14. febrúar 2012

Atburðarásin óumflýjanlega?

Forsendur:Ljóst er að menn með þær skoðanir að „barnamisnotkun, nauðgun, framhjáhald, kynvilla og lauslæti“* séu syndir eigi ekki erindi við kennslu barna eða önnur opinber störf þar sem áhættan af mögulegum áhrifum þeirra og særindi sem þeir valda eru óverjandi. Ljóst er ennfremur að afhending Nýja testamentis og nærvera presta er afþökkuð í skólum enda eiga foreldrar sjálfir að sinna trúarlegu uppeldi barna sinna.

Mögulegar afleiðingar:Trúaðir benda á að ekki aðeins trúarlegt heldur upp að vissu marki siðferðilegt uppeldi sé á ábyrgð foreldranna og krefjast þess að hið opinbera skólakerfi sé ekki með innrætingu á siðferðilegum eða trúarlegum viðhorfum. Skóli skuli t.d. ekki tala um sjálfsfróun, lauslæti eða fóstureyðingar sem eðlilegan hlut. (Trúað foreldri lýsir þeim hryllingi sem sú tilhugsun er að barnabarn þess deyji vegna þess að barn þess hafi leitað ráða hjá kennara með röng viðhorf). Viðhorf til slíkra hluta séu á ábyrgð foreldra. Foreldrar taka yfir siðferðilegt uppeldi barna sinna eins og þeir tóku yfir ábyrgð á tannheilsu á sínum tíma.

Næstu skref:Sjá afdrif tannheilsu.

Á meðan því stendur:Trúuð samfélög gera samninga við einkaskóla eða stofna sína eigin skóla þar sem inntökuskilyrði er að foreldrar séu sáttir við þá siðferðilegu og trúarlegu innrætingu sem þar fer fram. Skólarnir munu ná góðum árangri sökum mikils áhuga foreldra og kennara – auk þess sem þeir þurfa ekki að sinna ýmsum vandamálum sem tíðkast í almenna skólakerfinu. Íslensk börn verða í auknum mæli alin upp án tengsla við fjölbreytileika mannlífsins og án þess að þurfa að díla við ögrandi álit annarra á innrætingu foreldra þeirra. Börn frjálslyndra fá oft á tíðum enga innrætingu eða litla á meðan börn róttækra fá ótruflaða og látlausa innrætingu.
Lyktin af árangri í bland við oggulítið yfirlæti verður til þess að hópar trúaðra telja sig eiga fullt erindi á svið stjórnmála nær og fjær. Þeir setja stefnuna á allt frá skólaráðum til Alþingis í þeirri von að hafa góð áhrif á þeim vettvangi sem öll þjóðin er meira og minna sammála um að sé ónýtur, spilltur og sjúkur – stjórnmálum.Í ljós kemur að baráttan við að kasta oki kerfisbundinnar innrætingar af fólki hefur hætt að vera barátta fyrir frelsi og umburðarlyndi og er orðin að baráttu fyrir innrætingarrétti. Vill einhver veðja á móti þessari atburðarás?


*Upptalning af bloggi Snorra í Betel.

2 ummæli:

Bjössi sagði...

Ég veðja hálfri milljón. Verðtryggt til fimm ára.

Ólafur Tryggvi sagði...

Sammála því að með því að úthýsa trúnni úr grunnskólum sveitarfélaganna aukast líkurnar á því að kristnir, múslimar osfv. setji börnin sín í einkaskóla þar sem trúariðkun fær svigrúm.

Ósammála öðru.

Til dæmis því hvernig þú setur myndskreytir bloggið með myndum af Snorra í Betel og Georg Bush, svona rétt eins og þessir menn hafi eitthvað að gera með trúmál á Íslandi. Þessir menn hafa allt annan skilning á kristni en meginþorri Vestur-Evrópubúa. Blogg-færslan tekur heldur ekki tillit til þess að kristnar kirkjudeildir eru með eindæmum margbreytilegar og lífsgildi kristinna spanna allt siðferðilega og pólitíska litrofið. Það er allt of algengt í umræðu hér á landi, finnst mér, að spyrða saman kirkjudeildir sem eiga ekkert sameiginlegt nema trúarjátninguna. Þjóðkirkjan á Íslandi á þannig mjög lítið sameiginlegt með baptista söfnuðum, svo dæmi sé tekið, þar á meðal Betel.
Til að gera málið enn "litríkara" mætti benda á að skoðannir á siðferðilegum efnum eru mjög skiptar innan Þjóðkirkjunnar svo ekki sé talað um stjórnmálaskoðannir. Það er enginn ein lína í þeim efnum.
Annað til umhugsunar. Þú segir:
"Börn frjálslyndra fá oft á tíðum enga innrætingu eða litla á meðan börn róttækra fá ótruflaða og látlausa innrætingu."
Þetta er gildishlaðið með eindæmum. Öll erum við stöðugt innrætt, hvort sem við komum úr "trúuðu" umhverfi eða ekki. Það er stöðugt verið að innræta mennskunni í okkur öllum, í öllum sínum fjölbreytileika, til góðs og ills.

Ég er afturámóti alveg sammála þér að trúmal eigi ekki heima í skólum sem sveitafélögin eða ríkið reka. Það gengur ekki á tímum fjölmenningar. Ég er líka sammála þér um að það leiði til þess að fólk sendi börnin sín frekar í einkaskóla. Það myndi ég gera ef ég ætti börn á grunnskólaaldri. (Í þeim skóla væri EKKI kennt að samkynhneigð væri synd og best væri ef þú værir fáanlegur til að kenna gagnrýna hugsun.)

Ég verð að lokum að viðurkenna að þessi óumflýjanlega þróun særir mitt gamla sósíaldemókratíska hjarta.

Ég tek semsagt ekki veðmálinu.