar Svavars sem mér finnst ögn undarlegt. Í fyrsta lagi að kalla líkamsárás þar sem hann olli öðrum manni verulegu líkamstjóni „líklega það versta“ sem hann hefði gert. Hinsvegar að segja: „Mér lenti saman við jafnaldra minn eftir ball og ...“

Ég hefði haldið að ef sæmilega heilbrigður maður hefði einhverntíma ráðist á einhvern og valdið honum svona alvarlegu tjóni þá gæti sá hinn sami tekið nokkuð afdráttarlaust til orða um að slíkt væri ekki einkennandi fyrir hegðun hans almennt. Það er þetta orð „líklega“ sem truflar mig. Finnst eitthvað bogið við það. Mér finnst orðið gefa til kynna ótilhlýðilega léttúðugt viðhorf til ofbeldisins. Nú, eða undarlega skuggalegt viðhorf til sjálfs síns. Svona eins og þegar örlagabyttur rekja sögu sína og gera sem mest úr syndum sínum.

Hitt truflar mig samt meira. Mér „lenti saman við“ jafnaldra minn. Hvað sem nákvæmum orðskýringum líður þá er pínulítið verið að gefa það í skyn að hinn maðurinn hafi í raun kannski verðskuldað það pínulítið að vera laminn. Hann hafi eiginlega bara tapað í slag. Og það er ekki bara ég sem fæ þessa tilfinningu. Blessað fólkið sem tjáir sig um þessa frétt er meira og minna allt á þessari línu: að það sé fyllilega eðlilegt að ungir takist á með hnúum og hnefum. Sumir ganga jafnvel svo langt að mæra Svavar sérstaklega fyrir að láta ekki vaða yfir sig. Hér eru nokkur dæmi:


„Er þetta djók? Hann gaf einhverjum á kjaftinn fyrir tuttugu árum síðan, so what?“

„Eigum við bara ekki að grafa upp axarsköft allra frambjóðenda og maka þeirra þegar þeir voru á aldursbilinu 18-25 ára?? Common pípol...uppúr sandkassanum!“

„þetta er ekki í lagi, en sannar hins vegar að það verður mannlegt fólk á Bessastöðum :-) sem mér finnst vera mikill kostur“
 
„Að lenda í útistöðum þegar menn eru að fá sér ? Þvíííílíkur skandall“
 
„Hvaða smámunasemi er þetta, flestir sem ég þekki hafa nú gefið eins og eitt kjaftshögg á lífsleiðinni.“

„Guð minn almáttugur. Hvað gerði maður EKKI fyrir 20 árum? Slæst fólk ekki eftir böll enn þann dag?“

„Ég býst við að kjósa þóru. Hún á mann sem hefur farið á ball og slegist! Mér finnst það smart! Það segir mér að þetta er normal fólk með normal bakgrunn.“

„Ömurlegt að vera að grafa upp 20 ára tittlingaskít til að skemma fyrir fólki. Enginn er fullkomin.“

„Hverjum er ekki skítsama þótt honum hafi lent saman við einhvern á skemmtistað fyrir 20 árum síðan?“

„Þetta ætti nú bara að hjálpa henni. Kandídatinn í næstu forsetafrú er greinilega ekkert pushover sem lætur vaða yfir sig. ;)“

Með fullri virðingu fyrir öllu þessu fólki (sem ég kýs að nafngreina ekki) þá verð ég að segja að það að hljóta dóm fyrir að brjóta tennur í einhverjum er ekki eðlilegt og það gerir mann ekki að hetju. Það að vera drukkinn er ekki afsökun fyrir að beita annað fólk ofbeldi og gerir atburðina ekki skiljanlegri eða ásættanlegri.

Og það að varpa hluta af ábyrgðinni yfir á fórnarlambið með því að tala um að maður hafi „lent“ í því að skaða aðra manneskju eða að eitthvað við það hvernig hin manneskjan bar sig að hafi skýrt ofbeldisverknaðinn – það er ekki í lagi.

Sá sem beitir aðra manneskju ofbeldi ber sjálfur fulla ábyrgð á því. Sökinni verður ekki varpað á aðstæður eða aðra – allra síst fórnarlambið sjálft. Svo virðist sem stór hluti þjóðarinnar sé mér ósammála um þetta en ég verð að segja að ég hef engan áhuga á því að þetta sjúka viðhorf til ofbeldis sé það sameiningartákn sem kallað er eftir. Ég hef raunar sáralítinn áhuga á að tilheyra þjóð – eða líta á þá sem bræður mína og systur – sem telja líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi smámál eða jafnvel eitthvað til að stæra sig af.

