10. apríl 2012

Smokk á BessastaðiÁrið 1996 var ég nýbúinn að fá kosningarétt. Fyrstu kosningar mínar á ævinni voru forsetakosningarnar sem ÓRG vann. Ég kaus hann ekki. Veturinn eftir kenndi ég vestur á fjörðum og var næstum neyddur út af háskalegum fjallavegi þegar lögreglubíll rak mig út í kant á vafasömum stað. Bara svo ÓRG gæti hitt hirðina sína í smáþorpunum án þess að keyra þangað á löglegum hraða. Þar sem gljáfægður forsetabíllinn brunaði framhjá mér hugsaði ég þessum snobbsterti þegjandi þörfina. Ég hefði glaður steypt honum fram af Látrabjargi á því augnabliki.

Ástæða þess að ég mun að öllum líkindum kjósa ÓRG í kosningunum komandi er sú að ég geri mér grein fyrir því að ég bý í samfélagi stöðugrar valdníðslu. Samfélagi sem kann ekki og vill ekki tala saman. Samfélagi sem sér ekkert nema hagsmuni og er næstum alveg gersneytt hugsjónum, hvað þá viljanum til að gera það sem rétt er þótt það komi manni illa.

Merkilegt nokk styð ég ríkisstjórnina. Upp að því marki sem mér finnst geðslegt að styðja hana. Því hún og meirihlutinn á Alþingi hefur ekki nokkurn einasta vilja til að breyta vinnubrögðum eða hegðun þingmanna. Alþingi er sama djók og fyrir hrun. Sama handónýta draslapparatið þar sem menn beita bolabrögðum, skömmum og fagurgala í sveiflukenndum hlutföllum til að draga vagninn í sjálfsaurgaðri forinni í átt að marki sem menn eru löngu búnir að gleyma.

Minn æðsti draumur fyrir íslenska þjóð er að fram komi fólk sem vill kannski ekki endilega gera aðra hluti en þá sem fólk í flestum flokkum vill – heldur vill gera þá öðruvísi. Ég myndi alveg sætta mig við að búa í samfélagi sem kýs að fara aðra leið en ég teldi ákjósanlega ef við gætum komið okkur saman um sæmilega siðaðar leikreglur um það hvað verður ofan á. Þessi bakgarðsslagur sem hið „lýðræðislega“ fyrirkomulag hefur skilað okkur er í senn viðurstyggilegur og forheimskandi. Ég væri meira en til í að kjósa þingmann eða forseta sem væri ósammála mér um meginatriði – ef við gætum treyst á eðlilegt samtal okkar á milli; ráðamannsins og þjóðarinnar, ráðamanna innbyrðis og þjóðarinnar innbyrðis.

Því miður virðist lítill áhugi á því. Það má yfirleitt aldrei tala um hlutina eins og þeir eru – menn eru svo uppteknir við að hylja þá með myndum þess sem þeir fullyrða að þeir séu. Hvert einasta orð, hver einasta setning er skóflustunga. Því fleiri orð sem falla, þeim mun dýpri verða skotgrafirnar.

Með fullri virðingu fyrir öllu því ágæta fólki sem tjáir sig hægri vinstri um öll mál – mikið af því sem ég les fyllir mig sorg og leiða. Yfir því að það þori svo afskaplega fáir að vera ærlegir. Menn geta aldrei komið af stað samtali – því allir vilja eiga fyrsta orðið. Og það síðasta. Og öll orðin þar á milli.

Ég ætla nú að kjósa ÓRG vegna þess að núverandi stjórnvöldum er þrátt fyrir allt ekki fyllilega treystandi. Þau hafa svikið fallega hugsjón um að hunskast nú til að skapa nýtt Ísland. Þau þykjast vera að því en aðfarirnar koma upp um þau. Þau eru í sama hráskinnaleiknum og hingað til hefur verið stundaður.

Ég ætla að kjósa ÓRG vegna þess að ég hef óbeit á nánast öllum þingheimi og vil, reynslunnar vegna, hafa forseta sem vís er með að stöðva ofur-valdabrölt stjórnmálamanna sem komast í slíka aðstöðu.

Forsetinn hefur mjög takmarkað vald. En Alþingi og forsetinn hafa gagnvirkt vald sem báðir aðilar geta beitt fari hinn freklega út fyrir valdsvið sitt. Það má sækja forseta til saka með sama hætti og ráðherra kjósi Alþingi það. Alþingi getur komið forseta frá sé það vilji þjóðarinnar. Með sama hætti getur forsetinn vísað lögum til þjóðarinnar.

ÓRG hefur sannað að hann er tilbúinn að stöðva mál og vísa þeim til þjóðarinnar. Hann hefur verið bakkaður upp af meirhluta þjóðarinnar í öllum slíkum málum. En um leið skapað sér gríðarlega óvild stjórnmálaaflanna. Sem nú vilja hann burt. Því miður er það svo að Þóru Arnórs er fyrst og fremst ætlað tvennt: að sigra (og niðurlægja) óvin stjórnmálaaflanna og að koma í veg fyrir frekari truflanir af hálfu forsetans (a.m.k. meðan þessi öfl fara með völd). Henni er ætlað að stimpla embætti forsetans burt úr valdabaráttu stjórnvalda og tryggja að þingræðið renni smurt.

Þið fyrirgefið, fyrir mér er það að skipta um forseta á þennan hátt dálítið eins og að halda upp á það, að sannanlega ótrú kærasta segist lofa að hætta að sofa hjá öllum sem henni dettur í hug, með því að hætta að nota smokk. Og kalla það til marks um nýja og betri tíma.

Helst vildi ég nýjan bólfélaga með öllu. Einhvern sem ég get treyst og átt sæmilega heilbrigt samband við sem áhugasamur og ábyrgur lýðræðisþegn.

Ég vona að ný stjórnarskrá taki svo gildi sem fyrst og að alminlegt fólk fari að taka þátt í alminlegri pólitík. Ég mun glaður sjá á eftir ÓRG sem allra, allra fyrst. Mér þætti voða vænt um ef sem flestir af þeim sem nú berjast fyrir því að steypa honum af stóli fylgdu honum burt.

1 ummæli:

Eva Hauksdottir sagði...

Það er líka hægt að neita að taka þátt í þessu rugli með því að kjósa bara alls engan.