14. apríl 2012

Að fíla ekkóið



Maurildi eru sumpart óvenjulegt blogg. Fyrir það fyrsta má kenna áhrif þess að ég er kennari. Ég legg mig fram um að efla með nemendum mínum sjálfstæði og gagnrýna hugsun og reyni eftir fremsta megni að móta ekki skoðanir þeirra á einstökum málum. Ef nemandi spyr hvað mér finnst um mikil álitamál reyni ég að ræða málið án þess að gefa upp afstöðu mína.

Vitandi það að nemendur mínir gætu lesið það sem ég skrifa hér slæ ég sjálfur nokkra varnagla. Ég reyni að vanda mig í því sem ég segi og hafa textann frekar lengri en styttri; krefjandi en aðgengilegan. Nemendur mínir myndu ekki meðtaka flest af því sem ég segi hér. Og raunar er það svo að þegar einhverjar færslur eftir mig fara á flug og fá mikla útbreiðslu þá slæðist undantekningalaust inn haugur af fólki sem ekki nennir eða getur lesið sér til nægs gagns til að skilja það sem ég skrifa – illu heilli stöðvar það ekki alla í að hafa og tjá sterkar skoðanir á því sem ég segi.

Það er afar hæpið að ég muni nokkru sinni breyta þessu. Mér finnst margfalt betra að hafa minni lesendahóp sem umber torfið, rangalana og pælingarnar en stóran hóp sem nennir ekki eða kann ekki að lesa.

Að því sögðu veit ég að ég reyni reglulega á þolrif reglulegu lesendanna einnig. Enda legg ég mig sérstaklega fram um (og þetta er ekkert leyndarmál) að benda á það sem mér finnst athugavert í opinberri umræðu – oft þrátt fyrir að bloggvinir mínir og kunningjar verði fyrir skeytum frá mér. Þeim til hróss þá eru þeir sem oftast verða fyrir „aðkastinu“ afar umburðarlyndir, láta yfirleitt nægja að hugsa „ja, hann er í þessum gírnum“ og bíða spakir þar til ég blogga eitthvað sem þeim er meira að skapi. Einstaka maður kvartar við mig og vill að ég bloggi betur.

Ég hef ansi stífan innri mælikvarða á það hvenær ég er að standa mig vel í blogginu. Sumir pistlarnir sem ég hef skrifað finnst mér ægilega góðir, greindarlegir og gagnlegir. Sumir af þeim allra bestu voru mjög lítið lesnir. Sumir af vinsælustu pistlunum mínum eru líka ekkert spes – en mikið mærðir engu að síður. Viðtökur fólks eru afar slakur mælikvarði á gæði. Fyrst og fremst vegna þess að við erum alltof mörg sífellt að snuðra og leita að endurómi eigin skoðanna. Það er bergmálið sem bloggið snýst að mestu um – og hefur gert síðan það varð svona massafyrribæri.



Fólk les sjaldnast blogg til að takast á við eigin skoðanir. Til að hlusta og fá fram ný sjónarhorn. Flestir lesa blogg til að finna þau sem þeir eru sammála og fá á tilfinninguna að slíkar færslur gefi skoðuninni meira gildi eða sé leið til frekari áhrifa. Þannig eru heilu fésbókarveggirnir þaktir línkum í hin ýmsu blogg og maður getur á augnabliki ályktað: „Þessi vill í ESB“, „Þessi hatar ESB“, „Þessi hatar ÓRG“ og „Þessi hatar Þóru“.

Og bloggarar falla í þá gryfju að verða málpípur. Hrífast af athyglinni og aðdáuninni þegar þeim er hampað og skrifa sífellt meira af því sama. Ekki til að dýpka þekkingu sína eða rannsaka nýja fleti heldur til að rúnka fram meiri sælu. Ef marka má skrif fólks almennt þá eru bloggarar almennt ofsalega einstrengingslegir og hugmyndasnauðir og lesendur þeirra meira og minna ólæsir á allt annað en samhljóm skrifta og sannfæringar. Sanngirni er óáhugavert miðjumoð.

Þegar menn lesa eitthvað sem þeir eru ósammála eru þeir fyrst og fremst að leita að einhverju til að hneykslast á. Einhverju smáatriði sem hægt er að tala fýlulega um að lestrinum loknum.

Við erum frekar léleg í að tala saman. Við erum of upptekin af því að mynda friðarbandalög og klíkur. Við erum of upptekin af yfirborðskenndu hrósi. Við erum of miklar hjarðsálir.

Og samt erum við fólkið sem les og skrifar um þjóðfélagsmál. Fólkið sem á alla möguleika á því að leggja eitthvað til samfélagsins í formi hugmynda, gagnrýni og frumleika.

Ég tók mér far með leigubíl um daginn. Hann byrjaði að keyra 2007 og keypti sér nýjan bíl á myntkörfuláni. Síðan hefur hann stritað við að borga af bílnum og lýkur því á þessu ári. Ástæða þess að hann keypti nýjan, dýran bíl: Hann vildi ekki vera útundan. Það voru allir að skipta og þeir sem ekki skiptu voru litnir hornauga. Hann stóðst ekki félagslega þrýstinginn. Hvað þá hrósið sem fylgdi því að kaupa alveg óvenjulega dýran og flottan bíl.


Það voru ekki illir bankamenn og vanhæfir stjórnmálamenn sem drógu íslenskan almenning í svaðið. Það eina sem þeir gerðu var að koma fyrir flóðljósum við drulluforina og segja: „Hér er flott að vera.“ Flestum þurfti ekki að bjóða oftar en einu sinni að taka sér sundsprett.





1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

tl;dr

Ég er ógurlega klár og mér er sama um það sem öðrum finnst, en samt ekki.