27. febrúar 2012

Karlar sem hata konurÉg skrifaði þetta um nafnleysi á netinu 1. september í fyrra:
Nei, flest af því ógeðslegasta sem skrifað hefur verið á íslenska netinu hefur verið skrifað af nafngreindu fólki. Kommentin á dévaff eru yfirleitt ofsalega sorgleg blanda af heimsku og múgæsingi. Og það undir fullu nafni og mynd.
Það er nefnilega ekki svo að heiftin minnki við það að skrifa undir nafni. Heiftin blossar upp vegna þess að menn eru að tjá sig gegnum trefjaþræði en ekki feistúfeis. Þegar maður hatast undir fullu nafni dregur maður hinvegar hatrið og heiftina með sér út í raunverulega lífið. Vinir manns inna mann eftir því sem þeir sjá mann skrifa og þá þarf maður auðvitað að standa undir því. Eiturgufurnar af internetinu menga þannig kjötheima – meðan sá sem andskotaðist nafnlaust snýr sér að öðru.

Nú hefur þetta haldið áfram að sanna sig á þeim mánuðum sem liðnir eru. Hildur birti brot af ýmsu góðu á FB undir titlinum: „Karlar sem hata konur.“

Það að hatast undir nafnleynd held ég haldi hatrinu í skefjum. Það að hatast udnir nafni og mynd gerir það persónulegt og gerir mann að forhertu fífli.

Ég get ekki betur séð en að hvert einasta komment (fyrir utan kannski eitt eða tvö) sem þarna eru flokkuð sem kvenhatur – eigi þar fyllilega heima. Og við höfum virkilega gott af því að horfast í augu við þessi viðhorf.

Nú er ég enginn aðdáandi femínista og ég er mótfallinn valdbeitindu í þágu vafasamrar hugmyndafræði. En mikið ofsalega þarf sérstaka tegund af manni til að halda áfram að amast við þeim þegar þeir díla við heimskuna, illgirnina og lítilmennskuna.

Það er ekki annað hægt en að standa með konunum sem fá yfir sig ógeð og skít á hverjum degi frá mönnum sem eru siðferðilegir og vitsmunalegir dvergar í samanburði við þær. Þeim mun mikilvægar er að við, sem stundum höfum att við femínista kappi, sýnum þann manndóm að taka þétta stöðu með þeim. Það kann að vera að okkur greini á um sitthvað – en allar alvöru ógnir eru þannig að ágreiningssystkin verða að standa saman gegn þeim.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil.

Kannski er það skortur á nafnleysi sem hindrar svokallaða jafnaðarmenn og vinstri menn að taka óbrenglaða afstöðu í máli fyrrum formanns jafnaðarmanna. Þeir þora ekki fyrir sitt litla líf að láta í sér heyra fórnarlambinu til stuðnings svo þöggunin öskrar á mann. Hins vegar koma þeir fram undir fullu nafni til að ráðast á fórnarlambið og fjölskyldu þess og leggja jafnframt á ráðin um finna leiðir til þess að ritstjóri Nýs lífs verði útilokaður frá fjölmiðlum í framtíðinni.
Þannig starfa íslenskir jafnaðarmenn í dag. Þeir krefjast þess að skoðanir séu persónugreinanlegar. Næst verður farið fram á persónugreinanlegar kosningar. Þannig verður örugglega hægt að skipta öllum í réttar fylkingar og stjórna umræðunni.
Heggur sá er hlífa skyldi.

Glaumur

Nafnlaus sagði...

Össur brást þannig við að hafa áhyggjur af börnum í útlöndum og skrifaði grein um það.