Mér finnst eitt og annað bogið við frásögn Svavars sjálfs. Mér finnst líka skrítið ef hann greiddi ekki miskabætur sem hann var dæmdur til að greiða. Annað í frásögninni finnst mér virðingarvert og gott.

Ég er alveg til í að sameinast Svavari og þjóðinni í iðruninni og trúinni á að maður geti orðið að betri manni. En ég hef ímugust á þeim sem telja iðrun óþarfa.

Þetta er ógeðslegt viðhorf þjóðar sem því miður er stundum frekar ógeðsleg inn við beinið.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hefði líka notað orðið "líklega"
Hvað veit hann nema hann hafi einhverntíma í rifrildi við einhvern eða í hugsanalausu kommenti sagt eitthvað sem hefur sært meira á sálina á viðkomandi heldur en sárin sem fórnalambið fékk?
Hann nebblegast veit það ekki og þessvegna þykir mér ekkert bogið við það að hann noti orðið "líklega" í þessu samhengi.
Ég allavega les þetta þannig að honum þyki líklegt að þetta sé það versta sem hann hafi gert nokkrum manni en sé þó ekki í aðstöðu til að fullyrða það.

Nafnlaus sagði...

sama og Anon að ofan sagði. Mér dettur í hug að Svavar hafi sagt 'líklega' af því að stundum getum við ekki vitað allar mögulegar afleiðingar gjörða okkar eða hegðunnar. Sem fréttamaður hefur hann t.d. fjallað um allskyns viðkvæm mál, og í íraksstríðsfréttaflutningnum hefur hann mögulega stefnt heimildamönnum í hættu. Ég er að mestu sammála þér að "lenti í/við" orðalag er ofnotuð klisja, sem léttir ábyrgð af gerendum. Hinsvegar er það svo að í dómsmálum, og þetta kemur fólki oft á óvart, þá skiptir engu máli hvort einhver hafði 'réttmæta' ástæðu til að t.d. fara í slag. Lögin refsa bara neikvæðu hegðuninni sem fylgir. Ég hef reyndar hvergi séð nákvæmlega hver uppspretta ball-átaka Svavars var, eða hver sló fyrst eða whatever, kannski man það enginn lengur. Það eina sem horft er til er sú afleiðing þeirra viðskipta Svavars og mannsins ónefnda að hinn síðarnefndi hlaut títtnefnd sár. Það hefði ekki breytt neinu fyrir svavar þótt brotaþolinn hefði allt kvöldið verið með dónaskap og leiðindi, og vísvitandi manað svavar til slagsmála.

Hildur Lilliendahl sagði...

Auðvitað getum við ekki vitað fyrir víst hvaða afleiðingar allar okkar gjörðir hafa haft fyrir aðra - eins og þegar hefur verið bent á tvisvar í þeim tveimur athugasemdum sem hér eru.

Þessar athugasemdir um að líkamsárásin sé eðlileg bernskubrek fer í taugarnar á mér en fyrir tuttugu árum síðan var Svavar Halldórsson 22 ára gamall. Við höfum langflest ýmislegt á samviskunni sem við gerðum sem krakkar (og jú, 22 ára gamlir strákar eru í afar mörgum tilvikum voðalegir krakkar) - ég rekst reglulega á hluti sem ég sagði þegar ég var 26 og myndi aldrei segja í dag.

Afsökunarbeiðnin hans var heiðarleg og varðandi orðalagið að lenda saman við einhvern, þá skulum við átta okkur á því að við höfum ekki séð dóminn (eða hvað?) og vitum ekkert hvað það var sem gerðist. Vitum ekki hver átti fyrsta höggið eða hvað það var sem gekk á undan.

Nafnlaus sagði...

Ofbeldisverk eru, að mínu mati, tæplega réttlætanleg, óháð því hvað það var sem gerðist á undan, eða finnst einhverjum hægt að réttlæta kynferðisbrot með einhverju sem þolandinn hafði áður gert ? Eða finnst fólki kannski breyta öllu, hvort verið er að tala um svokallaða "líkamsárás" , eða nauðgun ?

Nafnlaus sagði...

Obeldisverk eru ekki réttlætanleg.Tökum dæmi og nú er veit ég ekkert um umrædda líkamsárás. Ef tveimur einstaklingum lendir saman og báðir hafa illan hug. Annar skaðar meira en hinn. Er þá bara einn obeldismaður? Samanburðurinn við kynferðisglæpi finnst mér rökleysa. Tveir nauðgararar reyna að nauðga hvor öðrum? Annar nauðgar meira en hinn. Nei varla í raunveruleikanum. Í kynferðisglæpum er bara einn gerandi. Tveir einstaklingar sem láta hnefana tala geta að mínu mati verið jafnsekir.