4. mars 2012

Forsetakosningar: staðan núÓlafur Ragnar Grímsson býður sig fram aftur. Mjög margir mega ekki til þess hugsa. Aðrir fyllast eldmóði við tilhugsunina um að hann tapi kosningum og fari þar með í sögubækurnar sem forsetinn sem lýðskrumaði fyrir stundarhylli en dró forsetaembættið inn í pólitík andstætt vilja þjóðarinnar. Sigur hans í kosningunum tryggir endanlega að hann muni fara í sömu bækur sem forsetinn sem stóð með þjóð sinni og naut hylli þegar stjórnmálin glötuðu trausti. Því naumari sem sigur hans yrði, þeim mun líklegra að orrahríðin haldi áfram.

Staða ÓRG er góð. Mjög góð. Að venju fara fram einhverjir ótrúverðugir náungar sem enginn vill í alvöru kjósa. Það er stutt í kosningar og meðal andstæðinga forsetans er panikk. Menn leita að einhverjum – bara einhverjum – til að fara gegn honum. Sá sem það gerir mun hafa bundnar hendur því langstærsti ádeilupunkturinn er ónothæfur. Enginn sem fer gegn ÓRG nú mun geta gagnrýnt pólitíska tilburði eða sagst vilja ópólitískan forseta því það eitt að fara fram á þessum tímapunkti, en vera ekki löngu búinn að því, er pólitísk aðgerð. Það er enda pólitíkin sem kallar nú á mótframboð. Hefði einhver talið sig eiga verulegt erindi við embættið væri sá hinn sami löngu búinn að tilkynna framboð.

Það sem gerir þetta enn pólitískara er að mótframbjóðandi ÓRG verður að njóta stuðnings margra aðila. Það þýðir ekki að fram komi margir aðilar, hver með sitt bakland. Þannig munu atkvæði dreifast og ekki koma í veg fyrir skrið ÓRG. Það er því alveg ljóst að mjög margir munu þurfa að sameinast um einn frambjóðanda – sem þeir jafnvel hafa ekki endilega brennandi áhuga á að fá á Bessarstaði – en standa þétt við bakið á til að reyna að stöðva ÓRG. Þessu kyngja þeir af pólitískum ástæðum.

Sjálfstæðismenn munu að sjálfsögðu vera hlutlausir að mestu. Vitandi það að ÓRG segist ætla að hætta þegar „pólitískur stöðugleiki“ kemst á. Sem í augum þeirra merkir þegar núverandi ríkisstjórn er komin frá og ESB-umsókn hefur verið hafnað. Sjálfstæðismenn vita að vera ÓRG á Bessastöðum veitir núverandi ríkisstjórn skráveifur og að sigur hans í kosningum myndi magna upp andúð á SJS og JS. Þeir munu því dunda sér við það á bak við tjöldin að munstra upp næsta frambjóðanda. Þann sem tekur slaginn eftir 2-4 ár þegar búið verður að undirbúa framboðið af slíkum krafti að sundurlynd vinstri öfl munu ekki geta boðið annan betri – sérstaklega ekki eftir að hafa kastað fram frambjóðanda í fljótheitum til höfuðs ÓRG nú. Skiptir raunar ekki öllu máli þótt vinstri mönnum tækist að sigra ÓRG nú (sem verður að teljast mjög ólíklegt). Frambjóðandi sem yrði forseti þannig missir allt vægi sitt um leið og ÓRG réttir honum silfruðu sósuskálina í borðstofunni á Bessastöðum. Ef einhver annar vinnur ÓRG nú mun sá hinn sami ekki aðeins hafa á sér pólitískan stimpil, heldur stimpil sem tengir hann við verulega óvinsæl stjórnvöld. Hann mun líka sitja í þeim skugga að hafa komið fram rétt fyrir kosningar til þess eins að losa þjóðina undan ÓRG. Sigri hann mun ÓRG vera úr sögunni og þá hefjast 4 löng ár fyrir nýja forsetann sem mun hafa náð eina markmiði sínu áður en hann fékk djobbið. Hann mun einnig sitja undir stöðugu ámæli ef hann undirritar óvinsæl lög og vera sakaður upp leppsskap. Þetta er win-win staða fyrir Sjálfstæðismenn sem munu samt margir kjósa ÓRG bara upp á óþægindin sem það veldur JS og SJS.

Það er þessvegna nauðsynlegt að fram komi einn, og aðeins einn, frambjóðandi sem óvinir ÓRG geta sameinast um. Sá frambjóðandi verður að virka (a.m.k. á yfirborðinu) ótengdur stjórnvöldum (svona að mestu). Hann verður að hafa eitthvað til að bera sem menn geta notað sem átyllu til að kjósa viðkomandi.

Af þessum ástæðum er augljóst að þessi frambjóðandi verður að vera kvenkyns. Þá getur a.m.k. einhver hluti þjóðarinnar trúað því að kynferðið ráði atkvæðinu. Þessi kona má samt ekki vera of mikill kvenréttindafrömuður. Hún má samt ekki vera skaplaus lydda.

Það verður að teljast líklegast að fyrst verði farin blysför til Salvarar Nordal. Hún á fáa náttúrulega óvini og hefur sýnt það upp á síðkastið að hún hafi skap. Þessi gamli rökfræðikennari minn er líklega sú eina sem á þessum tímapunkti getur safnað nægu fylgi gegn ÓRG til að eiga séns.Andstæðingar ÓRG myndu kjósa hana án þess að hugsa sig tvisvar um. Þeir andstæðingar ríkisstjórnarinnar sem vilja umbætur myndu tengja hana við stjórnlagaráð og nýja stjórnarskrá og fullt af Sjálfstæðismönnum myndu ekki hugsa til þess með hryllings að Nordal tæki við á Bessastöðum.  Og hún er kona.

En það er bara einn galli. Það er alls ekkert víst að Salvör hafi minnsta áhuga á að verða forseti. Þetta er að mörgu leyti orðið ógeðfellt starf og aðstæðurnar sem nú eru uppi eru einstaklega ógeðfelldar. Hún á ennfremur sigurinn alls ekki vísan og ef hún tapar þá hefur hún tapað nokkru sem hún hefur byggt gervallan starfsferil sinn á: að standa utan flokkadrátta og hrossakaupa.

Þetta er spennandi. Ef ég ætti að veðja myndi ég leggja minn peninga á ÓRG.

Engin ummæli: