Ég er eiginlega búinn að fá mig fullsaddann á dévaff áhrifum í samfélaginu. Dévaff vinnur markvisst að því að etja fólki saman. Fjölmiðillinn virðist álíta að reiði og andúð séu sterkustu drifkraftar samfélagsins.
Ég veit að margir telja mig einhverskonar bláeygðan frjálshyggjumann með ótrúlega óréttlætta trú á mannkynið. Mér hefur beinlínis verið legið á hálsi fyrir það. Margir segjast eiga erfitt með að skilja að ég eyði svona miklu púðri í að verja Snorra gegn velsæminu.
Ég hef ekki áhyggjur af Snorra persónulega. Ég hef áhyggjur af því að til séu löglegar og ólöglegar skoðanir, að móðgunargirni og hörundssárni ráði því hvað segja má. Að menn fái að skilgreina sjálfir skaðann sem þeir verða fyrir við það að aðrir hafi skoðanir á þeim – og krefjast lögverndar.
Nú eru viðbrögð vegna karlar-sem-hata-konur-albúms Hildar komin fram. Og menn stökkva á Snorraspenann. Aðalatriðið verður að hún notar orðið „hatur.“ Það má kalla hana öllum illum nöfnum til baka, segja hana sjúka og ógeðslega – en það má ekki segja um nokkurn mann að hann hati.
Sem er rugl.
Titill albúmsins er algjörlega viðeigandi. Bókin „karlar sem hata konur“ er ekkert bara um nauðgara og morðingja. Stieg Larson var einmitt að reyna að skrifa femíníska áróðurs-spennubók. Ég hugsa að honum þætti mjög miður ef hann kæmist að því að almennt og yfirleitt upplifðu menn (karlmenn) að þeir einu sem ættu að taka bókina til sín séu morðingjar og nauðgarar.
Málfrelsið á að þola móðgunargirni velsæmis, sem gjarnan er hræsnisfullt. Það má ekki láta eins og orðið „hatur“ verði kúgunartól.
Þá erum við komin ótrúlega nærri skoðanakúgun kirkjunnar um aldir.
4 ummæli:
Þau eru mörg blæbrigði þagnarinnar.
http://www.amx.is/fuglahvisl/18102/
Þú missir af pointinu, Ragnar.
Aðalatriðið er ekki að orðið hatur komi við sögu. Aðalatriðið er að BÆÐI karlar og konur hafa rétt til að hafa á því skoðun hvort eitthvað sé móðgandi eða ekki.
Rétt eins og konur hafa fulla ástæðu til að reiðast yfir einu og öðru, hvort sem körlum þykir það tiltökumál eða ekki, eiga karlar fullan rétt á að hafa á því skoðun hvort titillinn sé ljótur og vísi til þessa eða hins sem bókin fjallar um.
Hildur valdi ögrandi titil til að vekja athygli. Það tókst. Kostnaðurinn við það er sá að fólk talar mikið um það sem er ögrandi við titilinn.
Það er ekki hægt að leika djarft og væla síðan hástöfum yfir því að það hafi ekki sömu kosti og að fara varlega.
Umræðan er bara fullkomlega eðlileg, því það voru nokkur feilspor stígin í þessu ferli. Þess utan tókst þetta bara mjög vel því boðskapurinn náði mjög víða og því ekki yfir neinu að kvarta.
Bara gott hjá Hildi, en það má alveg finna að þessu hjá henni líka.
Tja, eina kommentið sem ég sá í þessu albúmi sem mér fannst virkilega ekki eiga heima þar var frá Jakobi. Ég undanskil því hans viðbrögð í vanþóknun minni (þótt þau séu raunar undarlega barnaleg).
Ég er einfaldlega að benda á það að tvisvar á skömmum tíma hefur það átt að verða stórmál að nota hugtakið „hatur“ um viðhorf einhvers.
Ég vil ganga lengra og segja: Það má hata. Það má hafa skoðun sem einhver annar kallar hatur.
Hinsvegar eru flestir karlarnir í þessu blessaða albúmi ekki að verða fyrir skoðanakúgun, það er verið að afhjúpa þá sem ógeðslegar, kvenfyrirlítandi verur. Fyrir utan kannski Þráinn, hann er bara gamall þöggunardólgur sem telur kynferðislega áreitni alkans einkamál.
Það að þessir drullupelar væli svo og segi að það megi ekki kalla þá kvenhatandi karla er bara ekki jafngild skoðun og sú, að það sé einmitt það sem þeir eru.
Nákvæmlega í þeim skilningi sem Stieg Larson var að meina.
Ragnar, pabbi minn átti þarna komment um æru ásakaðra nauðgara og viðsnúning sönnunarbyrðinnar.
Sjá færslu mína um málið: http://www.andmenning.com/?p=10093
Hann var að tala um viðkvæmt málefni sem verður varla rætt öðruvísi en að það hljómi kuldalega, en var hreint ekki að hatast eða fyrirlíta neinn.
Málið er að þegar fólk er búið að setja upp gleraugu sem eiga að sjá kvenhatur fer það að sjá það ansi víða og ekki endilega af því að það er til staðar, þú virðist til dæmis hafa fallið í þá gryfju, fyrst allt í þessu safni er orðið svona svarthvítt fyrir þér.
Að því sögðu skiptir að sjálfsögðu ekki öllu máli að þarna séu einhver feilspor, nema í þeim skilningi að sum þeirra, eins og dæmi föður míns, eru svo augljóslega ekki ruddaleg eða illviljuð að margir verða afhuga aðgerðinni og þykir hún ofstækisfull - og ósveigjanleikinn í umræðunni hefur bara magnað þau áhrif.
Það er rangt að fullyrða að allir í safninu hafi átt skömmina skilið, til þess er safnið alls ekki nógu vandað - sem það þarf heldur ekkert að vera ef talað er um það á aðeins öðrum nótum. Safnið er góð og þörf ábending um hvernig umræðan er. Það eru ummælin sem eru ógeðsleg og einhverjir þeirra sem eiga þau eru það eflaust líka. En dómstóll götunnar yfir einstaklingum er ekki málið í þessu máli frekar en flestum öðrum.
Skrifa ummæli